Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 02:06:18 (7073)


[02:06]
     Ingi Björn Albertsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Klukkan er núna farin að ganga þrjú að nóttu þegar ætlunin er að taka nýtt mál til meðferðar á fundinum. Ég hlýt að taka undir með þeim sem krefjast þess að fundi verði núna slitið og þessi umræða hefjist ekki. Við erum búin að sitja hér síðan hálfellefu í morgun, í 15 1 / 2 tíma, farið að ganga vel á 16. tímann og ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta ómanneskjulegt og mér finnst það engin rök í málinu þó að fáir næturfundir hafi verið. Það eru ákveðin rök fyrir því að halda áfram þegar menn eru að klára eitthvert tiltekið mál en að taka nýtt mál á dagskrá og hefja nýja umræðu klukkan að ganga þrjú að nóttu er ekki hægt. Það er ekki hægt við það að una.
    Ég vil enn fremur segja það að þó að hv. formaður nefndarinnar standi sig vel í að reyna að ná samstöðu um málið þá hef ég ekki orðið var við þá samstöðu. Við mig hefur ekki verið talað eitt orð. Þó hefur ákveðin andstaða af minni hálfu alla tíð legið fyrir frá upphafi þess að þetta mál kom hingað inn fyrir rúmum tveimur árum. Þar fyrir utan vil ég segja að þó að samstaða náist í nefndinni þá tekur hv. umhvn. ekki afstöðu til mála fyrir mína hönd þannig að sú afstaða gildir ekki lengra heldur en fyrir þá níu sem þar sitja, enda hefur það komið skýrt fram hjá öðrum nefndarmönnum.
    Það kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni að hann hefði athugasemdir við a.m.k. 20 atriði. Ég hugsa að ég hafi eitthvað svipað þannig að mér þykir alveg einsýnt að ef það á að keyra áfram umræðu, þá mun hún fara inn í þann fund sem á að hefjast hér kl. hálfellefu í fyrramálið. Ég held að það sé alveg ljóst. Ég vil því frekar taka undir þá tillögu sem kom frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að málið verði látið liggja og það fari í fjórða sinn fyrir þing því þá von að það komi aðeins skárra út úr nefndinni heldur en það er núna. ( HG: Það var ekki mín tillaga.) Þetta voru orð hv. þm. og ég greip það sem tillögu. Það má draga hana til baka.
    Ég vil aðeins segja vegna dylgna sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafði í garð ungra manna þá finnst mér það nú ekki karlmannlegt þegar rosknir menn koma upp og reyna að hefja upp karlmennskuímynd sína á kostnað ungra manna.