Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 03:00:48 (7079)


[03:00]
     Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Herra forseti. Eins og ég sagði þegar ég gerði grein fyrir brtt. nefndarinnar á þskj. 1053 þá gerðum við ráð fyrir að stytta mögulegan veiðitíma allra þeirra fuglategunda sem taldar eru upp í 18. gr. en miðað við núgildandi lög eru flestar þessar fuglategundir friðaðar til 1. sept. Að því leyti var það til samræmis við núgildandi lög sem virðast hafa reynst nokkuð vel að því er það varðar. Að vísu tókum við út t.d. bjartmáv af því að hann er bara gestur hér á landi og við töldum óeðlilegt að það mætti veiða hann.
    Það sem liggur fyrst og fremst að baki eru upplýsingar frá fuglafræðingi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ég tek það fram að þetta er ekki varðandi veiðiþolið. Þetta er fyrst og fremst siðferðilegt spursmál um að fuglar séu ekki veiddir þegar þeir eru illa fleygir eða ófleygir. Það er ekki oft en það kemur nokkuð fyrir eftir því sem fuglafræðingurinn segir að þessir fuglar séu ekki orðnir vel fleygir í lok ágúst þannig að það er fyrst og fremst það sem liggur að baki. Það eru ekki vísindalegar rannsóknir sem við leggjum til grundvallar því að veiðiþolið sé endilega meira þó að ýmislegt bendi til að svo sé, heldur er það hins vegar það sem þarf að taka afstöðu til þegar á að aflétta friðun. Og eins og kemur fram í frv. og brtt. sem nefndin gerir verður það að aflétta friðun að byggja á tillögum ráðgjafarnefndar um villt dýr. Það er miðað við að sé gert miðað við veiðiþol stofnanna. En þegar verið er að hugleiða t.d. í hvort megi veiða dýr

á varptímanum þá er það mjög oft siðferðileg spurning frekar en líffræðileg.