Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 16:54:49 (6932)


[16:54]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni ákaflega alvarlegt mál. Það hafa verið bornar fram þungar ásakanir á hendur þeim sem hafa stýrt þessum einkavæðingarmálum ríkisstjórnarinnar og þar er ráðherra auðvitað undir mesta ámælinu sem aðalábyrgðamaður þessara hluta. Ég vil fyrst, vegna þess sem kom hér fram áðan til þess að það haldist í samhengi, vekja athygli á því að hæstv. ráðherra er ekki færri sinnum en þrisvar búinn að halda því fram að hann hafi farið alfarið eftir tillögum hópsins, þ.e. stjórnar SR-mjöls hf., við framgang þessa máls. Þá vil ég vitna, með leyfi forseta, í skýrslu Ríkisendurskoðunar en þar stendur á bls. 13 með hvaða hætti þessar reglur voru settar. Þar segir:
    ,,Í samræmi við vilja ráðherra sem kom fram á nefndum stofnfundi gerði stjórnin tillögur um framtíðarskipan fyrirtækisins. Stjórnin lagði fram tillögur sínar 7. október 1993.``
    Helstu niðurstöðurnar voru hvernig ætti að standa að sölu fyrirtækisins. Það hafði ekkert farið á milli mála með hvaða hætti hæstv. ráðherra vildi að yrði staðið að sölu fyrirtækisins og stjórnin gerði þá tillögu eftir því sem ég a.m.k. veit best í fullu samkomulagi og samráði við hæstv. ráðherra. Þannig að hann var aldeilis ekki að hlaupa eftir einhverjum mönnum úti í bæ, hann var að framkvæma þá hluti sem hann hafði í fullu samráði við stjórn SR unnið að því að undirbúa. Hann virðist vera að segja sig frá þessum reglum núna, að hann hafi tekið þátt í því að undirbúa þær.
    Það eru feikilega miklir hagsmunir í húfi í þessu fyrirtæki sem við erum að fjalla um. Þetta fyrirtæki hefur starfað í 63 ár og ég vil benda á það sem stendur í skýrslu hæstv. sjútvrh. vegna þess sem hæstv. landbrh. sagði hér áðan að fyrirtækið hefði sótt peninga til ríkisins. En á bls. 10 í skýrslunni um SR-mjöl hf. stendur:
    ,,Síldarverksmiðjur ríkisins höfðu starfað í 63 ár er félaginu var breytt í hlutafélag. Framlög ríkisins til félagsins voru óveruleg ef nokkur allan þann tíma en þá eru undanskildar þær 400 millj. kr. sem ríkissjóður er nú að yfirtaka af skuldum Síldarverksmiðja ríkisins.``
    Þetta lætur hæstv. ráðherra í sína skýrslu og mótmælir hvergi. Svo kemur hæstv. landbrh. og heldur því fram hér í ræðustól að það hafi verið mokað peningum í þetta fyrirtæki.
    Ég held því fram að upplýsingum um stöðu fyrirtækisins hafi ekki verið komið á framfæri með fullnægjandi hætti og ég mun rökstyðja það hér á eftir. Ég held því fram að söluverð fyrirtækisins hafi verið langt frá sannvirði. Ég held því fram að rangur tími hafi verið valinn til að selja fyrirtækið. Ég held því fram að tímafrestir í málinu hafi verið óskynsamlegir, þeir hafi verið allt of stuttir og kaupendur hafi ekki getað unnið með eðlilegum hætti að gerð sinna tilboða. Ég held því fram að öflugasti kaupandinn hafi ekki fengið tækifæri til þess að gera tilboð. Ég held því fram að fjölmargar ásakanir sem hafa komið fram um meðferð málsins frá hendi Ríkisendurskoðunar og öðrum aðilum séu sumar hverjar réttar. Ég held því fram að þarna hafi menn gengið fram í blindri trúarvissu um það eitt og stefnt að því eina markmiði að selja fyrirtækið hvað svo sem fengist fyrir það.
