Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:51:08 (6994)


[21:51]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef hlustað með athygli á þessar umræður allar frá því í dag þangað til núna og það hefur margt merkilegt komið fram. En það langmerkilegasta er í raun og veru ræða hæstv. landbrh. og samgrh. og árásir hans á mig og hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur persónulega hér áðan sýndu bara það að hæstv. ráðherra hefur vonda samvisku í þessu máli. Það sem hann hefur verið að segja hér í allt kvöld er það að hann treystir ekki fulltrúum Sjálfstfl. í bæjarstjórn Akureyrar til að meta það hvað er Akureyrarbæ fyrir bestu og það er auðvitað alveg kostulegt að reyna að breiða yfir vantraust sitt á flokksfélögum sínum með þessum ómerkilegu árásum á mig og hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur sem allt í einu gaus hér upp úr hæstv. ráðherra áðan.
    Það stendur svo upp úr, hæstv. forseti, í þessari umræðu allri sá veruleiki að ekki einu einasta orði í ábendingum Ríkisendurskoðunar hefur verið haggað, ekki einu einasta orði. Og ég skora á þingmenn að

lesa einmitt þessar athugasemdir yfir og sjá að þær standa allar að fullu og það er það auðvitað líka sem veldur hæstv. ráðherra þessum innantökum sem birtast hér í ræðustólnum með þeim hætti að hann minnir á ekki neitt nema sjálfan sig fyrir fjórum árum eða svo.