Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 14:00:01 (7110)


[14:00]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Lögin um stjórn fiskveiða hafa til langs tíma verið umdeildustu lög sem Alþingi hefur sett og sér ekki fyrir endann á þeim deilum sem fylgja þessu fiskveiðistjórnunarfyrirkomulagi sem hv. Alþingi ber ábyrgð á.
    Við síðustu lagasetningu í þessu efni á árinu 1990 var ákveðið að þessi lög ættu að koma til endurskoðunar og svo oft hefur verið farið yfir það mál hér hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að þeim hlutum að ég ætla lítið að endurtaka í því. ( VE: Enda til fyrirmyndar.) En ég sé ástæðu til þess þar sem hv. 5. þm. Norðurl. v. kallar fram í að segja honum frá því að ég hafði hugsað mér að fara nokkrum orðum um árangurinn af þeirri endurskoðun eins og hann birtist í frumvörpum ríkisstjórnarinnar og bera hann dulítið saman við þau markmið sem tvíhöfða nefndin, sem mótaði stefnuna fyrir hæstv. ríkisstjórn, lagði til. Það er nokkur munur á þeim tillögum sem Alþingi Íslendinga stendur frammi fyrir núna að afgreiða og þeim hugmyndum sem tvíhöfða nefndin lagði af stað með í hinni frægu ferð sinni í kringum landið. Ég held að það sé rétt að ég hefji lesturinn á þeim stað í bókinni þar sem tvíhöfða nefndin gerir grein fyrir aðaltillögum sínum sem hún kallar ,,Útdráttur úr tillögum``. Á bls. 9 í þessari frægu tvíhöfða skýrslu hljóðar 1. liðurinn svo, með leyfi forseta:
    ,,Efldar verði rannsóknir á lífríkinu í hafinu umhverfis landið. Sérstaklega verði rannsakað hvað veldur sveiflum í nýliðun þorskstofnsins, samspil mismunandi fisk-, dýra- og plöntutegunda í hafinu og áhrif veiðarfæra á lífríki og hafsbotn. Einnig verði rannsóknir á sviði fiskeldis efldar.``
    Þó að þetta sé háleitt og gott markmið þá hefur lítið miðað í þessu efni og síðustu hugmyndir sem heyrst hafa til að koma til móts við þetta sjónarmið er að láta litlar 50 millj. í tilefni af þjóðhátíðarhöldunum í sumar í verkefni af þessu tagi. Þarna hefði þurft að taka betur á en gert hefur verið og má taka þar undir með tvíhöfða nefndinni.
    Önnur tillagan, og það er sú tillaga sem mesta umfjöllun hefur hlotið frá því að tillögur tvíhöfða nefndar komu fram, var um það að aflamarkið yrði fest í sessi. Nú verða menn að meta það við fyrirhugaða lagasetningu hvort þessi fyrirætlun tvíhöfða nefndar hefur náð fram að ganga. Það er mitt mat að þær hremmingar sem aflamarkskerfið hefur orðið fyrir í umfjöllun um tillögur tvíhöfða nefndarinnar og við undirbúning þessara lagafrumvarpa sem hér liggja fyrir sýni svo ekki verði um villst að aflamarkskerfið er ekki að festast í sessi. Baráttan gegn því er að aukast um allt land, baráttan er að harðna. Sjómenn risu gegn kerfinu og nú heyrum við í fiskverkafólki sem kemur í kjölfarið. Sjómenn fengu fram breytingar og það eru aðalbreytingarnar sem gerðar eru á aflamarkskerfinu. Þær eru vegna kröfu sjómanna. Fiskvinnslufólkið er farið að láta í sér heyra. Hverjar verða kröfur þess að lokum?
    Þriðja tillagan var það að aflamark yrði sett á keilu, löngu, lúðu, steinbít og blálöngu. Hvernig fór fyrir þeirri hugmynd tvíhöfða nefndarinnar? Hún er ekki í þeim tillögum sem við erum að ræða um. Hún hefur einhvern veginn horfið.
    Fjórða tillagan var um það að heimilt yrði að framselja aflahlutdeild báts yfir á vinnslustöð. Það var í tillögunum þegar þær komu fram en nú hefur hv. 5. þm. Norðurl. v. lagt til að hætt verði við þetta.
    Sjötta tillagan var um það að ákvæði um framsal skipa og veiðiheimilda á milli byggðarlaga yrði óbreytt. Háleitt markmið. Það stendur enn. Það hefur ekki verið breytt neinu í því efni.
