Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 20:30:55 (6969)


[20:30]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram allítarleg umræða í dag um sölu ríkissjóðs á hlutabréfum í SR-mjöli en strax í upphafi dugði hvorki ræðutækni hæstv. sjútvrh. né hinir löngu sérhljóðar til þess að sannfæra hv. þingheim um að þarna hefði verið allt með felldu. Hæstv. ráðherra hóf mál sitt með því að segja ósatt. Það er ósatt að nokkur úr stjórnarandstöðuflokkunum hafi lagt á það áherslu að selja hefði átt Haraldi G. Haraldssyni Síldarverksmiðjur ríkisins. Það hefur enginn maður sagt og er alveg óþarfi að blanda honum yfirleitt í þetta mál. Hans mál er á öðrum stað og er fyrir dómstólum og er þessari umræðu að mestu óviðkomandi.
    Síldarverksmiðjur ríkisins eru milljarðafyrirtæki, segja menn. Það þarf að vera traust og öflugt. Samt voru þessar síldarverksmiðjur seldar á 725 millj. kr. sem hafa verið greiddar eins og hér segir: 1. febr. 1994 voru greiddar út 125 millj. 15. mars voru greiddar 100 millj., og það er allt sem greitt hefur verið hingað til. 1. sept. í haust verða greiddar 100 millj. og 1. des. 1994 200 millj. Síðan verða síðustu 200 millj. greiddar í desember 1995.
    Þegar horft er til þess að áður hafði ríkissjóður leyst til sín 400 milljarða skuldir auk þess sem mikil uppbygging og miklar endurbætur höfðu farið fram á verksmiðjunum, þá verða þetta að teljast afar hagstæð viðskipti og hagstætt verð og ekki að undra þó að þjóðinni sem á þetta fyrirtæki blöskri. Þegar litið er til þess hvernig að þessu var staðið verður fólki ljóst að þetta tók ekki langan tíma. Það er ekki tímafrekt verk að selja milljarðafyrirtæki sem hundruð manna eiga atvinnu sína og lífskjör undir eins og hér hefur svo fallega verið sagt. Lög nr. 20/1993, um að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag, voru sett 5. apríl 1993, fyrir réttu ári síðan. SR-mjöl er síðan stofnað 6. júlí 1993 og starfshópur til að annast söluna er ekki stofnaður fyrr en 13. okt. í haust. Og allt er síðan um garð gengið 28. des. eða rúmum tveim mánuðum seinna. Og þó ekkert væri nú annað, þá er ærin ástæða til að undrast hvernig það má gerast að svona sé rokið í hlutina á örskömmum tíma eins og allt sé að farast.
    Fljótlega eftir áramótin varð fólk þó enn þá meira undrandi þegar ljóst var að 300 millj. ágóði yrði af fyrirtækinu á árinu 1993. Þá skyldu nú skynugir menn halda að þessu bæri vitaskuld að fagna og þessi ágóði yrði notaður til að greiða skuldir fyrirtækisins eða ógreidd hlutabréf. En hvað gerðist? Samstundis eru 65 millj. greiddar hinum glænýju hluthöfum í arð sem enn eiga eftir að greiða ríkissjóði 500 millj. og 1,3 milljarða í skuldir. Það verður hver sem vill að lá landsmönnum þó þeir undrist þessar aðfarir.
    Það var því ekkert að undra að fjárln. hins háa Alþingis óskaði eftir að það yrði kannað hvort hér hefði verið að staðið eins og ætlast verður til lögum samkvæmt. En þá upphófst þetta vandræðamál sem síðan hefur orðið til þess að nær allir hafa orðið sér til minnkunar, það verður að segjast eins og er, fjárln. Alþingi og ríkisstjórnin. Þetta mál hefur því satt að segja á sér heldur ömurlegan svip.
