Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 16:52:00 (6930)


[16:52]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt eru ýmsar aðferðir til þess að leita eftir því að láta markaðinn segja til um verð á hlutabréfum. Sú leið sem hér var valin er ein af viðurkenndum leiðum í því efni. Hún er ekki mín uppfinning, hún er tillaga þáv. stjórnar fyrirtækisins, hún er tillaga óháðs verðbréfafyrirtækis, hún er tillaga söluhóps sem átti aðild að þessu máli og á þessum grundvelli fékkst fram hvað markaðurinn var reiðubúinn að greiða. Þetta eru staðreyndir málsins og fullkominn útúrsnúningur hjá hv. þm. að halda öðru fram. Þessi aðferð sem notuð var er viðurkennd aðferð til að leita til markaðarins og í fullu samræmi við þær leikreglur sem ríkisstjórnin setti og kenndar eru við einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar, enda gerði hún engar athugasemdir við að þessum leikreglum yrði fylgt og tók eðlilegan þátt í meðferð málsins og lokafrágangi þess og niðurstaðan staðfest af þeim ráðherra sem fer með yfirstjórn þeirra mála. Þannig að allar þessar fullyrðingar eru haldlausar hjá hv. þm. og sýna þann flótta sem hann er á í málinu.