Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 03:48:42 (7090)


[03:48]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Þau skýra málið að nokkru leyti og sérstaklega þakka ég fyrir þessa ábendingu og brtt. nefndarinnar um sérstök veiðikort fyrir ábúendur hlunnindajarða eða þá sem eru að nýta hlunnindi og hefðbundnar, og ég vil þá leyfa mér að trúa, nytjar manna sem hafa haft af því tekjur eða umtalsverð störf að ástunda slíkt. En varðandi hið breytta orðalag á síðustu mgr. 9. gr. þá í sjálfu sér skýrir það ekki málið gagnvart þeim sem varpa fram þessari ósköp einföldu spurningu: Verð ég að henda þeim tækjum og eru þau mér ónýt sem ég hef kannski nýlega keypt í atvinnuskyni af því að ég er grenjaskytta?
    Það kann vel að vera að sú stétt njóti ekki mikillar samúðar hér en hún er til samt. Og þá mundi maður náttúrlega í næstu umferð spyrja: Gott og vel, þessi nefnd og ráðherra eiga í samráði að taka á svona

málum en hver er stefnan? Er ekki hægt að gefa einhverjar upplýsingar um það? Hvaða afstöðu hefur t.d. hæstv. umhvrh.? Hvað vill hann gera? Er hann tilbúinn að segja hér að hann vilji leggja það til að menn geti notað þetta áfram eða notað út úr þeim tækjum sem þeir eiga eða eitthvað í þeim dúr?
    Staðreyndin er ósköp einfaldlega sú að þegar svona mál koma fram þá fá menn ýmsar spurningar af þessu tagi sem eðlilegt er. En ég svo sem tek það gilt að sumt af þessu er framkvæmdaratriði sem nýjar og fínar samráðsnefndir og ráðherrann eiga að leysa úr og auðvitað verður það alltaf svo að stjórnvöld þurfa að taka á einhverjum slíkum málum sem annast framkvæmdina. En ég held að það sé alveg ljóst samt, hæstv. forseti, að flest af því sem hér er verið að leggja til í þessum brtt. er til bóta svo langt sem það nær og þá vaknar náttúrlega enn sú spurning hvort þetta yrði ekki enn betra ef nefndin leggði það á sig að vinna pínulítið meira í þessu.