Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 17:20:41 (6933)


[17:20]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það eru aðeins örfá atriði. Í fyrsta lagi vil ég segja: Verklagsreglum þeim sem ríkisstjórnin setti á sínum tíma var fylgt að áliti framkvæmdanefndarinnar sem hafði með þessi mál að gera og með framkvæmdina að gera. Það er enginn ágreiningur á milli framkvæmdanefndarinnar annars vegar og söluhópsins hins vegar.
    Í öðru lagi vegna verðsins á fyrirtækinu og endurstofnverðsins vil ég taka það fram að fulltrúi Ríkisendurskoðunar sem skoðaði reikninga Síldarverksmiðja ríkisins haustið 1991 varaði við framreikningi á

stofnverðinu. Það var deila á milli fjmrn. og sjútvrn. um stofnefnahagsreikninginn og fjmrn. taldi hann of hátt metinn, vildi nefna töluna 725 millj. sem lá nær því að vera markaðsverð á fyrirtækinu, m.a. til þess að afskriftarverðið væri ekki of hátt. Það var tekist á um þetta á milli ráðuneytanna. Ríkisendurskoðun tók afstöðu til þessa máls og hefur tekið afstöðu með sjútvrn. málinu, ég vil láta það koma hér skýrt fram. Ríkisskattstjóri lýsti því síðan yfir að það væri ekkert sem bryti í bága við lög varðandi það þegar efnahagsreikningurinn var færður upp með þeim hætti.
    Og loks vil ég, virðulegur forseti, að það komi hér skýrt fram að það er ekkert sem hefur komið fram í þessum umræðum, ekkert sem hefur komið fram hjá Ríkisendurskoðun nema síður sé um að fyrirtækið hafi verið selt á einhverju röngu verði. Það held ég að hljóti að hafa verið niðurstaðan í þessum umræðum og ég er sannfærður um að menn eru tilbúnir til þess að staðfesta það, einnig þeir sem hafa verið beðnir um að skila skýrslu um málið.