Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 16:10:28 (6923)


[16:10]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hef ekki áður hlýtt á jafnæstan ræðumann fullyrða jafnoft að vel hafi tekist til

í ákveðnu máli en ljúka svo máli sínu á því að lýsa því yfir ,,hér held ég að hafi vel tekist til``. Ef hann hefði nú talað í tvo tíma þá hefði hann trúlega komist að hinu gagnstæða, þ.e. hann hefði fullyrt: hér tókst illa til.
    Hæstv. ráðherra varð það nefnilega á að hefja hér miskunnarlausa skothríð með fúkyrðum og stóryrðum án þess að skilgreina sjálfur hvað hann var að tala um. Hver er kolkrabbinn? Vill hæstv. ráðherra svara því úr sæti sínu? Hver er kolkrabbinn? --- Hann brosir, hæstv. ráðherra, það er ekkert svar. Nú hlær hæstv. ráðherra. Hver er kolkrabbinn? ( Fjmrh.: Frændi Páls Péturssonar.) Nú er svo komið að frændi Páls Péturssonar, hæstv. fjmrh., er farinn að hjálpa hæstv. sjútvrh. en það er ekki eining um svarið.
    Ég veit ekki til að ég hafi í mínum málflutningi nokkurn tímann haldið því fram að það bæri að selja einhverjum einum fremur en öðrum þetta fyrirtæki. Umræðan hefur ekkert verið á því stigi. Það vita allir að þegar það gerist að hópur þingmanna biður um skýrslu þá er það til að leita upplýsinga og sú skýrslubeiðni sem hér lá fyrir inniheldur hvergi ásakanir um að kolkrabbinn hafi verið að fá eitthvað. Hvar í skýrslubeiðninni eru þær ásakanir? Hvar er krafan um það að Haraldur í Andra hefði átt að fá þetta fyrirtæki? Hvar eru þessar ásakanir? Þær eru ekki til, hæstv. ráðherra. Þú býrð þér til fjandmenn og ferð að grýta þá. Maður spyr sjálfan sig: Hvernig hefur hæstv. ráðherra sofið undanfarnar nætur? Eru miklu fleiri í salnum en þeir sem við hinir sjáum þegar hæstv. ráðherra er kominn í ræðustól?
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt að byrja á því að vekja athygli hæstv. ráðherra á samþykkt ríkisstjórnar Íslands á leikreglunum. 12. okt. 1993 eru samþykktar leikreglur um sölu á ríkisfyrirtækjum. Þessar leikreglur eru trúlega settar fram og samþykktar af ríkisstjórninni vegna þess m.a. að það eru tveir flokkar í ríkisstjórn og annar stjórnarflokkurinn, sem ekki kemur til með að hafa hönd í bagga með sölunni, vill hafa áhrif á það hvaða leikreglur eru notaðar. Er það óeðlilegt? Er ekki hægt að gera ráð fyrir því að Sjálfstfl. hafi á að skipa slíku liði vitsmunamanna að þeir geti samið leikreglur og staðið við þær? Þær eru samþykktar 12. okt. 1993 í ríkisstjórn Íslands og gildissviðið er skv. 11. gr., sem ég held að sé óhjákvæmilegt annað, herra forseti, en að ég lesi hana:
    ,,Reglur þessar taka til allra fyrirtækja sem ríkissjóður selur eða hyggst selja. Reglurnar taka einnig til eignarhluta í fyrirtækjum sem ríkissjóður selur eða hyggst selja. Viðkomandi ráðuneyti og framkvæmdanefnd um einkavæðingu bera ábyrgð á að farið sé að verklagsreglum þessum.``
    Hvorki meira né minna. Það er ekki nóg að það séu settar reglur heldur eru settir ábyrgðaraðilar til að sjá til þess að farið sé eftir reglunum. Hvað segir svo Ríkisendurskoðun? Það var ekki annað á ráðherra að heyra en að skýrsla Ríkisendurskoðunar væri bara lofgjörð um framkvæmdina. Samt stóð ansi mikið á því að þessi skýrsla fengist birt.
