Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 12:00:16 (7100)


[12:00]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að menn lendi fljótt í ákveðnum ógöngum þegar þeir reyna að skipta niður annars vegar langtímahagsmunum í þessum efnum og hins vegar skammtímahagsmunum. Vegna þess að sannleikurinn er auðvitað sá að ef menn gangast inn á það og segja sem svo: Við eigum að hafa til skamms tíma sem frjálsast framsal, þá eru menn auðvitað að styrkja í sessi til lengri tíma kerfi sem felur í sér frjálst framsal á aflaheimildum. Og ég held að ef menn tala á þann veg sem hv. þm. gerði, að hér verði að afnema 15% regluna, þá sé auðvitað verið að mæla því bót að það sé tekið upp sem frjálsast framsal á aflaheimildum. Ég hef alltaf litið þannig á að ef menn vilja láta þetta kerfi sem nú er við lýði ganga röklega upp þá verður auðvitað að vera við lýði sem frjálsast framsal. Þannig að ég tel að það sem menn eru að gera hér undirstriki á vissan hátt ákveðnar mótsagnir í kerfinu. Þess vegna held ég að hv. þm. sé í allmiklum vanda og það sé ekki bara stílbrot, það sé ákveðinn vandi í þeirri röksemdafærslu sem hv. þm. hefur annars haldið á lofti þegar hann skyndilega leggur lykkju á leið sína og fer að tala fyrir því í skjóli einhverra skammtímahagsmuna, sem hann kallar svo, að auka hið frjálsa framsal frá því sem það er núna í brtt. meiri hluta sjútvn.
    Ég tel raunar að brtt. meiri hluta sjútvn. takmarki ekki með alvarlegum hætti hið frjálsa framsal. Fyrst og fremst er þessum brtt. ætlað að koma í veg fyrir ákveðna misnotkun. Það er hið yfirlýsta markmið. Og ég held að það sé ekkert sem hefur verið sýnt fram á í umræðunni upp á síðkastið sem bendir til að þessi skerðing, þessi takmörkun, torveldi skynsamlegt, skipulegt og heiðarlegt frjálst framsal aflaheimilda milli útgerða.