Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 01:30:00 (7055)



[01:30]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Þetta er að verða dálítið staglkennt og ég veit ekki hvað þýðir að halda þessu mikið lengur áfram. Það er eins og hæstv. sjútvrh. kunni ekki að lesa. Nú er hann maður sem maður hélt að kynni að lesa en það getur verið að honum falli ekki letrið á þeim texta sem við höfum fjallað um í dag. Ég veit ekki hvort hann þarf að fá sér gleraugu til að sjá hvað stendur í skýrslunni því hann hefur hvað eftir annað verið að túlka skýrsluna með allt öðrum hætti en raunhæft er.
    Niðurstaðan af umræðunum er þessi: Það var óþarfi að selja þetta fyrirtæki og ekki skynsamleg ráðstöfun. Það var kolóeðlilega staðið að sölunni. Það voru þverbrotnar reglur sem ríkisstjórnin hafði sjálf sett um hvernig skyldi standa að svona sölu og verðið fyrir fyrirtækið var allt of lágt.
    Það er búið að margsanna öll þessi atriði í þessari umræðu. Hæstv. ráðherra ber enn þá höfðinu

við steininn. Að vísu er úr honum mesti vindurinn. Það var meiri galsi í honum fyrst þegar hann var að stressa sig upp í að reyna að verja þetta en hann er þó enn að tuða. Ég held að hann hafi ekki bætt alin við lengd sína með þessu máli. Þó að hann hafi komið fram vilja sínum, þó hann hafi komið fyrirtækinu í hendur aðila sem honum voru þóknanlegir og sjálfsagt koma til með að launa honum það einhvern tímann síðar vel og rausnarlega, þá er ástæðulaust að óska honum til hamingju með það vegna þess að þessi gerningur á eftir að fylgja honum á hans stjórnmálaferli.