    Ríkisendurskoðun segir svo í niðurstöðum, með leyfi hæstv. forseta, upphafsorð Ríkisendurskoðunar um niðurstöður:
    ,,Ríkisendurskoðun telur að þeim verklagsreglum sem samþykktar voru af ríkisstjórninni 12. okt. 1993 og fylgja skal við framkvæmd á einkavæðingu hafi ekki verið fylgt sem skyldi við undirbúning og sölu hlutabréfa í SR-mjöli hf. Að mati stofnunarinnar var sú ráðgjöf sem stjórnvöld fengu við söluna ekki að öllu leyti eins vönduð og æskilegt hefði verið.``
    Þetta eru dómsorðin. Eftirlitsaðilarnir með að reglurnar skyldu virtar brutu reglurnar. --- Og nú er hæstv. sjútvrh. horfinn úr salnum. (Gripið fram í.) Nei, hann er bara að leita ráða í hliðarsölum. Það er ekki skrýtið þó hann þurfi að leita ráða í hliðarsölum. Það er svo að það er ekki hægt að geyma vitið í handtöskunni. Það verður stundum að geyma það annars staðar. Og ef svo er komið að það þurfi að hafa aðstoðarmenn, hvers vegna er þeim ekki skipað í stóla fyrir aftan ráðherrann og látnir hvísla í eyra hans hvað hann eigi að segja? Hvers vegna þarf að geyma þá í hliðarsölum? Er það hugsanlegt að hæstv. ráðherra hafi bara ekki kynnt sér málið en sé farinn af stað núna að fá upplýsingar um þetta?
    Dómur Ríkisendurskoðunar er tvímælalaus. Reglurnar voru brotnar. Reiðist þá ekki hæstv. forsrh., æðsti yfirmaður eftirlitsins yfir reglunum? Nei, hann reiðist ekki. Og hver skyldi skýringin vera? Herra forseti, skýringin er merkileg. Hæstv. forsrh. skrifar undir sem fjmrh. þegar salan á sér stað. Það er skýringin á því hvers vegna hæstv. fjmrh. situr svo rólegur í stól sínum. Það er ekki sanngjarnt að skjóta á hann. Hann veit það, enda brosir hann og er kátur. Honum líður vel. Aldrei þessu vant líður hæstv. fjmrh. vel á þessu kjörtímabili. Hann hefur átt marga dapra daga, það skal viðurkennt.
    Sá dómur Ríkisendurskoðunar að reglurnar voru ekki virtar er jafnframt yfirlýsing um það að samstarfsreglur Alþfl. og Sjálfstfl. í þessu máli voru brotnar. Það merkilega er að Alþfl. getur staðið uppréttur í málinu og sagt: Þær leikreglur sem við settum voru brotnar. Það var ekki farið eftir þeim.
    Þá hlýtur að vera næsta spurning í málinu: Hvers vegna var markaðinum ekki treyst til að verðmeta hlutabréfin? Stórfyrirtæki eru alltaf af og til til sölu. Hlutabréfin eru seld í heilu lagi, þ.e. öll eða hluti af þeim, og þá er það markaðurinn sem verðleggur. Og hverjar eru hinar eðlilegu leikreglur þegar markaðurinn verðleggur? Ég ætla, með leyfi forseta, að reyna að lýsa því eins og mér sýnist eðlilegt að staðið sé að undir þeim kringumstæðum.
    Af hverju var ekki útboðið á hlutabréfunum með líkum hætti og þegar hlutafélög eru að fara í fyrsta sinn á almennan markað eða þegar hlutafélög á almennum markaði er að auka hlutafé sitt? Þá er algengt að verðbréfafyrirtæki útbúi útboðsgögn og hlutabréfin eru sett á markaðinn á ákveðnu gengi. Það fer síðan eftir viðtökum markaðarins hvort gengið er of hátt eða lágt. Með þessum móti eiga allir möguleika

á að kaupa hlutabréf. Allir fá aðgang að nauðsynlegum upplýsingum til að meta hlutabréfin sem fjárfestingarkost og þar með ákvarðar markaðurinn verið á hlutabréfunum og því fæst hið rétta verð fyrir hlutabréfin. Í viðskiptum sem þessum eru hlutabréfin nánast undantekningarlaust staðgreidd. Ef framkvæmdin hefði verið með þessum hætti hefðu allir landsmenn og þar með talin öll fyrirtæki, stofnanir og sjóðir í landinu haft jafna möguleika á að kaupa hlutabréfin í þessu arðvænlega fyrirtæki.