    Hér er búið að fara í mörg atriði þessa máls og ég mun þess vegna ekki endurtaka það sem allir aðrir eru búnir að segja. En ég vil aðeins gera örfá atriði að umtalsefni. Það eru allir sammála um að verðmæti fyrirtækisins hafi verið mun meira heldur en endanlegt kaupverð og ég held að við þurfum ekkert að deila um það lengur. Það er auðvitað lofsvert að hæstv. landbrh., sem hefur sýnt þessu máli verðugan áhuga og satt að segja lofsverðan, hafði orð á því í dag að ,,réttir aðilar`` hefðu orðið hlutskarpastir við sölu fyrirtækisins. Ég hefði gaman af að spyrja hæstv. landbrh. hvort hann telur þar með að Akureyrarbær, sem var sópað út af borðinu, eins og menn sögðu í dag, hafi ekki verið ,,réttur aðili`` til að kaupa Síldarverksmiðjur ríkisins eða SR-mjöl. Það væri fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra og þingmann Norðurlandskjördæmis eystra lýsa því yfir að þeir aðilar sem hnossið hrepptu hafi verið æskilegri og réttari en Akureyrarbær.
    Allt hefur þetta mál verið með þeim endemum að fram hjá öllum venjulegum viðskiptareglum hefur verið farið, tímafrestirnir svo litlir að nær ógerlegt var öllum öðrum aðilum en þeim sem hnossið hrepptu að ná áttum áður en einhver niðurstaða fengist. Þegar fyrirtækið er síðan auglýst til sölu eftir miðjan nóvember 1993 þá hafði VÍB ekki einu sinni lokið vinnu sinni við mat á verðmæti þess. Eins og Ríkisendurskoðun segir þá er þetta í ósamræmi við tillögu stjórnar SR-mjöls hf., en þar segir í 4. lið: ,,Félagið verði auglýst til sölu strax að lokinni verðlagningu.`` Hvernig í ósköpunum á að gera tilboð í fyrirtæki sem enginn veit hvað kemur til með að kosta eða hvers virði er?
    Þá verður það að teljast með ólíkindum að svo virðulegt fyrirtæki sem VÍB skuli ekki ganga frá skriflegum samningi um laun fyrir sína vinnu. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að minnast á þetta vegna þess að enginn hefur mótmælt þessari gagnrýni okkar alþýðubandalagsmanna. Þó að þessum stórfyrirtækjum þyki 11,4 millj. kannski ekki peningar þá erum við mörg önnur ekki lengra komin en svo að okkur finnst það vera heilmiklir peningar og í raun og veru fráleitt að ganga ekki frá því á sérstökum samningi hvernig þeim greiðslum skyldi háttað. Það verður að segjast VÍB til hróss að þeir hafa þegar viðurkennt að þarna hafi ekki verið eðlilega að farið.
    Þá verður það enn að teljast undarlegt að bjóðendum skuli ekki hafa verið gefinn kostur á því að vera viðstaddir opnun tilboðanna. Ég held að það hljóti að vera afar óvenjulegir viðskiptahættir. Við opnunina voru einungis viðstaddir söluhópurinn, starfsmenn VÍB og formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Það er ánægjulegt að sjá að hann hefur þó haft eitthvað í þessu máli að segja vegna þess að það er afar erfitt að sjá hvert hans hlutverk hefur verið í þessu máli. Ég hélt að framkvæmdanefnd um einkavæðingu ætti að annast einkavæðingu en hún er kannski bara til þess að halda einhverju fólki á launum. Sú nefnd virðist hafa gert það eitt að fela öðrum að annast söluna.
    Síðan þegar efasemdir t.d. hv. þingmanna í fjárln. koma fram og Ríkisendurskoðun er beðin um skýrslu gerist sá undarlegi hlutur að ríkisendurskoðandi vill ekki afhenda skýrsluna. Á því máli kann ég satt að segja engin skil og það eru auðvitað mikil mistök, bæði hv. fjárln. og enn alvarlegri mistök hv. forsætisnefndar að skýrslan skyldi ekki koma fram þá þegar. Sjáum við nú kjánalegt útspil þess máls þar sem ríkislögmaður heimtar nú upptöku málsins sem er fyrir dómi. Þó var það ástæðan fyrir því að skýrslan var ekki lögð fram að málið væri fyrir dómi og er það satt að segja ekki nokkrum manni í þessu húsi til sóma.
