Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 23:19:06 (7012)


[23:19]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hendir sig oft þegar menn eru komnir í alvarleg rökþrot eins og bersýnilega átti sér stað með hv. þm. Svavar Gestsson þá búa menn sér bara til rök til þess að glíma við. Ég hélt því aldrei fram að þetta fyrirtæki hefði verið selt of dýru verði. Ég var einfaldlega að mótmæla því sem hv. þm. sagði að þetta fyrirtæki hefði verið selt á undirverði. Ég tel að niðurstaðan við verðmatið hafi verið afskaplega eðlileg á þeim grundvelli sem það verðmat fór allt saman fram. Þess vegna var það mjög sérkennilegt þegar hv. þm. fór hér út um víðan völl og var að glíma við einhver rök sem hann bar upp á mig sem ég hafði aldrei þó sagt. En þetta er dæmigert fyrir menn sem vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við heilbrigðri skynsemi og heilbrigðum upplýsingum sem hér líta dagsins ljós í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Því var einfaldlega aldrei haldið fram af mér að þetta fyrirtæki hefði verið selt of dýru verði.
    Hv. þm. segir að ég hafi komið með það sem einhverja frétt að það þyrfti að fjárfesta í þessu fyrirtæki. Ég sagði það að hver einasti maður sem minnsta inngrip hefði í rekstri á síldar- og loðnuverksmiðjum vissi það að slíkar verksmiðjur eru mjög fjármagnsfrekar og þurfa mikið viðhald og þurfa mikla fjárfestingu. Hins vegar vakti það athygli mína að verðmat Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka, það hefur verið upplýst í skýrslu Ríkisendurskoðunar hinni síðari, byggðist einfaldlega á því að þar hafi ekki verið gert ráð fyrir fjárfestingum. Þetta voru þær fréttir sem ég var að færa hv. þm. og ég held að hv. þm. ætti að vera þakklátur fyrir það að ég skyldi flytja honum þessar fréttir því þær virtust hafa farið fram hjá honum þegar hann var sjálfur að leggja mat á verðmæti fyrirtækisins. Ég er hins vegar alveg sammála hv. þm. um það að það eiga að vera í gildi skýrar reglur um sölu ríkiseigna og það þarf ekkert hann eða mig eða einhvern hér og nú til þess að segja okkur þetta því þessar reglur liggja fyrir verklagsreglum einkavæðingarnefndar. Ég vænti þess að hv. þm. geti tekið undir það að eftir þeim reglum eigi að fara.