    Hvað er þetta gamalt fyrirtæki? Þetta er 63 ára gamalt fyrirtæki sem hefur þá verið sett af stað á milli 1930 og 1940. Það er virkilegt umhugsunarefni þegar ung fyrirtæki hrynja í landinu hvert eftir annað þá líti menn svo á að þetta fyrirtæki búi við svo sveiflukennt ástand að menn þurfi nánast að geta séð fyrir hvernig loðnan hegðar sér, skilgreint það fram í tímann hvað hún ætli að gera, til að vera færir um að meta það á hvaða verði eigi að selja svona fyrirtæki. Þetta er 63 ára gamalt fyrirtæki og hvað segja stjórnendur þess um þetta fyrirtæki? Á bls. 10 í skýrslu sjútvrh. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Síldarverksmiðjur ríkisins höfðu starfað í 63 ár er félaginu var breytt í hlutafélag. Framlög ríkisins til félagsins voru óveruleg ef nokkur allan þann tíma en þá eru undanskildar þær 400 millj. sem ríkissjóður er nú að yfirtaka af skuldum Síldarverksmiðja ríkisins.``
    Hvert var svo staðgreiðsluverðið? Ef tilboðið sem samþykkt var upp á 725 millj. er fært yfir í staðgreiðslu þá er verðið 664 millj. kr. og um 250 millj. í reiðufé í fyrirtækinu. Ef við leggjum svo saman þær 400 millj. sem ríkið var búið að yfirtaka af skuldunum og bætum við peningunum sem eru inni, hvað er þá eftir, hæstv. ráðherra? Hver er þá hlutur ríkisins út úr sölunni þegar þetta er skoðað? Hæstv. ráðherra ætlar ekki að notast við tölvu að þessu sinni heldur leggja þetta saman á blaði fyrir framan sig og ég vona að það viti á gott.
    Hverjir eru vitnisbærir í svona máli? Hverjir hafa sannarlega engra hagsmuna að gæta þannig að hægt sé að segja að þeirra skrif um þessi mál mótist af viðhorfum þeirra? Þeir hljóta að vera til í landinu.
    Einn af þeim sem hefur skrifað um þetta mál er dr. Gunnlaugur Þórðarson. Dr. Gunnlaugur skrifaði líka um söluna á Útvegsbankanum á sínum tíma. Og það verður að segjast eins og er að hann hitti naglann á höfuðið í þeirri umræðu. Hvað skyldi hann kalla greinina sem hann skrifar um þetta mál? Hann kallar hana: ,,Upptaka á almannafé.`` Engar ásakanir um það að verið sé að selja kolkrabbanum, ef hann veit hvað kolkrabbinn er frekar en sá sem hér stendur. Sjútvrh. virðist hafa það á hreinu. Engar yfirlýsingar um að það hefði átt að selja Haraldi í Andra þetta fyrirtæki. Hann er þó jafnrétthár og hver annar til að mega bjóða í eignir á Íslandi og kaupa þær ef því er að skipta. Engar yfirlýsingar um slíkt, aðeins sett fram sú kenning að hér sé um að ræða upptöku á almannafé. Og það, hæstv. ráðherra, sýnist mér að hafi gerst.
    Það er komið í veg fyrir það að markaðurinn fái að verðleggja fyrirtækið. Markaðnum er ekki treyst. Markaðurinn er ekki einhverjir þrír menn, fjórir eða fimm, sem ákveða hvað hlutirnir eiga að kosta. Ef markaðurinn væri það þá hefði Sovétskipulagið staðist. Þeir voru með fleiri í æðstaráðinu til að ákveða hvað hlutirnir ættu að kosta. En þeir eru margir sem vilja nota rússnesku miðstýringuna ( SJS: Síðustu leifarnar.) síðustu leifarnar. Vilja nota rússnesku miðstýringuna til að ákveða verðið. Er það þannig markað sem verið er að tala um? ( GÁ: Einkavinavæðing.) Markaðurinn á Íslandi er að vísu ekki í mjög skipulegu formi. Þó er kominn löglegur hlutabréfamarkaður í landinu þar sem einkafyrirtækin eru að selja hlutabréf. Sá markaður er nógu góður til að einkafyrirtækin treysti sér til að selja hlutabréfin á honum. Hvers vegna treystir íslenska ríkisstjórnin ekki markaðnum? Hvers vegna treystir hún ekki hlutabréfamarkaðnum til að verðleggja hlutabréfin? Það getur ekki verið nema ein skýring á því hvers vegna þeir treystu ekki markaðnum. Þeir vilja ráða því hver niðurstaðan verður um verðið og selja í samræmi við það. Það er ekkert skrýtið þótt hv. þm. Vilhjálmur Egilsson þurrki sér um augun. Það hefur margur gert það af minna tilefni. (Gripið fram í.) Ég fullyrti ekkert um það, hv. þm., hvort hann hefði fellt tár. Það er hans einkamál.
