Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 19:04:52 (6965)


[19:04]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég er ekki sammála hv. 1. þm. Norðurl. e. um ályktanir þær sem hann dregur af skýrslu Ríkisendurskoðunar um verð fyrirtækisins. En ræða hans var hins vegar um margt málefnaleg. Það er athygli vert að hann staðfestir hér þá skoðun sína að það hafi ekki komið til greina að selja Haraldi Haraldssyni bréfin á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu. Hann lýsir því sem sinni skoðun eftir nánari athugun á þeim gögnum sem fyrir liggja að það sé ekki tilefni til að rifta. Þetta eru hvort tveggja mjög mikilvæg atriði og ég met það málefnalega framlag hv. þm. í þessu efni.
    Hann sagði að það hefði mátt gera þetta fyrirtæki að almenningshlutafélagi. Sannleikurinn er sá að það finnst varla traustara almenningshlutafélag en einmitt SR-mjöl hf. í höndum núverandi eigenda, 177 eigenda þar sem enginn einn aðili fer með meira en 7,5%, þar sem heimaaðilar og starfsmann eru þátttakendur, þar sem 19 skipstjórar og útgerðarmenn sem skipta við verksmiðjurnar eru meðal hluthafa. Ég held því að þessu markmiði hafi að fullu verið náð og fagna því að það er raunverulega skoðun hv. þm.