Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 00:29:38 (7040)


[00:29]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Enga ósk á ég heitari SR-mjöli til handa en að starfsmenn þess fái að sjá þetta fyrirtæki vaxa og dafna. En ég veit hins vegar hvernig það fer. Það getur vel verið að hv. 3. þm. Vestf. sé slíkur bjartsýnismaður og kannski svo nýkominn hingað á hið háa Alþingi að hann hafi ekki fylgst með hvernig farið hefur fyrir fyrirtækjum á borð við þetta.
    Þingmaðurinn ætti a.m.k. að muna eftir umræðunni um Samskip fyrir einu og hálfu ári. Hvernig hefur farið fyrir því? Það er auðvitað búið að gleypa það eins og allt er gleypt af fólki sem hefur ítök alls staðar og ekki bara í fyrirtækjum. Þetta fólk hefur ítök í bönkunum. Það ræður öllu sem það vill ráða. Og að ímynda sér að hinn venjulegi starfsmaður þessa fyrirtækis eigi að hafa eitthvað um það fyrirtæki að segja, haldi þingmaðurinn það vona ég að honum verði að ósk sinni en ég er ekki eins bjartsýn og hann.