    Það er umhugsunarefni að ríkisstjórn sem vill markaðsvæðingu, vill einavæðingu, treystir ekki markaðnum til þess að meta verð á fyrirtæki eins og þessu. Auðvitað getur ráðherrann sagt að það hafi ekki orðið nein uppreisn í Síldarverksmiðjum ríkisins þó þessi sala hafi farið fram. Ég kannast ekki við neina uppreisn í íslenskum fyrirtækjum þó þau hafi verið seld. Að vísu hopaði yfirherdeild Reykjavíkurborgar fyrir strætisvagnabílstjórum. Það var þó ekki uppreisn af þeirra hendi, alls ekki. Þeir rétt létu síga á sér brýrnar. Rétt létu brýrnar síga og þá hopaði liðið.
    Hér er aftur á móti látið í það skína að ef ekki hefði verið staðið svona að þessu máli hefði orðið uppreisn í Síldarverksmiðjum ríkisins, kaupendurnir e.t.v. líka hætt að kaupa mjölið. Seljendurnir, þ.e. veiðiskipin, hætt að selja. Hver trúir svona rugli? Fyrir hvern er þessi málflutningur?
    Ég ætla að vitna í grein dr. Gunnlaugs Þórðarsonar aftur og vekja athygli á því sem mér finnst vera þar eitt af því stóra, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á það má benda að nú stendur til að reisa fiskimjölsverksmiðju í Helguvík og er áætlað að hún kosti um kr. 700 millj. kr. en hin selda eign á velviðhaldnar voldugar verksmiðjur á fimm stöðum á landinu. Söluverð hlutafjár SR-mjöls er kr. 725 millj.``
    Þá er hann að tala um það eins og það er skráð, ekki metið til staðgreiðsluverðs. Í Helguvík telja þeir arðbært að byggja verksmiðju upp á 700 millj. kr. Það er verið að selja fimm verksmiðjur á staðgreiðsluverði upp á 664 millj. kr. ( VE: Yfirteknar skuldir líka.) Hvernig skyldi það vera með hv. þm. Vilhjálm Egilsson, fulltrúa Verslunarráðsins? Ætli enginn ,,goodwill`` hafi verið með í þessari sölu hjá 63 ára gömlu fyrirtæki. ( Landbrh.: Enginn hver?) Hann er að leita. Hæstv. fulltrúi Verslunarráðsins er að leita í skjölunum fyrir framan sig að ,,goodwillinni``. (SJS: Vill þingmaðurinn íslenska fyrir landbrh.?) ( Gripið fram í: Viðskiptavild.) Viðskiptavild. ( Landbrh.: Var þingmaðurinn að tala um dótturfyrirtæki sem var fallítt?) Nú hefur hæstv. landbrh., sem er manna mestur húmoristi þegar vel liggur á honum, það er að vísu bundið við það, tekið feil á því hvaða mál er á dagskrá og talið að það sé eitthvert dótturfyrirtæki. Svo er alls ekki. Hér er verið að ræða um fyrrum Síldarverksmiðjur ríkisins og það er ekki, hæstv. landbrh., verið að deila á kaupendurna. Það er ekki verið að deila á kaupendurna, ekki einu orði. Það kemur nefnilega í ljós að hjá þeim reyndist mun meira vit en á hinum staðnum. Ég vil nefnilega taka undir það hjá hæstv. sjútvrh. að ég held að þeir hafi haldið vel á sínum spilum. Og við eigum að meta það við menn þegar þeir halda vel á sínum spilum. Við eigum að meta það við þá. Það er spurning hvort ekki bæri að skipta.
    En hin staðreyndin blasir við, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að 63 ára gamalt fyrirtæki, sem ekki hefur verið á framfæri ríkisins, sett á stofn með ábyrgðum á sínum tíma, ekki sett á stofn með ríkisframlögum, er selt á þann hátt að það fæst ekki rétt verð fyrir eignirnar. Það veit hvert einasta mannsbarn í landinu að þetta var það sem gerðist. Og þeir sem eru fróðastir um það eru ráðherrarnir í ríkisstjórn Íslands. Þeir vita þetta allir með tölu. Þeir halda því fram að þetta hafi verið skynsamlegt til að koma í veg fyrir að það yrði uppreisn í verksmiðjunni, til að hægt væri að tryggja að þeir gætu keypt loðnuna, til að hægt væri að tryggja það að hægt hefði verið að selja. En þetta eru falsrök í málinu. Þeir vita að það var ekki þetta. Og enn einu sinni skal það tekið fram til að fyrirbyggja misskilning: Ég ætla ekki að kasta úr þessum ræðustóli einu einasta styggðarorði að þeim sem keyptu. Ekki einu einasta styggðarorði að þeim sem keyptu. Ég álasa mönnum ekki fyrir það að gera góð kaup. ( GHelg: Auðvitað ekki.) Auðvitað ekki, segir fyrrv. stuðningsmaður Sósíalistaflokks Íslands og núv. stuðningsmaður Alþb. og sérfræðingur í markaðsviðskiptum líka því hún hefur bent á að það sé hægt að græða á frímerkjum þegar Póstur og sími með einhverjum ástæðum skildi það ekki að frímerki eru verðmæt vara í sölu. ( GHelg: Enda sýndi það sig.) Enda sýndi það sig.
