Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:44:16 (6986)



[21:44]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það lá fyrir að þessi hópur var ekki reiðubúinn til þess að greiða meira enda var verðið hærra en áður hafði verið búist við og það lá alveg ljóst fyrir að þessi hópur hefði ekki keypt verksmiðjurnar hærra verði. Spurningin er þess vegna bara sú hvort menn vildu selja þessum hópi verksmiðjurnar við þessu verði eða ekki. Við höfum heyrt það sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon segir. Hann segir að það hafi átt að standa öðruvísi að þessu, það hafi átt að reyna að fá meira fyrir það. Þá hvarf þessi hópur frá sem þýðir á mæltu máli, ef menn eru hreinskilnir við sjálfa sig og reyna ekki að hlaupa frá staðreyndum, að hann vildi að aðrir menn yrðu kvaddir til fremur heldur en að selja þessum hópi verksmiðjuna við þessu verði.