Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 00:08:13 (7033)


[00:08]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Herra forseti. Að svo miklu leyti sem ég skildi ræðu hv. þm. þá var hann að halda því fram að ég hefði sagt að við ættum ekki ríkiendurskoðun sem hægt væri að treysta. Þar með leggur hann mér orð í munn. Ég hef sagt að ég hafi alvarlegar áhyggjur af stöðu Ríkisendurskoðunar af því að við þurfum á því að halda að hægt sé að treysta Ríkisendurskoðun. Síðan rakti ég það, og það gerði reyndar hv. þm. Svavar Gestsson líka, hvaða erfiðleikar væru fyrir hendi hjá Ríkisendurskoðun sem er sífellt að búa til greinargerðir og skýrslur jafnvel um mál sem hún hefur sjálf komið að framkvæmdinni á og það er þetta sem ég hef verið að benda á. Ég vona að hv. þm. leyfi sér ekki að endurtaka það sem hann sagði áðan því að ég treysti Sigurði Þórðarsyni sem persónu og sem endurskoðanda ákaflega vel, enda er það rétt sem hv. þm. sagði að Sigurður Þórðarson er góður og gegn sjálfstæðismaður en það nefndi hv. þm. sem mikið lof fyrir ríkisendurskoðanda og ég skal taka undir það með honum.