Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 17:36:57 (6941)


[17:36]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar hæstv. ráðherra mælti áðan fyrir þessari skýrslu þá sagði hann að stjórnarandstaðan hefði lýst því yfir að það hefði átt að taka tilboði Haraldar Haraldssonar. Nú minnist ég þess ekki að ég hafi heyrt menn segja að það ætti að taka því tilboði. Hins vegar hefur því verið lýst yfir að það ætti að skoða það alveg jafnt og hitt tilboðið. Ef þessi tilboð voru á annað borð bæði metin af þeim hópi sem átti að skoða það mál, ef þau voru bæði metin jafnhæf, hvers vegna var þá ekki alveg jafnt skoðað hvort Haraldur gæti staðið við þetta? Það hefur einnig komið fram að hæstv. ráðherra vill ekki viðurkenna það að þarna hafi fyrirtækið í raun og veru verið selt fyrir umtalsvert lægra verð en hugsanlega hefði verið hægt að fá fyrir það þótt ekki sé verið að tala um nema þessa tvo aðila hér sem gerðu síðan tilboð í fyrirtækið. En það liggur alveg fyrir að milli þessara tveggja tilboða eru uppreiknaðar 107 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðun þá eru hér uppreiknaðar 107 millj. kr. þótt við séum ekki að tala um annað en mismuninn á milli þessara tveggja tilboða. Stjórnarandstaðan hefur á engan hátt lýst því yfir að það hefði átt að taka þessu tilboði endilega vegna þess að það væri miklu betra tilboð, það væri öruggara tilboð. Það átti auðvitað að skoða þessi tilboð alveg jafnt. Hins vegar er ekki hægt að segja fyrir um það hvort þetta verðmat fyrirtækisins hefur verið rétt nema því aðeins að það væri metið af fleiri en einum aðila.
    Á bls. 24 í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir, eins og hæstv. ráðherra reyndar vitnaði í hér hluta af áðan, með leyfi forseta: ,,Erfitt er að segja til um hvert sé eðlilegt verð á fyrirtækinu. Það kemur ekki í ljós fyrr en kaupendur leggja fram ákveðið verðtilboð. Það er síðan eiganda að meta það hvort hann vill selja á því verði sem boðið er. Engu að síður er nauðsynlegt fyrir eiganda að gera sér fyrir fram sem gleggsta grein fyrir virði fyrirtækisins og getur hann gert það á þann hátt að skoða efnahaginn, meta eignirnar og gera sér jafnframt grein fyrir framtíðartekjuvirðinu.``
    Það sem ekki virðist hafa verið gert þegar ákveðið er að skoða þessi tvö tilboð og raunar ekki nema annað tilboðið þegar til kemur, er að menn hafa ekki fyrst verið búnir að gera sér grein fyrir því hvað þeir ætluðu að fá fyrir fyrirtækið. Þeir eru tilbúnir að setjast niður og fara að semja við það fyrirtæki sem þeir ákveða að semja við sem raunar hafði ekki lagt fram lögmætt tilboð, heldur aðeins lagt fram viljayfirlýsingu um að ganga til samninga en á þeim tíma er allt sem bendir til að ríkissjóður hafi í raun og veru ekki verið búinn að gera sér grein fyrir því hvert verðmat fyrirtækisins var.
    Við breytingu á Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag var fljótlega stefnt að sölu. Það lá fyrir við samþykkt þeirra laga. Það eru sett fram ákveðin skilyrði sem skuli vinna að við þá sölu. Síðan lýsir ráðherrann því yfir á stofnfundi fyrirtækisins í byrjun júlí að það muni verða stefnt að sölu hið allra fyrsta. Þetta er stórt fyrirtæki og þó að ríkisstjórnin sé ákveðin í því að framfylgja sinni einkavæðingarstefnu þá hefði hún átt að skoða þetta mál út frá því að hér er eitt stærsta einkavæðingarmálið og það er mikilsvert að vel takist til.
