Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:25:17 (6981)


[21:25]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þessar umræður hafa á marga lund verið mjög fróðlegar, einkanlega fyrir þær sakir hversu sannfærðir sumir þingmenn virðast vera um það að unnt hefði verið að ná fram betri kosti og betri kjörum en gert var með sölunni á Síldarverksmiðjum ríkisins. Það er athyglisvert í ljósi þess að við höfum áratuga reynslu fyrir því hvað það þýðir ef fyrirtæki eru rekin með þeim hætti að á bak við þau standa ekki sterkir eigendur sem eru reiðubúnir til þess að leggja fé af mörkum ef hallar undan fæti. Við getum litið í kringum okkur, við getum farið hingað til Reykjavíkur, við getum farið um landið allt.
    Ég hygg að ef við byrjum á þeim punkti sé það sennilegt að samstilltur og heilsteyptur hópur hefði staðið að baki nýju fyrirtæki á grunni Síldarverksmiðja ríkisins ef efnt hefði verið til almennra útboða á hlutabréfamarkaði eins og hér var gefið í skyn áðan. Og er líklegt að frv. af því tagi hefði náð samþykki hér á Alþingi? Er líklegt að þingmenn sem eru kunnugir atvinnuháttum, eru kunnugir atvinnusögu og þekkja vel til á einhæfum sjávarplássum --- vegna þess að ég heyrði að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um útsölu, er trúlegt að hann eða einhver annar þingmaður hér hefði verið reiðubúinn til þess að ríkið hefði í einu vetfangi skorast undan þeirri miklu ábyrgð sem það hefur með því að hafa rekið þessar verksmiðjur sem opinberar verksmiðjur í 63 ár, er það þá þeirra skoðun að ríkið geti undir slíkum kringumstæðum kastað fyrirtækinu á markaðinn og látið sig engu skipta hverjir það eru sem hefðu kosið að kaupa einstök hlutabréf? ( SJS: Hver er að segja það?) Mér heyrðist það á hv. þm. Steingrími Sigfússyni. Er það líklegt? ( SJS: Kjaftæði.) Hann segir kjaftæði.
    Nú er það svo að ef við horfum til þeirrar síldarverksmiðju sem er á Þórshöfn sem hv. þm. ber mjög fyrir brjósti, þá er það að vísu rétt að Síldarverksmiðjur ríkisins hlupu undir bagga með þeirri verksmiðju á sínum tíma og það var mjög gagnlegt og átti m.a. þátt í því að styrkja undirstöður þess. Með sama hætti var svo niðurstaðan hjá síðustu ríkisstjórn meðan Ólafur Ragnar Grímsson var fjmrh.  . . .
    ( Forseti (SalÞ) : Hv. þm.)
að bjóða fram sérstök kostakjör á Siglufirði til þess að fyrirtækið sem þar er gæti fengið styrk af mönnum sem hafa mikla reynslu af útgerð og fiskvinnslu, mönnum sem hafa síðan sýnt sig í því að reka það fyrirtæki til mikillar fyrirmyndar þannig að það er enginn vafi á því eftir á að hyggja að sú fórn sem ríkið færði þar var á rökum reist. Með hvaða hugarfari aftur stofnað var til þeirra viðskipta veit ég ekki, en eitthvað var verið að reyna að verja það með því að keyptar voru eignir í Reykjavík skömmu síðar af Sláturfélagi Suðurlands og var hluti söluverðsins ónýtir skúrar hér í Reykjavík þannig að undir þeim kringumstæðum var áreiðanlega um það að ræða að ríkið tók þátt í viðskiptum sem ekki eru venjuleg eða tíðkast á hinum almenna hlutabréfamarkaði ef framsóknarmenn og alþýðubandalagsmenn vilja halda sig við það.
    Það var sem sagt alveg ljóst hér á Alþingi þegar við vorum að tala um það að einkavæða Síldarverksmiðjur ríkisins að til grundvallar yrði að liggja í fyrsta lagi að það yrði áfram sæmilegt atvinnuöryggi í þeim sjávarplássum þar sem Síldarverksmiðjurnar höfðu haslað sér völl. Þá er ég bæði að tala um Seyðisfjörð, ég er að tala um Siglufjörð, ég er að tala um Raufarhöfn, svo að ég taki hinar stærstu.
