Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 11:55:17 (7097)


[11:55]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég held að fyrirtækið Borgey sem hefur barist í bökkum, barist fyrir tilveru sinni að undanförnu, gerði nú nokkuð rétt í því að ráðstafa takmörkuðu fjármagni, 15.000 kr. eða svo, í fargjald undir hv. þm. til að kynna sér aðstæður betur heldur en honum virðast vera ljósar miðað við málflutning hans hér. Það eru býsna flóknar aðstæður sem varða útgerð á Hornafirði og samstarf fyrirtækja þar og einmitt dæmigert um það sem varðar þær tillögur sem hér eru til breytinga, kenndar við 15% reglu. Hv. þm. nefndi fiskvinnslukvótann og ég get út af fyrir sig tekið undir þann saknaðartón sem kom fram hjá hv. þm. að því er varðar þann möguleika að úthluta fiskvinnslunni kvóta. Það er eitt af því sem ég tel að gæti verið til bóta ef rétt væri að staðið. En það er ekki sama hvernig á því er haldið, einnig það getur verið flókið í útfærslu og hugsanlega eru menn ekki alltaf að tala þar um sama hlutinn.