Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 03:17:08 (7084)


[03:17]
     Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Herra forseti. Aðeins til áréttingar vegna orða hv. þm. um það að það væri á valdi eins manns að aflétta friðun, þá hefur nefndin einmitt lagt til breytingar á þessu frv. þannig að það er lögð áhersla á að það sé alltaf haft samráð við ráðgjafarnefnd um villt dýr, eða ,,villidýranefnd`` eins og hún er nefnd í frv. um það hvenær aflétta eigi friðun. Það sé leitað eftir umsögnum og það séu tillögur frá þessari nefnd en það sé ekki eingöngu í valdi ráðherra að taka allar þær ákvarðanir einn og sér, hann verði að hafa samráð við þessa nefnd. Þetta vildi ég að kæmi fram vegna orða hv. þm.