    Í þessari skýrslu sem hæstv. ráðherra hefur lagt á borð segir svo til fremst:
    ,,Í 3. gr. laga nr. 20/1993 eru ákvæði þess efnis að sjávarútvegsráðherra fari með eignarhlut ríkisins í félaginu og sé heimilt að selja hlutabréfin öll eða hluta þeirra.``
    Það stendur líka, og þar er vitnað í greinargerð með frv., að meta þurfi sérstaklega hvenær aðstæður séu ákjósanlegar til sölu áður en til ákvörðunar kemur.
    Og á bls. 13 í skýrslunni stendur og ég vil vekja athygli á því að það er það eina sem kemur fram um það að menn hafi reynt að átta sig á því hvort aðstæður til að selja fyrirtæki væru heppilegar. En það er í lok skýrslu stjórnarinnar. Þar stendur:
    ,,Stjórn SR-mjöls hf. telur sig hafa orðið vara við áhuga fjárfesta á kaupum á hlutafé í fyrirtækinu. Samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknastofnunar má vænta góðrar loðnuveiðar a.m.k. næstu tvær vertíðar. Með tilliti til þessara atriða telur stjórnin ekki eftir neinu að bíða og leggur til að starfshópurinn hefjist handa við að láta verðmeta hlutaféð og vinna aðra nauðsynlega undirbúningsvinnu þannig að sala geti farið fram sem allra fyrst.``
    Þetta er það eina sem kemur fram í þeim gögnum sem hafa verið lögð fram í þessu máli og bendir til þess að reynt hafi verið að meta sérstaklega hvort aðstæður væru ákjósanlegar til að selja fyrirtækið á þeim tíma sem látið var til skarar skríða.
    Það segir á bls. 2 í skýrslunni, og ég ætla að fara í gegnum skýrsluna í þeirri röð sem málefnin eru þar talin upp þó það geti kannski verið svolítið ruglingslegt stundum. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Þegar þessari spurningu er svarað, er nauðsynlegt að hafa í huga að þegar framkvæmdanefnd um einkavæðingu mælti með því við sjútvrn. að samið yrði við Verðbréfamarkað Íslandsbanka hf. vissi enginn hverjir yrðu kaupendur að hlutabréfum í SR-mjöli. Á þeim tímapunkti hafði ekkert komið fram um

hugsanlega viðsemjendur sem gaf tilefni til vanhæfis VÍB.`` Síðan kemur og ég sleppi úr þarna á milli: ,,Engin athugasemd kom þá fram af hálfu tilboðsgjafanna. Hefði einhver af væntanlegum tilboðsgjöfum viljað bera vanhæfi VÍB fyrir sig hefði átt að gera það þá, það hefði verið rétti tíminn.``
    Þarna virðist vera einhver reginmisskilningur á ferðinni. Ásakanir á hendur þeim sem vildu bjóða í fyrirtækið um að þeir hefðu átt að gera vart við það að þeir væru óánægðir með þessa hluti. Vanhæfi af þessu tagi sneri ekki að þeim endilega. Ég tel að þarna hafi fyrst og fremst verið verkefni og umhugsunarefni fyrir hæstv. ráðherra þegar það kom í ljós hverjir áttu aðild að tilboðum í fyrirtækið að átta sig á því hvort þeir sem um þetta áttu að fjalla væru til þess hæfir úr því að þeir áttu óbeina aðild að kaupum á fyrirtækinu.
    Síðan stendur: ,,Verðbréfamarkaður Íslandsbanka skilaði söluhópi verðmati í lok nóvember --- sjá fylgiskjal 3. Hafa verður í huga að mjög miklar sveiflur eru í rekstri fyrirtækis á borð við SR-mjöl hf. þannig að mikil áhætta er fólgin í rekstri fyrirtækisins. Rekstur Síldarverksmiðja ríkisins gekk illa á árunum 1980--1992. Samanlagt tap tímabilsins var um 1.300 millj. kr. miðað við verðlag í ágúst 1993. Afkoman sveiflaðist mikið milli ára en að meðaltali töpuðu Síldarverksmiðjur ríkisins um 90 millj. kr. ár hvert.``
    Þetta var nákvæmlega það sem hæstv. ráðherra vitnaði til áðan og vildi gera að aðalröksemdinni fyrir því að ekki hefði verið hægt að fá meira verð fyrir fyrirtækið.