    Það getur vel verið að með ræðutækni sé hægt að standa hér upp, fullyrða að menn séu að bera sakir á ráðherrann fyrir einhverja hluti, fullyrða að það sé árás á ráðherrann, fullyrða að við séum að krefjast ákveðinnar niðurstöðu í sölumálunum en þetta eru blekkingar. Ég trúi því ekki að ræðutækni hæstv. sjútvrh., sem er mikil, dugi til þess að verja slíkar blekkingar. Það er aðeins eitt sem íslenska þjóðin horfir á í þessu sambandi og það orðaði dr. Gunnlaugur Þórðarson svo eftirminnilega, þ.e. upptaka á almannafé.
    Það er alveg ólíðandi að ekki sé hægt hér í sölum Alþingis að tala um það með eðlilegum hætti að selja fyrirtæki, sem við oft á tíðum teljum betur komin í höndum einkaaðila en ríkisins, vegna þess að við treystum ekki ráðherrum landsins til að annast söluna. Vegna þess að það er eins og það sé smitandi sjúkdómur hjá ráðherrum landsins að forðast það að selja fyrirtækin á réttu verði. Hæstv. sjútvrh. veit það mætavel að í þessum sal átti hann stuðning við að þetta fyrirtæki yrði selt. Hann veit það mætavel. Það þýðir ekki að koma með árásir eins og þær að við séum að fárast yfir því að þessi eða hinn hefði átt að fá þetta fyrirtæki. Deilan snýst ekki um það. Deilan snýst um hitt, enn og aftur, við viljum að eignir ríkisins séu seldar á réttu verði og við trúum því að það sé markaðurinn sem eigi að ráða.
    Hvernig er hægt að koma í veg fyrir það að markaðurinn ráði? Stundum er sú aðferð notuð að hafa svo mikið óðagot við söluna að menn séu ekki búnir að átta sig á því hvaða verðmæti eru boðin til sölu. Stundum er reynt að ýta öðrum út af borðinu eftir ýmsum ,,teknískum`` leiðum, talað um að það skuli vera traustir fjárfestar, það skuli vera ákveðnar fyrir fram svo nákvæmar tímasetningar að hægt sé að ýta út af borðinu aðila þó hann óski eftir fresti vegna þess að það liggi svo mikið á að framkvæma hlutina. Í skýrslunni stendur: ,,ekki var hægt að verða við`` þessu eða hinu út frá þessu sjónarhorni. Það er hægt að halda því fram finnst sumum að ef boðist er til að staðgreiða sé samt ekki hægt að treysta manninum til að kaupa. Nú gerist það ekki við staðgreiðslu að menn fái neitt afhent nema þeir borgi. Það er reglan í búðinni í það minnsta. Í sjoppunum hafa þeir ágætis ,,kontrol`` á þessu. Þeir afhenda bara ekki vöruna yfir borðið nema hún sé borguð, einfaldar leikreglur. Markaðurinn sér alveg um þetta og er ekki í neinum vandræðum. Ef það er staðgreitt þá er ekkert afgreitt nema það sé staðgreitt.
    Auðvitað geta menn deilt um það fram og til baka hvort 9 millj., sem ákveðið var að láta Verðbréfamarkað Íslandsbanka fá umfram það sem aðrir buðust til að vinna verkið fyrir, sé vinargreiði, þóknun, eða hvað við eigum að kalla það. 9 millj. eru náttúrlega 9 millj. En við skulum ekki vera þau börn að telja að það sé aðalatriði málsins. Það er skiptimyntin í þessu dæmi. Hæstv. ráðherra er ánægður, hann heldur að þetta hafi verið gott hjá sér, íslenska þjóðin veit betur.