Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 03:08:19 (7083)


[03:08]
     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Þegar 2. umr. um þetta mál hófst sl. föstudag þá bað ég um orðið og reiknaði með að þurfa að flytja langa ræðu. Hefði málið komið til atkvæða í þeim búningi sem það var þá hefði ég greitt atkvæði gegn því. Nú hafa verið boðaðar verulegar breytingar á frv. sem ég met mikils því að þær sníða verulega agnúa af þeim brtt. sem fluttar voru við 2. umr. eins og þær voru þegar hún hófst. Það hefur verið gerð grein fyrir þessum breytingum og ég skal ekki fara yfir það í mörgum orðum, en þær eru í stuttu máli þær að brtt. á þskj. 1055 verði dregnar til baka. Þær eru í átta töluliðum og snerta veiðistjóraembættið, þar á meðal þá fyrirætlan sem var boðuð í tillögunum að innlima það í aðra stofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands. Ég skal ekki fjölyrða um það vegna þess að þessar tillögur hafa verið dregnar til baka, en aðeins geta þess að veiðistjóraembættið hefur byggt upp ákaflega þýðingarmikil tengsl við veiðimenn um allt land og einnig tengsl við bændur á mörgum svæðum landsins, verið til aðstoðar við veiði, verið til leiðbeiningar um veiði og lagt til í mörgum tilvikum tæki og annað það sem þarf til og hafa þau tengsl verið hin ágætustu. Með því að innlima það embætti í aðra stofnun sem ekki hafði sinnt slíkum tengslum er hætt við að þau hefðu rofnað og þær tillögur allar voru mjög svo óaðgengilegar og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það að hafa beitt sér fyrir því að þær skyldu verða felldar brott.
    Í öðru lagi er fallið frá því að stytta veiðitíma gæsa og enn fremur að ekki skuli gengið jafnlangt og tillögurnar höfðu áður boðað að stytta veiðitíma svartfugls að vori. Ég vil aðeins segja vegna athugasemda sem komu fram í andsvari hv. 11. þm. Reykv. að það leynist ekki þeim sem fara um landið hvílíkur gífurlegur floti gæsa er víða hvar um landið og það er engin spurning að a.m.k. grágæsin, ég þekki minna heiðargæsina, að þar er veiðiþol þannig að það er ekki nokkur ástæða eða tilefni til að stytta þann veiðitíma sem hefur verið á þessum fugli.
    Ég hef bent á það áður í umræðum um þetta mál að ýmsar andategundir sem þar eru í sama flokki, þ.e. sem taldar eru upp í 18. gr., t.d. stokkönd, ég tala nú ekki urtönd, rauðhöfðaönd og duggönd, eru á sumum svæðum landsins nærri að verða aldauða og þar auðvitað sá mikli skaðvaldur í íslenskri náttúru, minkurinn, sem hefur ráðið þar mestu um því það urðu skjót og mikil umskipti þegar hann haslaði sér völl í lífríki og náttúrufari landsins. En ég skal ekki ræða það frekar en ég þakka einnig fyrir þessar brtt. sem mér finnst ganga mjög í rétta átt.
    Í þriðja lagi eru brtt. sem hér var mælt fyrir af hæstv. heilbrrh. varðandi það ágreiningsefni sem uppi hefur verið um seli og selveiðar og hvaða ráðuneyti skuli fara með þau mál. Skal ég engu bæta við það að öðru leyti en því að ég tel þær tillögur fullnægjandi og þær yfirlýsingar sem hæstv. heilbrrh. og starfandi umhvrh. hefur gefið.
    Ég met þessar breytingar það mikils að ég treysti mér til þess að standa með þessu frv. þrátt fyrir það að ég sé enn mjög óánægður með ýmsa þætti málsins og þá sérstaklega með það grundvallaratriði í þessari lagasetningu sem ég hef mest gagnrýnt, bæði á síðasta Alþingi og eins næst síðasta Alþingi, en það er þá miklu miðstýringu sem er í þessu frv., ef það verður að lögum, þar sem öll dýr og fuglar að heita má eru friðuð en síðan er það á valdi eins manns, hæstv. umhvrh., hverju sinni að ákveða hvernig gefnar verða undanþágur frá þessari friðun þó að því marki sem rúmast innan ramma þessara laga. Á þessum atriðum er ekki tekið og finnst mér það vitaskuld miður. Ég tel að það færi betur ef löggjöf um þessi efni væri skýr, það lægi ljóst fyrir hvenær og hversu lengi og hvaða dýr mætti veiða á tilteknum tímum ársins og ef þau dýr væru ýmist í verulegri hættu ellegar þá að veiðiþol þeirra væri miklu meira en áður hafði verið gert ráð fyrir þá hefði hæstv. ráðherra heimild til þess að veita frávik frá slíkri meginreglu.
    En þetta rímar auðvitað mjög vel við það nefndarálit sem hér er birt frá minni hluta nefndarinnar, undirritað af hv. þm. Tómasi Inga Olrich. Ég sakna þess auðvitað mjög úr því að hv. þm. birti nál. sem lýsir viðhorfi hans nokkuð með sama hætti og ég hef kynnt hvað eftir annað á hv. Alþingi um þessi efni og um þetta grundvallarafdrif í þessari lagasetningu að það skyldi þá ekki fylgja því nál. brtt. sem sá hv. þm. og nefndarmaður í umhvn. hefði unnið upp. Þrátt fyrir þessa ágalla og ýmsa smærri sem menn geta auðvitað deilt um eða togast á um sem ekki varða miklu þá get ég sætt mig við frv. eins og það liggur fyrir með þessum breytingum og mun sýna það að ég virði þá vinnu sem lögð hefur verið í það að bæta frv., bæði af hálfu hv. nefndar, hv. formanni umhvn. og eins fyrir tilstilli hæstv. ráðherra, þá mun ég treysta mér til þess að standa að afgreiðslu þess.