Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 02:41:52 (7077)


[02:41]
     Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir tveimur brtt. Í fyrsta lagi er um að ræða brtt. á þskj. 1057 sem ég flyt ásamt hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni við 16. gr. frv. en sú grein fjallar um seli og rostunga. Í henni er gert ráð fyrir að umhvrh. fari með málefni að því er varðar sel, þó þannig að sjútvrh. kemur þar við sögu og kemur með tillögur að því er varðar afléttun friðunar á landsel, útsel, blöðrusel og vöðusel eins og þar kemur fram. Þessi brtt. hljómar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Við 16. gr. Fyrri málsgrein orðist svo:
    Umhvrh. getur í reglugerð aflétt friðun landsels, útsels, blöðrusels og vöðusels á tilteknum svæðum og árstímum samkvæmt tillögum ráðgjafarnefndar um villt dýr. Umhvrh. hefur yfirumsjón með nýtingu selastofna og þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu sela eða tjón af þeirra völdum.``
    Við sem flytjum þessa tillögu teljum að engin rök mæli með því að sjútvrn. fari með vernd og veiðar á villtu dýri sem fyrst og fremst er nýtt af landi og innan netalagna og geta nytjar á þessu dýri á engan hátt talist til sjávarútvegs. Þess vegna teljum við eðlilegast að umhvrn. hafi umsjón með aðgerðum af opinberri hálfu sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu allra villtra dýra og einnig sela.
    Það hafa verið mjög skiptar skoðanir að því er varðar það atriði undir hvaða ráðuneyti málefni er varða seli eigi að vistast. Að okkar mati er eðlilegt að það falli undir umhvrn. Við erum þeirrar skoðunar að styrkja eigi umhvrn. og það sé eðlilegt að málefni eins og þessi falli þar undir. Ég vil taka það fram, og það kom reyndar fram í máli hv. 2. þm. Suðurl. í umræðunni á föstudaginn var þegar rætt var um þessa tillögu, að það kom fjöldi undirskrifta frá samtökum selabænda að því er varðar þessa grein frv. þar sem þeir mótmæla því að þessi mál heyri að nokkru leyti undir sjútvrn. Ég vil af því tilefni lesa örlítinn kafla úr umsögn sem selabændur sendu nefndinni, með leyfi forseta:
    ,,Furðulegt er að blanda sjútvrh. inn í þessi lög sem annars eiga að heyra undir umhvrh. Lítið hefði verið hægt að segja við því þó að þessi málaflokkur hefði líka tilheyrt umhvrn. þó best hefði okkur þótt að selamál hefðu áfram tilheyrt landbrn.``
    Þetta er örlítið brot af því sem selabændur sendu nefndinni þar sem kemur fram að þeir telja að það sé eðlilegra að málefni sem varða seli tilheyri umhvrn. heldur en sjútvrn. að hluta þó að þeir telji að eðlilegast sé að þau tilheyri landbrn.
    Eins og menn vita lagði umhvrh. fram brtt. þar sem hann leggur til að 16. gr. grein falli brott og að öll málefni sem varðar seli falli út úr frv. og fyrirkomulagið varðandi seli verði óbreytt frá því sem nú er. Ég verð að lýsa því að ég get ekki fallist á það fyrirkomulag sem umhvrh. lagði fram sem er brtt. á þskj. 1131.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um brtt. sem fjallar um að málefni er varða seli falli undir umhvrn.
    Ég ætla síðan að mæla fyrir brtt. minni á þskj. 1166 við 18. gr. frv. Eins og hér hefur komið fram fyrr, reyndar í umræðu um fundarstjórn forseta þó að það hafi kannski verið óheppilegt að það skyldi koma fram undir þeim lið því að það á auðvitað að koma fram undir þessu máli, þá hélt umhvn. fund í kvöld þar sem við ræddum hvort einhver möguleiki væri á því að meiri hluti nefndarinnar mundi flytja brtt., þ.e. sami meiri hluti og flutti allar aðrar brtt. sem eru lagðar til af hálfu meiri hluta umhvn. Eins og þingmenn vita þá er einn hv. þm. sem er með sérálit í þessu máli þannig að nefndin stendur ekki öll að málinu. En það hefur einnig komið fram að dregin hefur verið til baka brtt. frá fimm þingmönnum í hv. umhvn., þ.e. þeim þingmönnum sem hafa stutt ríkisstjórnina, ef maður getur orðað það svo. Sú brtt. olli miklum deilum og þá er ég ekki endilega að tala um í umræðunni núna heldur kannski fyrst og fremst annars staðar. Það hafa verið miklar deilur að því er varðaði þetta mál úti í þjóðfélaginu. Þess vegna taldi ég að það yrði til að liðka til fyrir málinu að þær brtt. voru dregnar til baka.
    Hins vegar hafa orðið mjög miklar umræður um að tillögur nefndarinnar gengju of langt í því að leggja til að það væri óheimilt að aflétta friðun á gæsum. Við höfum lagt til að dagsetningin flyttist frá 20. ágúst til 1. sept. Þetta hefur verið verulega gagnrýnt en við töldum það þegar við fluttum þessa brtt., og ég er enn þá þeirrar skoðunar, að það væri heppilegast að hafa þessa dagsetningu 1. sept. þannig að allar veiðar byrjuðu sama dag. Ég hef hins vegar talið það rétt til þess að reyna að liðka til fyrir því að menn gætu frekar sætt sig við frv. og þær breytingartillögur sem við gerum að flytja tillögu að því er varðar grágæs og heiðargæs og að veiðitímabilið á þeim gæti hafist þann 20. ágúst. Þetta er eitt af því sem hefur verið verulega gagnrýnt og ég tel rétt að reyna að koma til móts við þau sjónarmið sem þar hafa verið höfð í frammi. Þess vegna legg ég til að á eftir 1. tölul. 18. gr. komi nýr töluliður sem segir að frá 20. ágúst til 31. mars sé heimilt að aflétta friðun á grágæs og heiðargæs.
