Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 02:04:32 (7072)


[02:04]
     Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að koma aftur til að ræða stjórn fundarins en ég tel skynsamlegt að ég svari því sem til mín var beint af hv. 11. þm. Reykv. Það er hárrétt að það er ekki rétt af mér að nota orðið samkomulag. Það er of í lagt í þeim skilningi að samkomulag væri um allt þetta stóra mál sem var með svo miklum fyrirvörum í nefndaráliti. Hins vegar legg ég mjög mikla áherslu á þá sátt sem náðist í nefndinni um afgerandi þætti málsins og m.a. það sem mestur fyrirvari var við.
    Ég vil því bara lýsa því að ég hafi notað of sterk orð um þetta þannig að það þurfi ekki að valda neinum misskilningi. Ég legg mikla áherslu á það að hv. þm. gangi nú til verka og hefji málefnalega umræðu um þetta góða og þarfa mál því að það er greinilega mjög erfitt fyrir þingmenn að koma hér og ræða stjórn fundarins eins og við höfum orðið vör við án þess að koma örlítið inn í efnislega umræðu. Ég legg mikla áherslu á að við höldum áfram og minni enn á það að hér hafa ekki oft verið næturfundir. Hér hafa verið óvanalega fáir kvöldfundir á liðnum vikum og nú skulum við bara einhenda okkur í þetta ágæta mál og sjá hvort við getum jafnvel ekki lokið því.