    Síðan kom tillaga um það að allir smábátar yrðu tekinn inn í aflamarkskerfið. Það var tillaga tvíhöfða nefndarinnar. Stendur það til? Nei, það hefur verið hætt við það. Það verður ekki af því.
    Þá kom tillagan um það að tvöföldun kvóta vegna línuveiða í mánuðunum nóvember til febrúar yrði lögð af. Hvað varð af þessari tillögu? Ekki er hún í frumvörpunum.
    Þá kom tillaga um að gefið yrði leyfi til að byggja fleiri en eitt skip í staðinn fyrir eitt sem yrði úrelt. Sú tillaga er í tillögunum sem við erum að fjalla um.
    Þá er það tillaga um það að tryggt verði að lög um stjórn fiskveiða og önnur lög hamli ekki tímabundnum veiðum íslenskra skipa í lögsögu annarra ríkja. Ég veit ekki hvort þetta markmið hefur náðst. ( VE: Jú.) Er þetta svar jú, ekki bundið þeim skilningi hv. þm. að skráningartillagan sem nú er verið að veltast með í samgn. verði samþykkt og komi til afgreiðslu í þinginu? (Gripið fram í.) Ekki það, nei.
    Síðan hvatti nefndin til sameiningar sveitarfélaga og vegna þess að það var svo stór liður í mótun fiskveiðistefnu, þá er rétt að vekja athygli á því að það hefur nokkuð miðað í þessu markmiði nefndarinnar.
    Þá var markmiðið um úrtaksvigtun sem ég ætla ekki að fara nánar út í sem ég held að hafi ekki unnist neitt á í.
    Því næst var markmið sem nefndin setti fram um að brýnt væri að hið opinbera gerði það sem í þess valdi stæði til að mismuna ekki sjóvinnslu og landvinnslu og varað við kröfum til sjóvinnslu um óhagkvæmar fjárfestingar og rekstur. Hvað hefur gerst í þessu efni? Var það ekki rétt skilið að það ætti að jafna á hrossunum þannig að fiskvinnslustöðvarnar í landi hefðu sömu möguleika til þess að taka þátt í þessari samkeppni eins og sú vinnsla sem fer fram úti á sjó? Ég hef ekki orðið var við neinar tillögur. Eina tillagan sem gæti eitthvað tengst þessu máli var tillaga um að leyfa fiskvinnslustöðvum að eiga kvóta, en hún hlýtur ekki lengur náð fyrir augum ríkisstjórnarflokkanna.
    Þá var það markmið að óheimilt yrði að fyrna kaupverð varanlegra aflahlutdeilda sem eigendaskipti yrðu á. Og hvernig fór fyrir því markmiði? Hæstiréttur kvað upp sinn dóm. Hann kvað upp þann dóm í haust að þeir sem keyptu aflaheimildir ættu að eignfæra þeir og afskrifa þær um 20% á ári. Og ég ætla að ræða betur um það síðar.
    Næstsíðasta markmiðið sem sett var fram var að athafnafrelsi erlendra skipa í íslenskum höfnum yrði aukið. Þar hefur áunnist. Hér sigla menn undir hentifánum til og frá landinu og gera út undir þeim fánum, en það hefur ekki enn þá verið komið neinni skipan á þau mál sem Íslendingar geta varið gagnvart öðrum fiskveiðiþjóðum.
    Að lokum benti nefndin á það að í ríkisstjórninni hefði orðið samkomulag um Þróunarsjóðinn og þess vegna gæti hún hætt að fjalla um þessi mál. Þetta var raunverulega lokaskýrsla nefndarinnar. Og ef yfir hana er farið þá er nánast ekkert af stærri markmiðum sem nefndin setti sér í tillögum sem nú liggja fyrir hv. Alþingi. Samt gekk hv. 5. þm. Norðurl. v. í ræðustól og sagðist vera ánægður með árangurinn.
    Nei, það er áreiðanlegt að þessi ganga hv. 5. þm. Norðurl. v. og síðan stríð hæstv. sjútvrh. við það að reyna að koma markmiðum tvíhöfða nefndarinnar fram í þinginu hefur verið einhver hörmulegasta saga sem maður hefur fylgst með til langrar tíðar. Og árangurinn er þessi að hér eru menn að fjalla um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni sem fyrst og fremst er til komin vegna átaka á vinnumarkaðnum, átaka við sjómenn í þessu landi.
    En því miður er ekki búið að endurskoða þessi lög um stjórn fiskveiða þannig að við getum unað við það kerfi til framtíðar sem hér gildir í þessum efnum.