    Ég vil vekja athygli manna á því að það hefur orðið algjör umsnúningur í möguleika fyrirtækisins til þess að vera rekið með hagnaði. Og ég held að þeim hlutum hafi illa verið komið til skila. Í fyrsta lagi þegar menn meta undanfarin ellefu ár fyrirtækisins verða menn að gera sér grein fyrir því að á þessum tíma hafa Síldarverksmiðjur ríkisins byggt gjörsamlega upp og endurnýjað verksmiðjur sínar t.d. á Siglufirði. Sú verksmiðja var algjörlega endurbyggð og það er stærsta og afkastamesta verksmiðjan í landinu. Það er líka nýlega búið að taka í notkun nýjustu verksmiðju fyrirtækisins á Seyðisfirði, algjörlega nýja verksmiðju sem framleiðir gæðamjöl sem fyrir fæst verulega mikið hærra verð heldur en annað mjöl. Það hefur fengist upp undir 40% hærra verð á stundum fyrir það mjöl sem sú verksmiðja framleiðir.
    Síðan er vert að vekja athygli á því að þær hömlur sem ríkisvaldið lagði á Síldarverksmiðjur ríkisins á meðan þær voru í eigu ríkisins eru ekki lengur fyrir hendi. Það var t.d. ekki leyfilegt að Síldarverksmiðjur ríkisins tækju þátt í útgerð loðnuskipa. Aðrar verksmiðjur í landinu hafa verið að gera slíka hluti og haft út úr því ákveðna möguleika, bæði til þess að fá hráefni til sín og hafa áhrif á verð á hráefni. Allt þetta þarf að meta þegar menn eru að velta því fyrir sér hvort þetta fyrirtæki geti skilað hagnaði á næstu árum.
    Þá kem ég að því sem ég vil segja að segi best söguna um það hvort rétt hafi verið staðið að sölunni á fyrirtækinu. Það er að þegar fyrirtækið var auglýst til sölu lýstu 14 aðilar áhuga sínum á kaupum á fyrirtækinu. Hvernig endaði svo sú saga? Hún endaði þannig að einungis einn aðili kom til greina samkvæmt mati þeirra sem stóðu að sölunni á fyrirtækinu. Og söguna þekkja allir. Þann 21. des. fengu menn frest til að skila tilboðunum fyrir 28. des., held ég að það hafi verið. Skyldi nokkrum lifandi manni sem hefði verið að selja eignina sína, við skulum bara segja húseignina sína, hafa dottið í hug að bjóða mönnum upp á það að selja þeim hana á þessum tíma, auglýsa hana, afhenda útboðsgögn og ganga frá hlutunum 21. des. og segja: Elskurnar mínar, nú klárum við þetta fyrir 28. des. því ég má ekki vera að því að bíða eftir þessu lengur.
    Síðan voru ýmis atriði sem starfshópurinn, sem bar ábyrgð á þessu en auðvitað ber ráðherrann fyrst og fremst ábyrgð í málinu, setti fram til þess að þrengja kaupendahópinn. Það virðist hafa verið að yfirlögðu ráði sem það var gert. Það er a.m.k. erfitt að skilja það öðruvísi.
    Það er t.d. alveg makalaust að þegar leið að áramótunum og þessi furðulegi frestur var að renna út þá kom beiðni frá öflugasta aðilanum, sem hafði áhuga fyrir því að kaupa fyrirtækið, en það var Akureyrarbær. Í skýrslu hæstv. ráðherra segir, með leyfi forseta: ,,Ekki var unnt að verða við þeirri málaleitan.`` Það er nákvæmlega ekki eitt einasta orð um hvers vegna það var ekki hægt. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að gera þinginu skilmerkilega grein fyrir því hvers vegna í ósköpunum ekki var hægt að verða við þessari málaleitan, rökstyðja það þannig að menn skilji. Ég trúi því ekki að ef einkaaðilar hefðu verið að selja þetta fyrirtæki hefðu þeir ekki gefið jafnöflugum kaupanda og þarna var á ferðinni möguleika til þess að gera tilboð í fyrirtækið. Kannski er að finna einhverjar skýringar á þessu sem menn geta lesið út úr skýrslunum sem menn hafa í höndunum.
