Fundarhald í heilbrigðis- og trygginganefnd

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 10:33:44 (7091)


[10:33]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þannig háttar til að okkur er sagt að það eigi að fara að ljúka störfum þingsins einhvern tíma á næstunni, a.m.k. hef ég ekki frétt af því að það standi til að þing verði samfellt fram á þann 17. júní þegar meiningin er að menn hittist kannski hvort eð er. Ástæðan til að ég kvaddi mér hljóðs er sú að ég frétti að það hefði verið felldur niður fastur fundur í heilbrn. þingsins. Það finnst mér nokkuð sérkennilegt með hliðsjón af því að fyrir nefndinni liggur frv. um málefni aldraðra sem er gott samkomulag um og við alþýðubandalagsmenn höfum lagt mikla áherslu á að fái afgreiðslu á þessu þingi ef nokkur kostur er. Þess vegna vil ég biðja hæstv. forseta um að hlutast til um að það verði kannað hvort ekki er hægt að kalla saman fund í heilbrn. þannig að þar verði, eins og annars staðar, afgreidd þau mál sem þingmenn og ráðherrar hafa lagt sérstaka áherslu á. Við höfum í þeim nefndum sem ég þekki til, t.d. bæði í menntmn. og iðnn., gengið býsna langt í því að hreinsa borðið eftir þennan vetur og ég fer fram á það að hæstv. forseti kynni sér það hvernig þessi mál standa hjá hv. heilbr.- og trn. og formanni hennar. Ég hef á skotspónum sögusagnir um að ástæðan fyrir fundarfallinu sé sú að menn vilji braska með mál í lok þingsins og vilji gjarnan sjá fyrir endann á lyfjamálum áður en önnur mál eru tekin fyrir í nefndinni. Ég vísa svona aðferðum á bug þó að þær kunni að tíðkast einhvers staðar.