    Ég tel að allra alvarlegasta afleiðingin af þessu aflamarkskerfi sé ekki sú að stjórna veiðum með því að úthluta aflamarki. Það er út af fyrir sig mögulegt að gera það þó að ég telji að það sé betra að gera það með öðrum hætti. En það er eignarhaldið eða það ígildi eignarhalds sem er á veiðiheimildunum og sem

þeir sem vilja halda þessu kerfi við telja að sé grundvöllurinn undir kerfinu sem er að eyðileggja fyrir okkur þessa sameign þjóðarinnar.
    Ég minnti áðan á dóm Hæstaréttar. Þarf nokkur að velkjast í vafa um það að smám saman hafa útgerðarmenn í landinu verið að eflast í þeirri trú að þeir eigi þessar veiðiheimildir? Það voru dæmi um það hjá þeim gestum sem mættu hjá hv. sjútvn. að þeir sögðu að eignarhaldið á kvótanum ætti að vera skýrt og klárt, útgerðarmenn ættu að eiga kvótann, þetta ákvæði í 1. gr. laganna um sameign þjóðarinnar ætti ekki við. Við höfum orðið meira og meira varir við að það er þessi skoðun sem er smám saman að ná yfirhöndinni. Flestum útgerðarmönnum nú orðið þykir það engin goðgá og finnst það bara sjálfsagt að þeir hafi fjármuni út úr því að láta úthluta sér veiðiheimildum og nota þær ekki sjálfir. Í upphafi voru mjög fáir útvegsmenn sem gátu fellt sig við að gera svoleiðis hluti og það eru reyndar til útgerðarmenn enn í dag sem aldrei hafa selt frá sér veiðiheimildir af þeirri einni ástæðu að þeir hafa ekki talið að það samrýmdist þeirra samvisku, vegna þess að þeir hafa ekki talið að þeir ættu fiskimiðin eða fiskinn í sjónum.
    Og hverjar eru svo afleiðingarnar af þessu ígildi eignarhaldsins? Þær eru mjög greinilegar. Það er farið að koma fram í þróun byggðanna með alveg sérstökum hætti vegna þess hvernig menn beita þessu ígildi eignarhaldsins.
    Ég hef hér í höndum skýrslu sem atvinnufulltrúi á Vesturlandi samdi á grundvelli talna frá Fiskistofu og frá Fiskifélagi Íslands og á þeirri skýrslu má glöggt sjá hvernig ígildi eignarhaldsins á veiðiheimildunum er farið að hafa áhrif á fiskvinnsluna. Ég hef tekið eftir því að þeir sem vilja hafa þetta kerfi óbreytt hafa gjarnan gripið til þess málflutnings að benda á einstök fyrirtæki sem hafa átt mikið af veiðiheimildum og hafa notfært sér þær veiðiheimildir með alveg sérstökum hætti til þess að fá fisk frá öðrum landsvæðum og ekki bara fisk út á sínar eigin veiðiheimildir, heldur líka út á veiðiheimildir viðskiptamanna sinna. Þetta er talað um eins og einhverja óskaplega eftirsóknarverða atvinnustarfsemi. Og út á hvað fá þessi fyrirtæki viðskiptin? Þau fá viðskiptin út á það að það er orðið svo mikið af bátum sem hafa allt of lítið af veiðiheimildum og þeir neyðast til þess að afla sér verkefna með þessum hætti. Viðkomandi fiskvinnslustöðvar skammta verðið fyrir fiskinn og fá mun lægra hráefnisverð til að vinna á heldur en gerist hjá öðrum sem ekki hafa þessa möguleika. Þetta kalla menn hagræðingu. En í hverju felst hagræðingin? Ekki verður nein hagræðing af því að flytja fiskinn á milli landshluta? Það eykur að vísu atvinnu. Vörubílstjórar hafa eitthvað að gera, en það er ekki hagræðing í því. Er þá hagræðingin fólgin í því að verkefnin við útgerð aukist? Auðvitað ekki. Það er ekkert verið að veiða meira af fiski. Þetta er bara spurning um hver veiðir fiskinn. Hagræðing viðkomandi fyrirtækja byggist á lægra hráefnisverði. Þar liggur hundurinn grafinn. ( Gripið fram í: Skertum tekjum sjómanna.) Og skertum tekjum sjómanna, hv. þm., það er rétt. Sjómenn greiða flutningskostnaðinn, sjómenn greiða niður hráefnisverðið með þessum hætti. Nú getur vel verið að íslenskir sjómenn séu á of háum launum, gott og vel. ( Gripið fram í: Er þingmaðurinn að blessa þetta?) --- Nei, þingmaðurinn er ekki að blessa þetta. --- En þá eiga líka samningsaðilar þeirra að semja um ný skiptakjör og lækkuð laun en ekki fara aftan að samningum við sjómenn með þeim hætti sem þarna hefur verið stundað. Mér er fullkunnugt um það að útgerðarmenn undir forustu LÍÚ ætla að halda þessum leik áfram þrátt fyrir þá lagasetningu sem hér er til umfjöllunar í Alþingi. Það hefur komið skýrt og greinilega fram á fundum sjútvn. þar sem þessir forustumenn hafa mætt að þeir telja að þau viðskipti, sem hafa verið með þessar aflaheimildir þar sem inn í fiskverðið hefur verið tekið tillit til verðs vegna aflaheimildanna, eigi að halda áfram óbreytt. Það eigi engin breyting að verða á því. Þetta sögðu þessir ágætu menn og það er alveg greinilegt að sá slagur mun halda áfram.
