Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 23:22:11 (7014)


[23:22]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Það vakti athygli mína að ekki var hægt að skilja orð hv. þm. öðruvísi en svo að hann hefði fremur kosið að Haraldi í Andra yrði seld verksmiðjan en þeim hópi sem fékk hana og var það mjög athyglisvert í ræðu hv. þm.
    Ég vil í öðru lagi benda á að í síðari skýrslunni er tekið ýmislegt til baka af því sem áður var sagt og skýrt tekið fram og áréttað að heimildir sjútvrh. til þess að ganga frá sölunni með þeim hætti sem hann gerði séu ekki dregnar í efa. Þetta er tekið fram skýrt og afdráttarlaust.
    Í þriðja lagi vegna þeirrar talnaþulu sem hv. þm. fór með er rétt að rifja upp að vegna þess að síðasta ríkisstjórn tímasetti á vitlausum tíma þær framkvæmdir og þá fjárfestingu sem gerð var á verksmiðjunni á Seyðisfirði var óhjákvæmilegt að hlaupa undir bagga með síldarverksmiðjunum á sl. ári um 400 millj. kr. vegna þess að það stóðu ekki tekjur undir þeim kostnaði sem þar var kominn. Þannig að það má rekja þær greiðslur og það að ríkissjóður neyddist til að taka þær skuldir yfir beinlínis til óráðsíu síðustu ríkisstjórnar.