Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:17:52 (6974)


[21:17]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hef ítrekað óskað eftir skilgreiningu kolkrabbanum. Hvað er það sem menn eru að tala um þegar þeir tala um kolkrabba? Hvað á ræðumaður við? Hæstv. sjútvrh. upplýsir það ekki hvað hann á við þegar hann talar um kolkrabbann. Hv. 5. þm. Norðurl. v. talar um hann eins og einhvern einkavin sinn sem þurfi ekki að skilgreina frekar, hvorki búsetu, nafnnúmer eða nokkurn skapaðan hlut, það er bara kolkrabbinn. Og það er orðið tímabært að þeir fari að gera grein fyrir því hvaða skepna þessi kolkrabbi er þannig að við hinir komumst inn í umræðuna.