    Um verðmæti þessa fyrirtækis er hægt að ræða margt fram og til baka. Ég tel að það sem Ríkisendurskoðun segir um verðmæti fyrirtækisins geti verið rétt. Og það getur verið rétt að segja að það sé markaðurinn sem að lokum segir til um það hvert verðmæti fyrirtækisins er. En það hefur ævinlega verið hygginna manna háttur að láta ekki markaðinn ráða gjörsamlega yfir gerðum sínum og mér finnst furðulegt að hæstv. ráðherra skuli ekki fresta sölu á fyrirtækinu þegar hann sá hvað hann var að fá fyrir það. Það hafði komið fram í verðmætamati sem var gert á fyrirtækinu að það var talið 2 milljarða 362 millj. kr. virði. Það hafði komið fram að það hafði verið metið niður af þeim aðilum sem um þetta fjölluðu í 1.880 millj. kr.
    Það hafa komið fram ýmsar tölur um hvers virði þetta fyrirtæki geti verið. En skyldi það ekki segja einhverja sögu um það hvað menn eru með í höndunum að endurstofnverð þessa fyrirtækis nálgast 5 milljarða kr.? Það liggja fyrir útreikningar á því. Og þrátt fyrir að á því hvíli nokkrar skuldir er greinilegt af þeim hagnaði sem fyrirtækið skilaði á síðasta ári að hér er á ferðinni mjög sterkt og öflugt fyrirtæki.
    Mínar ásakanir í þessu máli eru ekki af því taginu að ég sé að setja út á það hvaða kaupendur hafa nú eignast fyrirtækið. Það sem ég set út á í þessu máli er fyrst og fremst málsmeðferðin. Og ég tel fullsannað að hagsmuna ríkisins hafi ekki verið gætt. Hver hefði látið sér detta það í hug að rjúka til og selja fyrirtæki sem búið er að reka áralangt með tapi, nýbúið að byggja upp með nýjum tækjum og loksins farinn að sjást hagnaður af rekstrinu, áður en upplýsingar um stöðu fyrirtækisins komast til skila út í þjóðfélagið? Ríkisendurskoðun segir t.d. í sinni skýrslu að það sé vafasamt að framlag ríkisins, 400 millj. í reiðufé og yfirtaka á skuldum vegna lífeyrisskuldbindinga, hafi komist til skila þannig að markaðurinn vissi það. Og það voru alveg nýjar fréttir að hagnaðurinn væri orðinn svona mikill af fyrirtækinu. Hafa menn t.d. gert sér grein fyrir því að í efnahagsreikningi fyrirtækisins um áramótin 1992--1993 þá var fyrirtækið talið eiga 21 millj. kr. í eigið fé? En ári síðar, á efnahagsreikningi næstu áramót á eftir, er eigið fé fyrirtækisins talið um 1.300 millj. kr. Það hafði nefnilega ýmislegt gerst á þessu tímabili og ég er ansi hræddur um að æðimargir sem hafa áhuga á að leggja peninga í hlutabréf í fyrirtækjum hafi ekki haft hugmynd um hvað var að gerast í þessu fyrirtæki.
    Hæstv. ráðherra gerði mikið úr því að stjórnarandstaðan væri með ósanngjarnar ásakanir á hendur honum um að hann hafi t.d. verið að gefa fyrirtækið og hafi brotið allar reglur. Ég kannast ekki við að hafa látið eitt einasta orð frá mér opinberlega í þessu máli fyrr en nú. Ég tel að aftur á móti hafi ýmsir aðilar, sem full ástæða er til að taka mark á, sett fram ásakanir sem ekki er hægt annað en viðurkenna að hafi við rök að styðjast. Ég tel að það hafi verið ástæða til að halda að menn hafi t.d. viljað ráða því hverjir keyptu þetta fyrirtæki. Allt ferli málsins bendir til að það hafi verið meiningin.
