Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 17:30:39 (6938)


[17:30]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra heldur sig við það að það hefði auðvitað verið rétti tíminn til að selja. Ég er á allt annarri skoðun í því máli og ég tel mig hafa rökstutt það hér. Fyrirtækið var komið á allt annan rekstrargrundvöll en það hefur haft til margra ára litið og það hafði ekki komist til skila til markaðarins hvers konar ástand fyrirtækið var komið í. Það hlýtur hver maður sem vill hafa skynsemi á hlutunum að hafa hugsað sig um að fara að selja fyrirtækið áður en þær ráðstafanir sem búið var að standa yfir í mörg ár og voru gerðar til þess að koma þessu fyrirtæki í gott rekstrarform voru farnar að skila sér. Þetta er það sem var aðalatriði málsins. Ekki það hvort verið væri að spá í tveggja ára loðnuveiði því menn þurftu auðvitað að horfa til miklu lengri tíma þegar þeir voru að meta það hvort það væri rétt að selja fyrirtækið nú eða síðar. Um það að markaðurinn hafi fengið að ráða og það sé mismunandi skoðun á því hjá þeim sem hafa hér talað fyrir hönd stjórnarandstöðunnar, þá vil ég bara segja það að markaðurinn fékk að ráða með ákveðnum þvingunarráðstöfunum. Menn stjórnuðu bókstaflega öllu ferlinu til enda. 14 aðilar vildu fá tækifæri til að bjóða í fyrirtækið. Það var einn eftir að lokum sem hafði möguleika og aðstæður til að bjóða í það. Þannig var þessu máli stjórnað. Og auðvitað gat Akureyrarbær ekki boðið í fyrirtækið vegna þess að tíminn var ekki nægur til þess að gera þetta almennilega. Mér þykir það einkennilegt þegar hæstv. ráðherra kemur og seilist eftir rökum í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem Ríkisendurskoðun segist ekkert hafa við það að athuga þó það sé sest að samningaborði við eitthvert fyrirtæki og menn séu ekki að líta á þetta sem tilboð. Í öðru orðinu tekur hann þetta sem rökstuðning fyrir málinu og svo mætir hann aftur í ræðustólinn og bendir á það að t.d. Akureyrarbær hefði átt að geta verið búinn að skila sínu tilboði því honum hefði ekki verið vandara um þó að fresturinn hafi verið stuttur, en öðrum fyrirtækjum.