Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 11:56:38 (7098)


[11:56]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þó menn geti vissulega oft greint á við hv. 4. þm. Austurl. þá hefur aldrei farið á milli mála fram að þessu að hann hefur verið mjög skýr í afstöðu sinni. Afstaða hans hefur aldrei farið á milli mála þangað til núna. Nú fannst mér hv. þm. bregða svolítið út af sínum vana og í máli hans kom fram svona ákveðin pólitísk tvíhyggja sem lýsti sér í því að annars vegar varði hann verulegum tíma í það að gagnrýna hið frjálsa framsal aflaheimilda og taldi að mjög margt illt hefði og mundi af því hljótast þegar litið væri til lengri tíma og eins ef litið væri til fortíðar. Þess vegna kom það mjög á óvart að allt í einu skaut upp kollinum í hans athyglisverðu ræðu kafla sem var mikil málsvörn fyrir hið frjálsa framsal. Það var sá kafli í ræðu hv. þm. þegar hann fór að gagnrýna hina svokölluðu 15% reglu. Hann sagði sem svo: Þetta er spurningin um skammtímasjónarmið og langtímasjónarmið. Ég held að hv. þm. sé hér á miklum villigötum því sannleikurinn er sá að ef þessi 15% regla væri afnumin þá væri hann auðvitað að búa í haginn fyrir það að styrkja í sessi framsalsheimildirnar og framsalskerfið, sem hann þó í hinu orðinu var að gagnrýna. Ég held að menn verði einfaldlega að átta sig á því að eins og málum er komið núna þá verða menn að taka afstöðu til þess. Annaðhvort eru menn með hinu fullkomna frjálsa framsali til langs tíma og til skamms tíma ellegar menn vilja gangast inn á að takmarka það í einhverjum mæli. Í þessum brtt. er lögð til nokkur skerðing á því frjálsa framsali sem hefur viðgengist. --- Ég skal viðurkenna ekki mjög mikil. En þess vegna kom mér mjög mikið á óvart að heyra það frá einum harðasta gagnrýnanda hugmyndarinnar um hið frjálsa framsal að hann talaði á þann veg hér að hann taldi að 15% reglan væri af hinu illa.