    Verklagsreglur einkavæðingarnefndar eru samþykktar 12. okt. og strax 13. okt. er skipaður þriggja manna starfshópur sem á að sjá um sölu á fyrirtækinu. Það er byrjað með því að óska eftir tilboðum frá verðbréfafyrirtækjum. Það koma tvö tilboð sem er verið að skoða, reyndar fleiri í upphafi, en í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru fyrst og fremst nefnd tvö tilboð sem hugsanlega hefði verið hægt að taka. Landsbréf gerir tilboð upp á 1,9 millj. og VÍB tilboð upp á 11,4. Um þetta segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:
    ,,Af hálfu framkvæmdastjóra Landsbréfa hf. kom fram að hann taldi Landsbréf hf. á engan hátt hafa verið vanhæft heldur hafi hann ákveðið að láta málið kyrrt liggja eftir samtal við formann framkvæmdanefndar um einkavæðingu.`` Þ.e. eftir að búið er að hafna því að Landsbréf sjái um söluna. ,,Landsbréf hf. hafi álitið að ef nefndin teldi einhverja hnökra geta komið upp þá væri betur heima setið en af stað farið. Framkvæmdastjórinn tók fram að Landsbréf hf. hafi átt farsælt og hnökralaust samstarf við framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Þeir hefðu m.a. séð um undirbúning og sölu á hlutabréfum í Gutenberg hf. sem engan eftirmála hefði haft í för með sér.
    Í ljósi laga nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti, er það mat Ríkisendurskoðunar að litlar líkur hafi verið á því að Landsbréf hf. yrði talið vanhæft til að annast sölu bréfanna. Því hefði verið eðlilegt að látið hefði verið reyna formlega á tilboð Landsbréfa hf. í ljósi þess að félagið bauð rúmlega 9,5 millj. kr. lægra í verkið en VÍB og hefði auk þess áður sinnt sambærilegri þjónustu hnökralaust.``
    Þetta er nú það fyrsta sem er einkennilegt við þessa málsmeðferð.
    Í öðru lagi eftir að tilboði VÍB var tekið er eins og segir í skýrslu sjútvrh. gerður samningur 3. nóv. 1993 á grundvelli tilboðs VÍB. Þar var sem sagt Verðbréfamarkaði Íslandsbanka falið að verðmeta eignir SR-mjöls og hafa umsjón með sölu hlutabréfanna. Það var ekki gerður skriflegur samningur og það er einnig gagnrýnt í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hér er um stórt og mikið mál að ræða, mikla hagsmuni, og það hlýtur að verða að gera þá kröfu að það liggi alveg skýrt fyrir hvernig á að standa að þessu verki. Það var ekki talin þörf á því að gera skriflegan samning um vinnuna.
    Síðan fer allt ferlið af stað og raunar hefur hæstv. ráðherra viðurkennt það hér að tímafrestir hafi nú verið nokkuð stuttir. Þegar fyrirtækið er auglýst til sölu þá lýsa 14 aðilar áhuga á kaupum. Öllum þessum aðilum er tilkynnt með bréfi 7. des. að þeir þurfi að gefa seljanda bréfanna upplýsingar sem eru taldar upp í fimm liðum. Þær upplýsingar eiga koma fyrir kl. 16 mánudaginn 13. des. 1993. Síðan er jafnframt tilkynnt að haft verði samband við þátttakendur sem teljast fullnægja þessum skilyrðum fyrir kl. 12 föstudaginn 17. des. Það eru sem sagt aðeins þarna fjórir dagar á milli. Í framhaldinu á svo að óska eftir tilboðum í hlutabréfin með tilboðsfresti til kl. 16 þriðjudaginn 28. des.
    Hvers vegna var lögð svona mikil áhersla á að allt gengi svona hratt fyrir sig? Með því að lesa þær skýrslur sem hér liggja fyrir um málið þá kemur á engan hátt nein skýring á því, ef við erum að hugsa um hag ríkissjóðs, hvers vegna lá svona mikið á og hvers vegna var ekki fylgt venjulegum reglum um útboð og útboðsfresti. Það kemur einnig fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þrír aðilar hafi síðan verið metnir hæfir til að bjóða í fyrirtækið.
