Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 01:56:12 (7067)


[01:56]
     Páll Pétursson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Ég held að það væri skynsamlegt að láta staðar numið í nótt. Við höfum nú verið að meira og minna síðan snemma í morgun og hér hefur staðið þingfundur, að vísu með tveim litlum hléum síðan kl. hálfellefu og þetta er orðið út af fyrir sig forsvaranlegt dagsverk.
    Rétt er það að við gerðum okkur vonir um að umræður um skýrslu um SR-mjöl mundu ekki taka svona langan tíma eins og þær gerðu. Því miður kunni hæstv. sjútvrh. ekki að skammast sín og forhertir flokksbræður hans reyndu að halda hér uppi einhverjum vörnum og umræðan dróst mikið á langinn. Hæstv. umhvrh. er fjarstaddur og ég tel mikinn sjónarsvipti að honum við þessa umræðu og eiginlega ófært að ræða málið öðruvísi en hann sé við með sínar athugasemdir og útskýringar.
    Það getur vel verið að það sé mikil samstaða um þetta mál í hv. umhvn. en ég vil láta það koma fram að ég hef ekki orðið var við þessa samstöðu meðal annarra þingmanna því að hvort sem samstaða er í umhvn. eða ekki þá er þetta enn þá arfavitlaust mál. Frv. hefur skánað að sumu leyti, versnað að öðru leyti en enn þá eru sjálfsagt ein 20 atriði sem eru meira og minna aðfinnslu verð. Ég óttast það að ef á að fara að keyra málið núna verði hér endalausar umræður.
    Menn hafa verið að vitna til þess að það yrði að gera það fyrir hæstv. umhvrh. að afgreiða þetta mál á þessu þingi svo að hann héldi nú sóma sínum. Ég vil minna á að við erum nýlega búnir að afgreiða fyrir hann dýraverndarmálið og mér finnst að það dugi fyrir sóma hans á þessu þingi, honum sé alveg prýðilega borgið með því. Það mál var búið að ganga þing eftir þing áður en það komst í þann búning að það slyppi í gegnum lokaafgreiðslu. Ég held að það þurfi a.m.k. fjögur þing áður en þetta villidýramál verður í brúklegum búningi.