Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 18:58:17 (6960)


[18:58]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki miklu við að bæta almennar hugleiðingar hæstv. landbrh. og óskir hans um það að þetta fyrirtæki megi halda áfram að blómstra. Ég tek alveg undir það með honum. Ég veit að það hefur nú þegar veitt mörgum atvinnu og rekstur þess skipt sköpum fyrir bæjarfélögin og sveitarfélögin þar sem verksmiðjurnar eru starfræktar og fyrir þjóðarbúið í heild þegar vel hefur gengið, sem hefur því betur gerst oft þó að líka hafi á móti blásið.
    En ég ítreka það enn og aftur að mér finnst ekkert hafa komið fram hjá hæstv. ráðherra í andmælum hans sem raunverulega segir það að ég sé engum trúr í málinu og vaklandi í málinu. Ég hef sett fram mínar skoðanir á því og hef sama rétt og hann til að hafa þær. Ég tel að 725 millj. kr. með þeim greiðsluskilmálum sem á þeim voru geti verið til núvirðis metnar á kannski 665 millj. eða svo sem þýðir að það er komið undir lægri verðviðmiðunarmörk VÍB, sem voru 695 millj., að ógleymdum hagnaðinum sem var greiddur út örfáum dögum síðar að upphæð 65 millj. kr. Endanlegt söluverð er því kannski ekki nema 600 millj. kr. Það tel ég of lágt, hæstv. landbrh.