    Þriðji aðilinn sem við höfum lítið rætt hér, Akureyrarbær, fór fram á framlengingu tilboðsfrests til 20. janúar 1994. Ekki var unnt að verða við þeirri málaleitan, segir í skýrslu hæstv. sjútvrh., og verður því ekki fjallað um þann tilboðsgjafa frekar hér. Nú hefur hæstv. sjútvrh. lýst því yfir að hann hafi gefið einum af þessum tilboðsgjöfum lengri frest en ástæða var til eða raunverulega löglegt var. Hvers vegna var þá ekki hægt að gefa Akureyrarbæ þennan frest til þess að skila inn tilboði? Það liggur fyrir að þeir hafa ekki fengið þau gögn sem þeir þurftu að nota fyrr en 21. desember. Það er ekki hægt að segja annað heldur en það að allir frestir í þessu máli eru mjög stuttir og það er ekki tekið eðlilegt tillit til þeirra sem þó hafa hugsað sér að bjóða í fyrirtækið. Það er líka athyglisvert að Ríkisendurskoðun metur það svo að af þessum þremur aðilum sem ætlað er að bjóða í fyrirtækið og eru metnir hæfir í fyrstu umferð þá hafi í raun og veru báðir þeir aðilar, sem síðan teljast hafa sent inn tilboð, ekki skilað inn löglegum tilboðum.
    Það má lesa það út úr skýrslu Ríkisendurskoðunar að í raun og veru hafi Akureyrarbær verið sá eini sem hafi verið hæfur til þess samkvæmt þeim reglum sem settar voru að leggja fram tilboð en þeim aðila er ekki gefinn sá frestur sem hann þurfti nauðsynlega til þess að ganga frá eðlilegu tilboði. E.t.v. hefði Akureyrarbær átt að gera eins og sá hópur sem síðan fékk þetta fyrirtæki. Hann hefði e.t.v. átt að gera eins og segja bara: Við lýsum yfir vilja til þess að ganga til samninga. Við erum tilbúnir að ræða málin og skoða hvað við getum gert og hverja við fáum til þess að vera með í tilboðinu hjá okkur því það er nánast það sem þeir aðilar gerðu sem síðan var selt fyrirtækið.
    Allt í kringum þetta mál er mjög einkennilegt og það er kannski ekki undarlegt að það hafi verið sagt í umræðum um þetta mál eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út að það þurfi virkilega að skoða það hvort til álita komi að rifta þessum samningi. Það liggur þá fyrir að öll málsmeðferð í þessu máli hefur vægast sagt verið nokkuð einkennileg.
    Það má kannski minna á það að þegar hv. fjárln. fjallaði um þetta mál 12. jan. sl. kom fram eindregin ósk, sem lögð var áhersla á með bókun frá minni hluta fjárln., um það að ekki yrði gengið frá sölunni fyrr en skýrsla Ríkisendurskoðunar um málið lægi fyrir. Það hefur jafnframt komið fram að þeim aðilum sem tilboðinu var tekið hjá eða samið var við var gefinn frestur til 1. febr. til þess að ganga frá sínum málum og skila inn endanlegu tilboði. 12. janúar hefði því vel verið hægt að fresta að ganga frá sölunni og taka tillit til þeirra ábendinga sem komnar voru um það að mönnum þætti einkennilega vera staðið að þessari sölu.
