Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 18:33:16 (6952)


[18:33]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er fyrst til að taka að það vakti athygli mína hve þung skot komu frá síðasta ræðumanni til þeirra vinnubragða sem ríkisstjórnin hefur viðhaft í þessu máli. Ég átti satt best að segja ekki von á því að það gætti svo mikillar bersögli. Hér var staðfest af Sigbirni Gunnarssyni, hv. 7. þm. Norðurl. e., að Ríkisendurskoðun heldur því fram að verðið hafi verið of lágt. Það var staðfest. Hv. þm. staðfesti líka að hann telur að jafnræðis hafi ekki verið gætt en sá er stóri munurinn frá sölunni á Þormóði ramma og þeirri sölu sem nú fór fram að það er búið að samþykkja stjórnsýslulög í landinu og það var dómsmrh. sem að sjálfsögðu flutti frv. Þar er jafnræðisreglan nr. 11 en þau lög voru ekki í gildi þegar Þormóður rammi var seldur á sínum tíma. Alþingi Íslendinga var búið að stöðva frv. frá fjárveitinganefnd um fjárgreiðslur úr ríkissjóði þar sem ætlunin var að taka á öllum þessum þáttum.
    Ég er sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Sigbirni Gunnarssyni að það þurfa að vera leikreglur. Þess vegna var samþykkt ríkisstjórnarinnar góð en það verður líka að fara eftir leikreglunum.