Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 17:33:03 (6939)


[17:33]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég minni hv. 3. þm. Vesturl. á það að eina athugasemdin sem Ríkisendurskoðun gerir um málsmeðferðina sem felur í sér þá gagnrýni að aðilunum hafi verið mismunað er sú athugasemd að ég hafi að tillögum ráðgjafa veitt Haraldi G. Haraldssyni rýmri frest en öðrum til þess að sýna fram á að hann hefði fjárhagslegan styrk. Þetta er eina athugasemd Ríkisendurskoðunar sem gengur út á það að aðilum hafi verið mismunað. Og ég get tekið undir þessa athugasemd, hún á vissulega rétt á sér þó ég hafi talið eðlilegt að gefa honum þennan rýmri frest. ( SvG: Eina athugasemdin?) En þetta er eina athugasemdin sem gengur út á það að aðilum hafi verið mismunað og það á við nokkur rök að styðjast. Það er auðvitað grundvallaratriði að láta reglurnar gilda og við hefðum auðvitað fengið yfir okkur enn harðari athugasemdir ef við hefðum farið að framlengja frestinn vegna óska annarra aðila. Þetta held ég að hv. þm. hljóti að gera sér grein fyrir og er auðvitað grundvallaratriði þessa máls.
    Eftir þessa umræðu og ræðu hv. þm. þá stendur það enn óhaggað að í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir hvergi að verksmiðjurnar hafi verið seldar við óeðlilegu verði. Þar er beinlínis tekið fram að það er ekki sett gagnrýni fram á verðmat Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka. Þetta eru auðvitað lykilatriði í þessu sambandi og það hefur með skýrum rökum verið sýnt fram á það að salan á þessum hlutabréfum er í fyllilegu og algjöru samræmi við sölu á öðrum hlutabréfum í stórum fyrirtækjum á sl. ári.