Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 17:24:20 (6935)


[17:24]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var að vonum lítið um svör hjá hv. þm. Fyrirtækið mun reyndar greiða skatt á þessu ári en það sem skiptir máli í því sambandi sem við erum að ræða hér og skiptir þá ekki máli hvort sá sem hér stendur er fjmrh. eða ekki er að Ríkisendurskoðun tekur afstöðu á bls. 23 í skýrslunni og segir, með leyfi forseta:
    ,,Miðað við þá útreikninga sem eignarmats- og tekjuvirðisaðferðir gefa til kynna telur Ríkisendurskoðun að stofnefnahagsreikningurinn sé ekki ofmetinn.``
    Ríkisendurskoðun sjálf tekur þessa afstöðu til málsins, ég var því ekki sammála en ég hef fallist á niðurstöðuna, ekki síst eftir að ríkisskattstjóri hafði fjallað um málið og sagt að það bryti ekkert í bága við lög í þessu sambandi.
    Þeir sem nenna að lesa það sem fulltrúi Ríkisendurskoðunar sagði á sínum tíma um þetta mál, sjá það strax í hendi sér hve erfið staða fyrirtækisins var þannig að menn verða að skoða þetta mál í ljósi sögunnar.
    Loks hjó ég eftir því að hv. þm. mótmælti því ekki sem menn verða að taka tillit til, að verklagsreglurnar eru reglur sem framkvæmdanefndin á að fara eftir. Framkvæmdanefndin hefur sagt að söluhópurinn hafi farið að þessum reglum. Þetta er ekkert flóknara mál en svo. Menn verða að taka tillit til þess sem gerðist, sérstaklega þegar sjútvrn. var með málið í upphafi, þá voru þessar reglur ekki til. Svo einfalt er þetta mál. Það má hins vegar sífellt koma upp og gera málið grunsamlegt en ég verð að taka það fram sem ég hef sagt hérna til þess að menn skilji við hvað er átt þegar upp kom ágreiningur á milli ráðuneytanna, eðlilegur ágreiningur á sínum tíma. Niðurstaðan er fengin og fjmrn. sættir sig við niðurstöðuna m.a. vegna þess að Ríkisendurskoðun tók afstöðu með sjútvrn.