Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 22:12:19 (6999)


[22:12]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Sala hlutabréfanna í SR-mjöli er stærsta átak sem gert hefur verið til einkavæðingar hér í þessu landi. Það verður því að ræða mjög ítarlega reynsluna af því máli því þetta mál verður auðvitað fordæmi fyrir frekari aðgerðir á þessu sviði ef til þeirra kemur og ef til þess kemur að enn þá meiri aðgerðir verða gerðar í þessa átt.
    Ég hef tilhneigingu til þess að líta á þetta mál frá sjónarhóli fjárln. því þannig kom það fyrst til minna kasta. Við fjárlaganefndarmenn báðum um skýrslu um málið og töldum sjálfsagt að Ríkisendurskoðun yfirfæri þetta mál og lögðum inn beiðni um það í fjárln., sem var að vísu ekki samþykkt á þann hátt sem við vildum, að sölunni yrði frestað þangað til sú skoðun lægi fyrir. Eigi að síður var beðið um hana og grundvöllurinn að henni var að gera sér grein fyrir því hvort það hefði verið haldið nægilega vel á hlut ríkisins í þessum viðskiptum, hvort hagsmuna ríkissjóðs hefði verið gætt nægilega vel með því verði sem gefið var fyrir fyrirtækið. Þetta verð hefur verið mikið til umræðu í dag, verið rætt ítarlega og skiptar skoðanir um það og ég kem að því síðar.
    Ég vil undirstrika það að mér finnst mikilvægt atriði í þessu efni að reglur varðandi slíkt útboð