    Á bls. 43 í skýrslu Ríkisendurskoðunar er farið yfir atburðarásina við sölu á hlutabréfunum í

SR-mjöli og með leyfi forseta ætla ég að lesa það upp:
  ,,a. 17.--19. nóv. 1993 var tilkynning birt um að selja ætti hlutabréfin.
    b. 7. des. 1993 var áhugasömum aðilum sent bréf með skilyrðum fyrir þátttöku.
    c. 13. des. var lokadagur til að svara bréfinu frá 7. des.
    d. 17. des. voru útboðsgögn afhent.
    e. 28. desember voru tilboðin opnuð.``
    Það var gert án þess að gefa tilboðshöfum færi á að vera við. Þeim var ekki boðið það. Í skýrslu hæstv. sjútvrh. segir að engin ósk hafi komið frá tilboðsgjöfum um það að vera viðstaddir opnun tilboðanna. Ég hélt bara að það væri viðtekin regla og viðtekin venja að þeim tilboðsgjöfum sem ættu tilboð í verk eða í eitthvert fyrirtæki væri boðið að vera við opnun tilboðanna. Það gildir a.m.k. á flestum þeim stöðum sem ég þekki til. En það er eins og annað í þessu máli. Það virðist ekki hafa verið fylgt viðurkenndum reglum og lögum.
    Af því sem hér er hægt að lesa má ráða það að tíminn frá tilkynningu til skilyrðabréfs er aðeins 18 dagar. Tími til að uppfylla skilyrði var 6 dagar og tilboðin voru opnuð 11 dögum eftir afhendingu útboðsgagna. Það voru sem sagt 39 dagar frá því að tilkynningin birtist um að VÍB hafi hlutabréf SR-mjöls til sölumeðferðar þangað til tilboð í hlutabréfin voru opnuð. Þess vegna sýnist nú vera rétt að benda á það að í bréfi Akureyrarbæjar til VÍB, sem er dagsett 28. des. sýnist með nokkrum rétti vera kvartað yfir of skömmum tíma til undirbúnings og tilboðsgerðar. Þar segir Akureyrarbær að þeir hafi ekki fengið gögnin fyrr en þriðjudaginn 21. des.
    Menn hafa nokkuð reynt að toga það hvort hér sé um venjulegt útboð að ræða, sem fylgja eigi reglum og lögum um útboð, eða hvort hér sé um almennt hlutafjárútboð að ræða sem fylgja eigi lögum um verðbréfaviðskipti. Í þeim lögum, þ.e. lögum nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti, er ekki að finna neinar sérstakar reglur um útboð eða sölu á hlutabréfum, a.m.k. er samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar ekki neitt sem getur átt við söluna á hlutabréfum í SR-mjöli. Aftur í lögum nr. 65/1993, um framkvæmd útboða, segir hér í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta. Þar er sérstaklega rætt um auglýsingar á útboði:
    ,, . . .  en þar segir m.a. að almenn útboð skuli auglýsa í blöðum, útvarpi eða með öðrum almennum hætti þar sem fram komi hvar og hvenær útboðsgögn séu til afhendingar. Bjóðendur skulu hafa aðgang að upplýsingum um það sem verið er að bjóða. Þá skal kveða á um hæfilegan frest til að skila tilboði. Einnig er fjallað um hvernig meta eigi tilboð, eðli útboða, þ.e. hvort þau eru opin eða lokuð o.s.frv. Lög þessi gilda þegar útboði er beitt um verk, vöru eða þjónustu. Þau gilda ekki um útboð á fjármagns- og verðbréfamarkaði. Engu að síður sýnist mega hafa þessi ákvæði og sjónarmið sem að baki þeim búa til hliðsjónar við útboð á hlutabréfum af því tagi sem hér er rætt um.``
    Þetta segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Og í reglum um innkaup ríkisins segir einnig:
    ,,Frestur til að skila tilboðum skal vera 21 almanaksdagur.``
    Ég held að það sé vert að taka undir lokaorðin í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem segir að ekki hafi verið veittur nægjanlegur frestur til að skila tilboðum og bendir Ríkisendurskoðun á að mikilvægt sé að útboðsskilmálar séu skilmerkilegir og í samræmi við almennar leikreglur. Þá telur Ríkisendurskoðun einnig að setja þurfi ákvæði í útboðsgögn um það í hve langan tíma bjóðendur þurfi að standa við tilboð sín.
