Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 18:30:56 (6950)


[18:30]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það liggur alveg skýrt fyrir að Ríkisendurskoðun telur ekki óeðlilegt að setja slík skilyrði fyrir þátttöku í útboðum fyrir að meta tilboð gilt. En hún segir að það hafi verið óeðlilegt að setja skilyrði fyrir afhendingu gagna. Þegar þetta hvort tveggja féll saman í tíma var örðugt um vik að bregðast á annan veg við en hér segir. En kjarni málsins er sá að þetta breytir engu varðandi jafnræði aðila. Allir aðilar sátu þrátt fyrir þetta við sama borð. Í þessu fólst engin mismunun milli aðila að öðru leyti en því sem áður hefur verið vikið hér að að Haraldi Haraldssyni var veittur lengri frestur en öðrum. Það gagnrýnir Ríkisendurskoðun og ég get í sjálfu sér tekið undir að það hafi verið gagnrýni vert. En að öðru leyti er alveg ljóst að þetta atriði leiddi ekki til mismununar á milli aðila.