    Það var alveg ljóst í öðru lagi við þær umræður að enginn þingmaður var reiðubúinn til að lýsa því yfir þá að ekki væri eðlilegt að taka tillit til vilja verkalýðshreyfingarinnar á viðkomandi stöðum, til starfsmanna Síldarverksmiðjanna á þessum stöðum eða til vilja sveitarfélaganna á þessum stöðum. Og það var líka alveg ljóst í þeim mörgu viðræðum sem hafa átt sér stað, m.a. við Raufarhafnarbúa og líka á Seyðisfirði, um það að ef þessar verksmiðjur hyrfu úr ríkiseign væri þýðingarmikið að fá til þess að taka þátt í áframhaldandi rekstri ýmsa þá útgerðarmenn sem eiga yfir loðnuskipum og loðnukvóta að ráða. Þessa alls var gætt. Það er ekki ein einasta gagnrýnisrödd hér inni um það að þessi viðskipti hafi haft það í för með sér að verið væri að stofna sveitarfélögum í hættu, að verið væri að stofna atvinnu fólks í hættu, að hér sé ævintýramennska á ferðinni vegna þess að hinir nýju eigendur standi ekki undir þeim sjálfsögðu kröfum sem óhjákvæmilegt er að gera til slíkra viðskipta.
    Ég vil líka minna á annað atriði. Síldarverksmiðjur ríkisins voru á sínum tíma stofnaðar til þess að tryggja það að þessi rekstur yrði í íslenskum höndum. Og þegar við lítum á hinn mikla fjölda hluthafa í SR nú sjáum við að fyrir því er mjög vel séð að yfirráð þessara mikilvægu framleiðslutækja séu bæði beint og alls ekki óbeint í eigu íslenskra aðila. Þar er ekki farið í kringum neitt. Þar er gengið hreint til verks. Á bak við það stendur sú samstaða lífeyrissjóða og verkalýðsfélaga sem stóðu að þessum kaupum. Og það er sannast sagna undarlegt þegar umræður af þessu tagi vakna hér á Alþingi að þeir alþingismenn sem taka til máls skuli ekki ræða málið út frá þessum sjálfsagða grundvelli.
    Við höfum fyrir okkur dæmi um fyrirtæki sem ríkið hafði átt meirihlutaaðild í, eigum við að segja um aldarfjórðung eða eigum við að láta okkur nægja að segja síðan 1971 eða svo, og þá er ég að tala um Slippstöðina á Akureyri. Þegar erfiðleikar komu upp í því fyrirtæki kom fljótt og snöggt í ljós að það var ekki mikil trygging fyrir þá sem þá unnu að eignaraðilinn var sterkur, ríkið sjálft. Ég hygg að sama niðurstaðan sé hjá þeim sem vildu halda því fram á sínum tíma að það væri þó eitt sem mætti ganga út frá í sambandi við samvinnuhreyfinguna, að atvinnutækifærin hlypu ekki burtu því að samvinnuhreyfingin yrði kyrr á sínum stað. Við getum horft í kringum okkur. Okkur er kunnugt um það að ýmislegt hefur verið brallað og það hefur ýmislegt verið gert til þess að reyna að treysta og standa á bak við þann rekstur. En við sjáum líka að í því rekstrarformi var sá veikleiki sem ekki getur staðist í nútímaþjóðfélagi og er óþarfi að hafa um það mörg orð.
    Í sambandi við Síldarverksmiðjur ríkisins aftur á móti horfir málið þannig við að þar eru einstaklingar, þar eru sjóðir og þar er á bak við sterkt afl sem hefur ráð á því ef erfiðleikar koma upp að standa á bak við þetta fyrirtæki í þeim erfiða rekstri sem stundum kemur í sambandi við loðnuveiðarnar og loðnuvinnsluna í heild. Áhættan er svo mikil í sambandi við loðnuna að tekin var ákvörðun um það hér á Alþingi að sú sérstaða skyldi gilda um loðnubáta vegna þess að það væri óvíst að loðnan héldist við landið að heimilt yrði að taka kvóta frá þorskveiðibátum til þess að afhenda loðnubátunum ef loðnan skyldi hverfa. Og auðvitað var það ekki gert hugsunarlaust, enda kemur það fram í máli þeirra manna sem hafa metið söluverð loðnuverksmiðjanna að hér er um áhættusaman rekstur að ræða, kannski einhvern áhættusamasta rekstur sem við vitum um í landinu.