    Það er auðvitað eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði hér áðan endalaust hægt að velta því fyrir sér hvert verð fyrirtækisins hefði átt að vera, hvort það verð sem fékkst fyrir það er það eina sem hægt hefði verið að fá eða ekki. En það hlýtur þó að vera skilyrði þegar ríkissjóður er að selja eina af sínum stærstu eignum, sem ákveðið er að selja, þá sé einn mikilvægasti þátturinn og sá vandasamasti að meta virði þess sem á að selja. Samanburður á mati tilboðsgjafa á framtíðartekjuvirði SR-mjöls og á mati VÍB bendir til þess að verðmæti fyrirtækisins hafi verið hærra heldur en endanlegt kaupverð. Fyrirtæki hafi sem sagt verið selt of lágt. En vitaskuld er Ríkisendurskoðun ekki að fullyrða eða koma með ásakanir í þessari skýrslu.
    Samkvæmt lögum um Ríkisendurskoðun á hún að vera þingnefndum til ráðuneytis og um það sem snertir fjárhagsmálefni ríkisins og hún kveður ekkert upp neinn dóm eða úrskurð. Það er einfaldlega ekki hlutverk Ríkisendurskoðunar.
    Eins og segir í lögum nr. 12/1986, um Ríkisendurskoðun, þá á stofnunin að endurskoða reikninga ríkissjóðs og ríkisstofnana, hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga og vera þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins en Ríkisendurskoðun fer ekki með úrskurðarvald af neinu tagi. Hún lætur í ljós álit en kveður ekki upp úrskurði. Það sem gerðist við fyrstu skýrslu sem um þetta mál var gerð, þ.e. skýrslu Ríkisendurskoðunar, er að hún er að svara fjárln. Alþingis sem með bréfi þann 12. jan. óskaði eftir því að gerð yrði athugun á því hvernig staðið var að undirbúningi og sölu á hlutbréfum í SR-mjöli.
    Það sem Alþingi hlýtur að vilja fá fram þegar það óskar eftir slíkri skýrslu er hvort rétt hafi verið staðið að málum. Hvort öllum lögum og reglum hafi verið framfylgt til hins ýtrasta. Hvort ríkissjóður hafi fengið fyrir þetta fyrirtæki, sem hann var að selja, það sem eðlilegt getur talist og hvort gætt hafi verið hagsmuna starfsmanna, sem var eitt af atriðunum í greinargerð með frv. því sem samþykkt var um að breyta Síldarverksmiðjunum í hlutafélag.
    Ég tel að í þessu máli hafi menn flýtt sér um of. Það er ekkert sem segir að á þessum fáu mánuðum hafi nauðsynlega þurft að selja þetta fyrirtæki sem var í góðum rekstri og hafði skilað yfir 200 millj. kr. hagnaði frá því að fyrirtækinu var breytt í hlutafélag þannig að það var þá útlit fyrir að eitthvað fengist upp í þann fjárfestingarkostnað sem ríkissjóður hafði lagt í með því að gera fyrirtækið að því sem það var orðið. Það var búið að endurnýja allar eignir fyrirtækisins og það var orðið samkeppnisfært við aðrar loðnuverksmiðjur. Það lá ekkert á þessu annað en það að ríkisstjórnin varð að framfylgja sínum einkavæðingaráformum og það varð að ganga hratt.
    Ég tel að það sem framkvæmdarvaldið, þeir sem falið er að standa að slíkri sölu og einnig við á Alþingi eigum að læra af þeirri málsmeðferð sem við erum hér að ræða sé það að þegar staðið er í slíkri sölu þarf að gæta þess að öll málsmeðferð sé með þeim hætti að hún sé hafin yfir gagnrýni. Það hafa áður verið seld ríkisfyrirtæki eða eignir ríkisins og engin eftirmál orðið af því. En í þessu máli var ekki unnið á þann veg. Og það er eðlilegt og í hæsta máta nauðsynlegt að Alþingi veiti framkvæmdarvaldinu aðhald og skýrsla Ríkisendurskoðunar og raunar einnig skýrsla hæstv. sjútvrh. staðfestir að það er full þörf á slíku aðhaldi.