Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 17:26:31 (6936)


[17:26]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það stendur nú í niðurstöðu Ríkisendurskoðunar að samanburður á mati tilboðsgjafa á framtíðartekjuvirði SR-mjöls hf. og á mati VÍB bendi til þess að verðmæti fyrirtækisins hafi verið hærra en endanlegt kaupverð þannig að skoðun Ríkisendurskoðunar liggur alveg fyrir í því efni. Það að fyrirtækið mun greiða skatta á þessu ári, þ.e. fyrir reksturinn á síðasta ári, segir ekki mikla sögu. Það þarf nefnilega töluvert mikinn gróða til þess að fyrirtækið borgi skatta á öllum næstu árum. Ef ég man rétt þá er það einhvers staðar langleiðina í 100 millj. kr. í hagnað á hverju einasta ári sem þarf til þess að fyrirtækið fari að borga skatta.

    Nei, ég held að það sé engin spurning um það að hvað sem menn segja í þessari umræðu þá hlýtur niðurstaðan að verða sú að hér voru á ferðinni allt of hroðvirknisleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eða réttara sagt ráðherra úr ríkisstjórninni og hæstv. forsrh., sem skrifaði undir þetta, það er kannski út af fyrir sig skemmtilegt að það skuli vera með. Hæstv. forsrh. skrifaði undir þessa sölu og þannig hefur öll ríkisstjórnin af þessu auðvitað hinn mesta ama og mun hafa svo lengi sem menn ræða þetta mál.