    Eftir sem áður er ekki hægt að aflétta friðun á þeim fuglategundum sem taldar eru upp í 2. tölul. 18. gr. frv. frá 1. sept. til 31. mars ef tillögur nefndarinnar ná fram að ganga.
    Síðan hefur einnig verið gagnrýnt í 3. tölul. 18. gr. um svartfugl en þar segir að það megi aflétta friðun á álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda frá 1. sept. til 19. maí. Við höfum lagt til að dagsetningin 19. maí flyttist til 30. apríl. Ég og þeir nefndarmenn sem styðja brtt. viljum seinka þessu örlítið og legg ég því til að þessi dagsetning verði 10. maí, þ.e. það sé heimilt að aflétta friðun á þessum fuglategundum frá 1. sept. til 10. maí. Þetta er gert til að reyna að koma til móts við þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og aðalgagnrýnina sem fram hefur komið á brtt. meiri hluta nefndarinnar. Þá er ég ekki að segja að það hafi ekki verið gagnrýni á ýmsa aðra þætti. Eins og ég hef sagt áður verður sjálfsagt seint hægt að gera öllum til hæfis að því er varðar svo stórt og viðamikið frv. Ég var að vona að hægt væri að ná nokkrum sáttum í þessu máli með því að flytja þessa brtt. og það vildi ég gera til þess að reyna að auka líkurnar á því að menn gætu fellt sig við frv.
    Ég hef sjálf talið að þetta væri orðið sæmilega gott mál þegar búið væri að gera þær breytingar sem nefndin leggur til og eru á þskj. 1053 og við erum búin að vinna að í nokkuð langan tíma. Við höfum reynt að taka tillit til ýmissa sjónarmiða. Við höfum fengið heilan haug af umsögnum, t.d. frá skotveiðifélögum víða af landinu. Þeir sem þær skrifuðu gerðu ýmsar athugasemdir en í heildina litið mæltu

þeir með því að frv. yrði samþykkt. Þess vegna hefur komið mér mjög á óvart sú mikla gagnrýni sem hefur komið fram varðandi frv. en eftir því sem mér skilst er sú gagnrýni fyrst og fremst komin til vegna atburða sem ekki beinlínis tengjast frv. lengur, þ.e. ákvörðun umhvrh. varðandi veiðistjóraembættið. Sú gagnrýni hefur í raun gert það að verkum eftir því sem ég kemst næst að aðilar, og þá fyrst og fremst skotveiðimenn og þeirra félög, hafa lýst því yfir að þeir hafi fallið frá stuðningi við frv. Ekki vegna þess að í sjálfu sér hafi þeir fallið frá þeim grundvallarsjónarmiðum sem þeir lýstu í umsögnum sem þeir sendu umhvn. Það er fyrst og fremst framganga hæstv. umhvrh. varðandi veiðistjóraembættið og hvernig að því máli hefur verið staðið sem er orsök þess að menn hafa brugðist við eins og raun ber vitni. Það má kannski segja að upphafið hafi verið það sem kom fram fyrr í vetur þegar veiðitíma á rjúpu var styttur og síðan það, sem kom í beinu framhaldi af þeirri ákvörðun, að veiðistjóraembættið skyldi flytjast frá Reykjavík til Akureyrar. Það endaði með því að ákveðið var að sameina embættið Náttúrufræðistofnun Íslands sem síðan hefur verið fallið frá aftur í bili. Það er það sem menn gagnrýna einna mest og virðist vera ástæðan fyrir því að menn hafa hætt að treysta því að farið verði málefnalega að í þessu máli. Það er fyrst og fremst það sem menn gagnrýna.
    Auðvitað verð ég að taka undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á framgöngu hæstv. ráðherra varðandi veiðistjóraembætti. Það kann ekki góðri lukku að stýra að fara fram með þeim hætti sem þar hefur verið gert, þ.e. að láta sér detta það í hug eftir hádegið á Þorláksmessu að nú sé best að flytja veiðistjóraembættið og það skuli ekki undirbúið eins og nauðsynlegt er til þess að slíkt megi heppnast vel. Ég tel nauðsynlegt að kanna það mál miklu betur og undirbúa það. Mér finnst að ríkisstjórnin ætti að lýsa því yfir að höfuðstöðvar veiðistjóraembættisins yrðu ekki flutt af Reykjavíkursvæðinu nema eftir eðlilegan og viðunandi undirbúning þannig að komið verði í veg fyrir að embættið verði lagt í rúst. Það er fyrst og fremst það sem maður sér fyrir sér núna og það sem þeir sem gagnrýna málsmeðferðina harðast utan þessa salar benda sérstaklega á. Það gengur auðvitað ekki að það sé hægt að flytja stofnanir fram og til baka um landið eftir geðþóttaákvörðun einstakra ráðherra. Það getur alls ekki gengið. Það þarf góðan og vandaðan undirbúning til þess að hægt sé að flytja heilu stofnanirnar sem hafa starfað farsællega og í sátt við þá sem þangað hafa þurft að leita.
    Ég hefði, virðulegur forseti, gjarnan viljað ræða ýmislegt fleira, t.d. framgöngu forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands í þessu máli og hvernig gengið hefur verið fram hjá stjórn stofnunarinnar og ýmislegt í því sambandi sem kom fram í máli hæstv. ráðherra á föstudaginn. Ég ætla hins vegar að spara mér það í þessari ræðu, en þar er ýmislegt sem er mjög gagnrýni vert og þyrfti að ræða sérstaklega.