Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 01:20:59 (7046)


[01:20]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er fyrst út af Akureyrarbæ og því sem hæstv. ráðherra sagði um það að ekki hefði verið hægt að framlengja frestinn vegna þess að hann hefði verið útrunninn þá segir í 6. lið í tillögum stjórnar SR-mjöls, sem hæstv. ráðherra segist hafa farið svo nákvæmlega eftir: ,,Tekið verður hagstæðasta tilboði að teknu tilliti til markmiða. Áskilinn verði réttur til að hafna öllum tilboðum og fresta sölu ef ekkert tilboð reynist viðunandi.``
    Ég tel að þarna hafi verið ákvæði sem var rétt að nota í þessu tilfelli.
    Mig langar síðan að segja um það sem hæstv. ráðherra endurtók að það hafi verið réttur skilningur á virði félagsins að skoða 11 ára tímabil og finna út frá því hvers virði fyrirtækið var að menn verða að muna eftir því að þetta fyrirtæki er ekkert sambærilegt við það hvernig fyrirtækið hefur verið rekið á sl. 11 árum. Það er búið að byggja þetta fyrirtæki algjörlega upp á þessu tímabili, endurnýja verksmiðjuna á Siglufirði, smíða nýja verksmiðju á Seyðisfirði og nú verður aflétt kvöðum sem hafa verið á því fyrirtæki í gegnum langa tíð, þ.e. fyrirtækið hefur ekki mátt taka þátt í rekstri loðnuskipa.