Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 03:46:27 (7089)


[03:46]
     Frsm. meiri hluta umhvn. (Kristín Einarsdóttir) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vildi benda hv. þm. á að í brtt. á þskj. 1053, 9. tölulið, er gert ráð fyrir brtt. við 9. gr. sem hann vitnaði til. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Umhverfisráðherra getur í samráði við ráðgjafarnefnd um villt dýr veitt tímabundna undanþágu til að nota ofangreindar veiðiaðferðir í vísindaskyni eða ef villt dýr valda umtalsverðu tjóni og aðrar aðferðir eru ekki taldar henta.``
    Þannig að það er í valdi þessarar ráðgjafarnefndar að meta það hvort heimilt sé að veita undanþágur frá þeim veiðiaðferðum sem þarna eru nefndar. Þannig að ég get ekki svarað því öðruvísi varðandi það hvort það muni ná til þeirra atriða sem hv. þm. nefndi því það er í valdi þessarar ráðgjafarnefndar og ráðherra að meta hvort það er talið nauðsynlegt. En meginreglan er auðvitað sú að það eigi ekki að nota þessar byssur sem hann nefndi.
    Síðan ætla ég að benda á að við 11. tölulið í brtt. af hálfu nefndarinnar er talað um hlunnindaveiðikort og þar segir, með leyfi forseta: ,,Hlunnindakort gilda fyrir eiganda og ábúanda og það fólk sem honum er nauðsynlegt að hafa með sér við nýtingu hlunnindanna og við varnaraðgerðir við ágangi tjónvalda.``
    Það er því lagt til að gerður verði ákveðinn munur þar á af því að það var spurt sérstaklega að því atriði eða bent á það. Síðan vildi ég bara benda á það að því er varðaði brtt. við 18. gr. og ég skil ákaflega vel að þetta sé að verða dálítið ruglingslegt að fólk átti sig ekki á því, en það er einmitt gert ráð fyrir að það gildi sérstakt að því er varðar gæsir, þ.e. að veiðitímabil gæsa geti verið frá 20. ágúst til 31. mars, þ.e. að því er varðar grágæs og heiðargæs en síðan séu hinar fuglategundirnar sem taldar eru upp í 2. tölulið frv., það gildi um þær áfram 1. september til 31. mars. Ég skil mjög vel að það sé ekki mjög skýrt en svona er það samt. Þetta vildi ég skýra, virðulegur forseti.