Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 23:14:29 (7010)


[23:14]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. dró þá ályktun af skýrslu Ríkisendurskoðunar að SR-mjöl hf. hafi verið selt á undirverði, eins og hann komst að orði. Ég tel að það sé alröng ályktun sem hv. þm. dregur af þessari skýrslu. Í fyrsta lagi komst það fyrirtæki sem reyndi að verðmeta SR-mjöl, Verðbréfamarkaður Íslandsbanka, að því að óvissan við verðmatið var u.þ.b. 300 millj. kr. Annars vegar var um að ræða verð sem var tæplega 700 millj. kr. og hins vegar verð allt að rúmum milljarði. Ef við hins vegar skoðum seinni skýrslu Ríkisendurskoðunar þá kemur í ljós að Ríkisendurskoðun vekur á því athygli að hvergi í sinni fyrri skýrslu hafi því verið haldið fram að kaupendahópurinn, sem markaði markaðsverðið, hafi verið tilbúinn til að greiða hærra verð fyrir fyrirtækið en sem nam 725 millj. kr. Og síðan hitt, og það er mjög merkilegt, og hefur ekki komið fram í þessum umræðum í kvöld, að verðmat Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka byggðist á því að þeir gerðu ekki ráð fyrir því að á næstu tíu árum ættu sér stað neinar fjárfestingar sem nokkru næmi í fyrirtæki sem þó rekur fimm loðnuverksmiðjur. Ég held að það þurfi ekki mjög kunnuga menn í þeim rekstri til að gera sér grein fyrir því að það er óhugsandi. Það er gjörsamlega óhugsandi að hægt verði að komast hjá því við annan eins rekstur og þennan að þar eigi sér stað verulegar fjárfestingar. Þeir sem þekkja til í þessum rekstri og hafa verið að fylgjast með fréttum úr þessum rekstri upp á síðkastið vita það að þegar um er að ræða verulegar umbætur, eins og þurfa að eiga sér stað á nokkrum þessara verksmiðja, þá erum við ekki að tala um fjárfestingar upp á 10, 20, 30 millj. heldur erum við að tala um fjárfestingar upp á hundruð milljóna. (Forseti hringir.) Enda er það svo að það var mat þeirra fjárfesta sem að lokum keyptu fyrirtækið að það þyrfti að fjárfesta í því fyrir 60 millj. á ári hverju næstu tíu árin. (Forseti hringir.) Tæpar 600 millj. á tíu árum. Það er þetta sem skilur á milli og það er þetta sem gerir það að verkum að verðmat það (Forseti hringir.) sem menn byggja á er villandi.