    Ég vil leggja mesta áherslu á það í þessu máli að gjörsamlega breytt rekstrarstaða fyrirtækisins var ekki kynnt og að það var ekki gert er að mínu viti kannski einn alvarlegasti hlutur þessa máls. Ég tel að það hafi ekki verið kominn tími til að selja þetta fyrirtæki. Ríkið átti að eiga fyrirtækið eftir að búið var að gera það að hlutafélagi um tíma á meðan verið var að gera markaðnum fulla grein fyrir því hvernig staða fyrirtækisins væri. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta fyrirtæki verður sterkt og öflugt fyrirtæki áfram. Það hefði getað orðið það þó hæstv. ráðherrar hefðu ekki klúðrað sölunni á því.
    Hæstv. ráðherra kom í ræðustól og var mjög æstur. Það var hans fyrsta fullyrðing að vel hefði tekist til með söluna og sanngjarnt verð hefði fengist fyrir fyrirtækið. Það var sem sagt ekki meira virði en sem svaraði 130--140 millj. kr. því mismunurinn á því sem ríkið lagði fram í þetta fyrirtæki og því sem það fékk til baka var eitthvað um það bil 130--140 millj. kr. eftir að búið var að leggja í fyrirtækið 520 millj. á árinu eða verðmæti í kringum það. Þá er hæstv. ráðherra bara ánægður með niðurstöðuna að selja fyrirtæki sem á eigið fé upp á 1.300 millj. kr. og fá út úr því þessa peninga. Fyrirtæki sem er metið á að minnsta kosti tæpar 1.900 millj. kr. sem stofnvirði. Í sömu skýrslu kemur reyndar fram að upphaflegt mat var 2.300 millj. kr. Fyrirtæki sem þrátt fyrir þessa stöðu, sem menn virðast halda fram að hafi ekki verið góð, hafði þó rekstrarhagnað á árinu 1993 sem svaraði til 235--236 millj. kr. Það var ekkert minna.
    Hæstv. ráðherra sagði: ,,Langur og vandaður undirbúningur áður en kom að þessari sölu, ,,fór í einu og öllu að tillögu ráðgjafanefndarinnar``. Ég lýsti því hér áðan hvernig sú tillaga varð til, þ.e. fyrir frumkvæði hæstv. ráðherra. Hann sagði að eitt af markmiðunum hefði verið að vinna hratt og örugglega. Ég held að það hafi nú verið það markmið sem best var farið eftir. Það markmið var að minnsta kosti ekki svikið. Það var unnið hratt og örugglega. Og á gamlársdag gengu menn frá sölunni.
    Ég held að Alþingi Íslendinga þurfi að láta sér þetta mál að kenningu verða. Og að láta ekki svona stórt mál eins og þetta í hendur hæstv. ráðherra. Svona ákvörðun þarf að koma til Alþingis til staðfestingar eftir að ákvörðun hefur verið tekin. Alþingi hlýtur að þurfa að hafa einhverja möguleika til að taka á þegar eitthvað misferst eða þegar það kemst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið nægilega vel staðið að málum. Ég er sannfærður um það að í þessu máli hefur ekki verið staðið rétt að hlutunum. Ég er sannfærður um að það hefði verið hægt að fá hærra verð fyrir fyrirtækið. Ég er sannfærður um að það hefði verið hægt að tryggja framtíð þess ekki síður með öðrum aðferðum en þarna var beitt. Það þurfti ekki að taka ákvörðun um það fyrir fram hverjir ættu að fá að kaupa þetta fyrirtæki og það var nógur tími fram undan til að selja það. Það horfir vel um rekstur þessa fyrirtækis og vonandi mun það ganga eftir sem menn eru að vona. Ég óska þessu fyrirtæki sannarlega velfarnaðar. En ég lýsi ábyrgð á hendur þeim sem fara með fjármuni ríkisins eins og raun ber vitni í þessu máli.