    En loks kom skýrslan og þá fara menn að gefa út aðrar skýrslur og það birtist greinargerð starfshóps um sölu hlutabréfa ríkissjóðs í SR-mjöli hf., rituð í tilefni af skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu ríkisins á SR-mjöli hf. eins og það heitir. Í söluhópnum er auðvitað stjórnarmaður SR-mjöls sem að sjálfsögðu var mjög annt um að þessi sala færi fram og því auðvitað engan veginn hlutlaus þannig að það er

nú eitt sem mætti kannski gera athugasemd við en hvað um það. En hæstv. forseti. Orðbragðið á þessari greinargerð er á þann veg að við það verður ekki unað. Það er ekki verkefni embættismanna ríkisins eða starfsmanna ráðuneyta að tala til Ríkisendurskoðunar sem heyrir beint undir Alþingi Íslendinga á þann veg sem gert er í þessari skýrslu og skal ég leyfa mér að taka nokkur dæmi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er í löngu máli`` segir hér ,,sett fram gagnrýni. Þessari gagnrýni vísar starfshópurinn á bug.`` Á öðrum stað stendur, virðulegi forseti: ,,Og því virðist starfshópnum sem þessi aðfinnsla Ríkisendurskoðunar sé nánast rökleysa.`` Á enn einum stað segir: ,,Sú spurning hlýtur að vakna í því sambandi hvort Ríkisendurskoðun telji að stjórnvöld séu bundin af slíkum pólitískum leikreglum gagnvart Alþingi og að Ríkisendurskoðun sé þar af leiðandi hinn rétti aðili til að úrskurða um hvort reglunum hafi verið fylgt eða ekki.`` Þessu má svara þannig að Ríkisendurskoðun hefur allt vald til að hafa þá skoðun sem henni sýnist, hún er sjálfstæð stofnun sem heyrir einungis undir Alþingi sjálft. Hér stendur enn: ,,Furðulegt er því að Ríkisendurskoðun skuli taka þær inn`` þ.e. fundargerðir framkvæmdanefndar um einkavæðingu ,,og meta sem gögn í málinu.`` Enn segir: ,,Raunar er það líka ranghermi í skýrslunni að formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu hafi gengið frá slíku samkomulagi við VÍB. Einkavæðingarnefndin gerði tillögu um það til ráðuneytisins og ráðuneytið gekk síðan frá samkomulaginu við VÍB.`` Svo segir loks:
    ,,Ríkisendurskoðun kýs hins vegar af einhverjum ástæðum að líta algerlega fram hjá þeirri staðreynd að einhver þekking á þessu atriði kunni að hafa verið fyrir hendi hjá þeim aðilum sem falið hafði verið að undirbúa söluna, þ.e. hjá seljandanum sjálfum.``
    Hæstv. forseti. Hér er meira að segja Ríkisendurskoðun lýst á bls. 3 með upphrópunarmerki á eftir. Og þar segir síðar á blaðsíðunni, með leyfi hæstv. forseta: ,,Starfshópnum virðist sem Ríkisendurskoðun geri í þessu sambandi ekki greinarmun á hugtökunum hæfi og hæfni.`` Og loks segir: ,,Ríkisendurskoðun var gerð grein fyrir þessu þegar unnið var að skýrslu stofnunarinnar, en hún hefur af einhverjum ástæðum kosið að fjalla ekki um þessar skýringar í skýrslu sinni.``
    Hæstv. forseti. Hér bera starfsmenn sjútvrn. og annarra ráðuneyta og starfsmenn starfshópsins Ríkisendurskoðun þungum sökum og ótal dylgjum sem hlýtur að verða að víta. Auðvitað hafa menn leyfi til að vera ekki á sömu skoðun og Ríkisendurskoðun í öllum málum. En Ríkisendurskoðun hefur þá stöðu að við hana ber að ræða af virðingu. Það er ólíðandi að láta svona skýrslu frá sér fara. (Forseti hringir.) Er ég búin með tímann, hæstv. forseti?
    ( Forseti (SalÞ): Já, tíminn er búinn.)
    Þá ætla ég að segja að lokum og ég geri mér grein fyrir að ég verð að biðja aftur um orðið að varðandi þá dreifingu sem átti að vera á hlutabréfunum ætla ég að lesa síðar í kvöld um samhengið í þeirri tilveru hverjir eiga hvað, hverjir fengu hvað og hverjir eru skyldir hverjum. Ég bið um orðið aftur, hæstv. forseti.