    Það er auðvitað alveg rétt, vegna þess að við erum að tala hér um hið gamla fyrirtæki, Síldarverksmiðjur ríkisins, sem því miður eru ekki jafneignasterkt fyrirtæki og maður hafði vonast til, að auðvitað er skýringin þessi mikla áhætta, ekki aðeins í loðnunni heldur líka í síldinni áður. Eða eru þingmenn hér að gera því skóna að þeir muni ekki eftir því þegar loðnuveiðar voru með öllu bannaðar hér á landi? Þykjast þingmenn ekki lengur muna eftir því? Það gefur alveg auga leið að hér er um áhættusaman rekstur að ræða, og það gefur líka auga leið að spurningin stóð um það hvort þeir sterku aðilar sem komu að þessu máli væru reiðubúnir til þess að kaupa Síldarverksmiðjur ríkisins við því verði sem þær voru seldar eða ekki. Því er spurningin þessi, og það er ekki hægt að leggja hana öðruvísi fyrir nema vera óheiðarlegur: Eru þingmenn hérna inni sem hefðu kosið að einhverjir aðrir, þótt verðið hefði kannski verið 10 eða 15 millj. hærra, hefðu komið að verksmiðjunni eða stendur vilji þingmanna hér til þess að sá samstæði og breiði hópur sem kemur að þessu máli fái að spreyta sig á þessu verkefni sem er upp á líf og dauða fyrir þetta fólk sjálft? Auðvitað vitum við að hver þingmaður hér sem hefði komið að málinu fyrir fram, áður, þá hefðu menn ekki talað svona gegn þessum viðskiptum. Halda menn að þingmaður á Austurlandi hefði talað gegn því að lífeyrissjóðirnir þar kæmu með þessum hætti inn í atvinnulífið til þess að tryggja atvinnugrundvöllinn á Austurlandi? Halda menn að þingmenn á Norðurlandi eystra mundu mótmæla þessum kaupum, mótmæla því að verkalýðshreyfingin sjálf komi með þessum hætti að því að styrkja atvinnugrundvöllinn? Eða hvers vegna skyldi það vera að jafnvel Lífeyrissjóður Dagsbrúnar kemur að þessu máli? Ber það vott um að að sé einhver spilling í þessu máli? (Gripið fram í.) Auðvitað ber það ekki vott um það. (Gripið fram í.) Hitt er svo annað mál, vegna þess að Svavar Gestsson grípur hér fram í,
    ( Forseti (SalÞ) : Hv. þm.)
að það hefði verið nokkurn veginn sama ( SvG: Hver var að mótmæla ...?)
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki frammíköll.)
það má vera að það sé nokkurn veginn sama, Svavar Gestsson,
    ( Forseti (SalÞ) : Hv. þm.)
á hvaða tíma rætt hefði verið um það við þá menn sem ungir hölluðust að þeim hugsjónum sem voru austan járntjalds og fóru þar til mennta --- ég heyri að hv. þm. Guðrún Helgadóttir hlær líka --- þetta hafa nú ekki verið þeir þingmenn sem hafa talað af mestri þekkingu, bjartsýni og raunsæi um einkarekstur í landinu og atvinnulífið yfir höfuð að tala, þannig að þó að þessir þingmenn sem ánetjuðust sósíalismanum í æsku sinni og hafa ekki getað hreinsað sig af honum, þótt þessir þingmenn séu á móti því að við stöndum fyrir einkavæðingu og við viljum standa fyrir því að fyrirtæki séu vel rekin, að við viljum standa fyrir því að þau geti greitt eðlilega skatta til ríkisins og staðið undir traustu atvinnulífi, þótt menn af þessu tagi með þessar skoðanir og þessar hugsjónir og þetta uppeldi séu því andvígir, þá kemur það og þarf ekki að koma neinum manni á óvart.
    Kjarni málsins er auðvitað sá að í þessari umræðu erum við öðrum þræði að tala um lífsskoðanir. Við erum öðrum þræði að tala um það hvort við viljum horfa raunsætt á það erfiða rekstrarumhverfi sem nútíminn býður upp á. Það gefur auga leið að þegar við erum að verja Síldarverksmiðjur ríkisins og þá miklu tryggingu sem í því felst að sú verksmiðja sé í réttum höndum, þá er það auðvitað bæði í anda sjálfstæðisstefnunnar, það er í anda frjáls markaðsbúskapar og það er líka í þeim anda að menn beri virðingu fyrir sögunni, beri virðingu fyrir þeim atvinnurekstri sem byggður er upp á þessum stöðum og tali hvorki né geri eitthvað í þeim efnum sem geti með einhverjum hætti skert atvinnuöryggi þessa fólks og spillt eigum þeirra.