Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 18:07:54 (6944)


[18:07]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil aðeins í þessu sambandi minna á að samkvæmt verklagsreglum einkavæðingarnefndar þá er aðeins gert ráð fyrir að eitt óháð fyrirtæki framkvæmi verðmat. Vel má vera að það sé rétt ábending að fleiri óháð fyrirtæki komi að þegar slík sala er gerð en verklagsreglurnar mæla ekki fyrir um það. Enda var ekki fleiri aðilum falið að gera það með formlegum hætti en söluhópurinn hafði vitaskuld gert sér grein fyrir því hvað væri eðlilegt verð í þessu efni. Það hafði fjmrn. einnig og þegar kom að því að meta tillögur ráðgjafarfyrirtækisins voru báðir þessir aðilar reiðubúnir að leggja á það mat vegna undirbúningsvinnu af sinni hálfu. Það er ljóst að endanlegt verð var innan þess verðmats sem verðbréfafyrirtækið hafði lagt á þetta. Það er líka ljóst að Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemd við reikningsaðferðir og vinnubrögð verðbréfafyrirtækisins að þessu leyti.
    Það liggur líka fyrir að verðið í hlutfalli við innra verðmæti eða bókhaldslegt verðmæti fyrirtækjanna er fyllilega sambærilegt við söluverð á öðrum hlutabréfum á markaði hér. Ef horft er á enduruppfært verð þá var hlutfallið um 68% á meðan hlutabréf í Flugleiðum, Íslandsbanka og Hampiðjunni voru seld á 70%. Ef horft er á reikninginn áður en uppfærslan átti sér stað þannig að samanburðurinn sé sambærilegur við önnur fyrirtæki þá var það selt á 72% hærra verði en almennt gekk varðandi sölu á hlutabréfum á sama tíma. Það eru þessar tölur sem eru besta og gleggsta vísbendingin um það hvort við vorum að fá sanngjarnt verð fyrir fyrirtækið eða ekki og þær liggja alveg skýrar fyrir.