og slíka sölu hlutabréfa verði bættar og þingið dragi lærdóm af því sem hér hefur farið fram. Ég tel þátt Ríkisendurskoðunar í því máli vera afar mikilvægan. Ég tel að við allar slíkar meiri háttar sölur ríkiseigna eigi Ríkisendurskoðun að gefa umsögn. Ríkisendurskoðun er ekki dómari í þessu máli, viss þáttur þess er fyrir dómstólum, en eigi að síður er rétt að mínu mati að Alþingi standi þannig að eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu.
    Afstaða Framsfl. til sölu hlutabréfa í SR-mjöli liggur fyrir og hún lá fyrir í brtt. við frv. til laga um stofnun Síldarverksmiðja ríkisins, sem var flutt af minni hluta sjútvn. Þær brtt. voru á þá leið að heimilt væri að selja 40% hlutafjár í fyrirtækinu, þó ekki fyrstu þrjú árin. Og til frekari sölu þyrfti samþykki Alþingis.
    Hins vegar var farin önnur leið og fyrirtækið selt í einu lagi og á þeirri sölu var mikill flýtir. Margt bendir til þess að sá mikli flýtir sem var hafður við að ganga frá sölunni hafði orðið til þess að það var ekki sannreynt hvort það væri hægt að selja fyrirtækið á hærra verði þrátt fyrir fullyrðingar hæstv. landbrh. --- og er nú verst að hann er ekki viðstaddur --- þar um. Hæstv. landbrh. fullyrti í sinni ræðu að sá hópur sem keypti að lokum SR-mjöl hefði horfið frá ef sett hefði verið upp hærra verð. Það vill nú þannig til að þessi hópur var ekki til þegar gengið var frá sölunni. Mér er alveg fullkunnugt um það að t.d. Lífeyrissjóður Austurlands, sem er einn af stærstu hluthöfunum, hafði ekkert ákveðið um að taka þátt í þessu þegar gengið var frá sölunni. Þessi hópur sem kallað er og þeir sem stóðu fyrir þessum kaupum fengu frest til 1. febr. til að ganga frá sínum málum og safna þessum hóp saman. Þannig að ef Akureyrarbær hefði fengið möguleika til að spreyta sig á málinu þá liggur ekkert fyrir um annað en að Akureyrarbær hefði getað safnað í kringum sig hópi af traustum aðilum til að kaupa fyrirtækið.
    Því hefur verið haldið fram hér að við sem höfum gagnrýnt vissa þætti þessarar sölu séum að vantreysta þeim mönnum og þeim aðilum sem hafa keypt fyrirtækið. Ég vantreysti þeim ekki neitt. Það má vel vera og er líklegt og vonandi gengur það eftir að þeir geti rekið þetta fyrirtæki á traustan og öruggan hátt. Það er mikið í húfi enda tóku lífeyrissjóðir, starfsmenn og sveitarfélög þátt í þessum kaupum til þess að tryggja það að þarna yrði áframhaldandi rekstur. En það er alveg rétt, þetta er áhætturekstur. Hins vegar var að heyra á máli hæstv. landbrh. áðan að þessi hópur væri svo traustur að reksturinn væri algjörlega óforgengilegur og það gæti ekkert komið fyrir framar. Vonandi verður það svo. Þetta er afar mikilvæg starfsemi fyrir þau byggðarlög sem þarna eiga hlut að máli og landið í heild. Það reyndi því í raun aldrei á það hvort það væri hægt að fá hærra verð fyrir þetta fyrirtæki, flýtirinn var svo mikill í þessu máli.
    Hæstv. sjútvrh. talaði um það í ræðu sinni í dag að eitt af atriðunum sem gerir það að verkum að þetta er áhætta var að nýir eigendur yrðu að snúa rekstri fyrirtækisins til betri vegar á næstu árum og sá viðsnúningur yrði að verða mjög mikill. Nýir eigendur yrðu að snúa rekstrinum við til betri vegar sem svarar til 150 millj. kr. næstu árin ef ég hef tekið rétt niður ummæli hæstv. ráðherra.
    Ég tók ekki eftir því að hæstv. ráðherra minntist á það í þessu sambandi að í greinargerð VÍB frá 28. apríl 1994 kemur fram að afkoma SR hafi verið um 90 millj. kr. tap árin 1980--1982 en í tekjuvirðismati VÍB er gert ráð fyrir 60 millj. kr. hagnaði að meðaltali næstu tíu árin frá og með 1993. Það verður að hafa í huga í þessu sambandi að ríkissjóður yfirtók 400 millj. kr. langtímalán og 140 millj. kr. eftirlaunaskuldbindingu áður en félaginu var breytt í hlutfélag.
    Ég tók ekki eftir að þetta kæmi fram í máli hæstv. ráðherra. Af þessu leiðir auðvitað að fjármagnskostnaður vegna eftirlaunaskuldbindinga er til muna lægri hjá hlutafélaginu en var hjá Síldarverksmiðjunum og fjármagnskostnaður vegna skulda til muna lægri þannig að munar tugum milljóna. Þegar afkoma Síldarverksmiðjanna á undanförnum árum og áætluð afkoma í framtíðinni er metin verður að hafa þetta í huga. Þetta mál er því ekki svo einfalt í sniðum sem hæstv. ráðherra vildi vera láta.
    Það er rétt að þessi rekstur felur í sér áhættu en það vill nú svo til að fram undan er gott útlit og það er áætlað að góð loðnuveiði muni verða á yfirstandandi ári og á árinu 1995. Það er ljóst að salan á SR-mjöli átti sér stað í byrjun uppsveiflu í loðnuveiðum og vinnslu. Það er því eðlilegt að spurt sé hvort þessi tímasetning á sölunni og þessi flýtir hafi ekki verið rangur. Það vannst ekki einu sinni tími til að ljúka reiknisskilum fyrir tímabilið ágúst til desember árið 1993 þegar salan á hlutabréfunum átti sér stað. Svo ekki sé meira sagt vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það hefði ekki verið betra að bíða e.t.v. eitt ár, t.d. fram í febrúar 1995 eða fram á mitt ár 1994 því líklegt er að fjárhagsstaða félagsins hefði þá verið mun betri og e.t.v. hefðu verið möguleikar á að greiða þann arð sem hluthafar greiddu sér út um áramótin í ríkissjóð.
    Ég held að af þessari sölu verði að læra. Það er rangt sem kom fram í máli hæstv. sjútvrh. og fleiri að við stjórnarandstæðingar séum talsmenn einhverra ákveðinna kaupenda. Það reyndi einfaldlega ekki nógu vel á það hvort hægt væri að fá meira fyrir þessi bréf. Þó það hefði munað 50 millj., 100 millj., þá eru það verulegir peningar. Þó það sé ekki há upphæð á mælikvarða fjárlaganna þá munar ríkissjóð um það fjármagn.
    Ég vil taka það fram að ég ber að sjálfsögðu fullt traust til þeirra sjóða, þeirra starfsmanna og þeirra sveitarfélaga sem hafa keypt þetta fyrirtæki og vona að rekstur þess gangi vel. Ég hef ekki ástæðu til að væna þá um að hafa einhverjar annarlegar hvatir með kaupum þessa fyrirtækis en hitt réttlætir ekkert þær aðferðir sem hafa verið hafðar við söluna. Þær má bæta. Ég er ekkert að halda því fram að í þetta hafi ekki verið lögð veruleg vinna af þeim embættismönnum sem undirbjuggu hana, að þeir hafi unnið verk

sitt eftir þeim fyrirmælum sem þeir fengu frá sínum yfirmönnum. En þær pólitísku ákvarðanir sem teknar voru um flýtinn á þessu máli eru á ábyrgð hæstv. sjútvrh. og hæstv. starfandi fjmrh., sem er hæstv. forsrh. Hann sat í stól fjmrh. á þeim tíma sem þessar ákvarðanir voru teknar. Af þessu máli eigum við að læra, endurbæta þær aðferðir sem eru hafðar við slíkar sölur ef til þeirra kemur í framtíðinni.