Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:41:47 (6984)


[21:41]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að hér er verið að ræða um kaupin og söluna á Síldarverksmiðjum ríkisins. Það er umræðuefnið. ( SJS: Það er rétt.) Ef hv. þm. er andvígur því að þetta fólk, þessir aðilar, verkalýðshreyfingin, útgerðarmennirnir, verkamennirnir fengu þessa verksmiðju með þessum kjörum og þessum skilmálum, þá á hann að segja það opinskátt en ekki að reyna að fela sig. Staðreyndin er sú að þetta verð er hátt. Staðreyndin er sú að Síldarverksmiðjur ríkisins er mikill áhætturekstur eins og sést best á því að ríkissjóður varð að hlaupa undir bagga með þessum rekstri með 400 millj. kr. nú nýlega. Auðvitað sýnir þetta áhættuna.
    Það sýnir líka áhættuna að hér varð að banna loðnuveiðar með öllu til þess að byggja þann stofn upp á nýjan leik þannig að þetta er áhætturekstur. Það sem hv. stjórnarandstaða er að reyna að gera er auðvitað að grugga vatnið en hún þorir hins vegar ekki að koma hreint fram í málinu.