Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 00:01:40 (7027)


[00:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt nokkuð langt gengið að ræða um þetta kaupverð sem við komumst seint að niðurstöðu um, a.m.k. sameiginlegri niðurstöðu hygg ég, en það er alltaf verið að reyna í þessari umræðu að gera verðið tortryggilegt og menn nota til þess öll brögð. Það er verið að reyna að gera þetta tortryggilegt og nú síðast greip hv. þm. til þess ráðs að draga 400 millj. frá verðinu til þess að það sýndist miklu lægra. En af hverju ræðir hv. þm. aldrei um þessar 1.300 millj. sem eru aðrar skuldir sem hvíla á fyrirtækinu og tekur það inn í kaupverðið og bætir því við? Það er vegna þess að hann kýs að horfa einungis á þá hlið sem hann býr til sjálfur á þessu máli. Það er alvarlegt þegar menn seilast svona langt í sínum reikningi eins og hv. þm. hefur gert í sinni ræðu.