    Það mættu til leiks menn sem mynduðu félagsskap og kölluðu sig atvinnumenn í sjávarútvegi til aðgreiningar frá einhverjum öðrum sem eru þá ekki atvinnumenn samkvæmt skilgreiningunni. (Gripið fram í.) Það stendur hér á fyrstu síðu skjals sem þeir sendu hv. þm.: ,,Atvinnumenn, samstarfshópur um hagkvæma stjórn fiskveiða, örugga atvinnu og aukna verðmætasköpun til sjós og lands.`` Það var ekki minna.
    Þeir sögðu í sinni skýrslu hvaða álit þeir hefðu á því ef skilningur sjómanna, þ.e. ef lögin virka eins og sjómenn ætlast til sem eru flutt í tengslum við þessar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem við erum hér að fjalla um, þá segja þeir, með leyfi forseta, í sínu skjali:
    ,,Ef túlkun sjómannaforustunnar á orðum sjútvrh. um vinnutilhögun samráðsnefndar sjómanna og útgerðarmanna er rétt mundi útgerðarmaður vertíðarbáts þurfa að hækka launagreiðslur til sinna sjómanna í tonn á móti tonni viðskiptum um 25%. Ef framlegð þessa báts hefði verið 10% áður yrði hún mínus 4% eftir þessar greiðslur. Allir sem vilja sjá að þessi viðskipti yrðu úr sögunni ef fiskverðið yrði hækkað á þennan hátt.``
    Þetta er fullyrðing þessara manna sem ættu að vita eitthvað því að þetta eru atvinnumenn í greininni, þetta eru mennirnir sem stunda þessi viðskipti. Þeir hljóta að vita hvað þeir eru að segja.
    Í samningaviðræðunum í vetur fengust frammámenn útgerðarmanna aldrei til þess að meðganga það að sjómenn væru látnir taka þátt í kvótakaupum. En þessir aðilar koma með þessa yfirlýsingu og ég held að það væri kannski ráð að hæstv. sjútvrh. léti frá sér heyra um þetta mál vegna þess að þeir eru að bregðast við orðum hans í þessari yfirlýsingu, því sem hann sagði um það hvernig samstarfsnefnd sjómanna mundi virka.
    Ég ætlaði að koma að því með hvaða hætti þetta virkar í byggðarlögum þar sem fyrirtæki eins og þessi eru ekki eins og þau sem ég var að lýsa hér áðan sem með þessum hætti fá til sín helmingi meiri

fisk heldur en þeirra veiðiheimildir segja til um og á mun lægra verði. Ég held að tölurnar tali skýrustu máli. Ég hef hér tölur um það hvernig landaður afli hefur breyst á Vesturlandi, þ.e. hvernig afli er unninn á svæðinu og hvar hann er þá unninn ef hann er ekki unninn á svæðinu. Þá kemur í ljós að á Vesturlandi er heimaunnið, heimalandað og unnið heima, 45% af aflanum sem kemur að landi. Tæpt 41% er flutt í burtu frá Vesturlandi til vinnslu annars staðar í landinu. Hvers vegna? Hvað veldur því? Það er það sem ég var að lýsa hér áðan að langstærstum hluta sem veldur því, þ.e. að veiðiheimildir á þessu svæði eru svo miklu minni heldur en sá afli sem þarna kemur að landi að mönnum tekst með þessum aðferðum sem ég lýsti hér áðan að ná fiskinum til sín í mjög stórum stíl þannig að Vestlendingar eru sjálfir rétt rúmlega hálfdrættingar í því að vinna sinn eigin fisk á móti öðrum í þessu landi. ( Gripið fram í: Þetta er markaðsbúskapurinn.) Þetta er auðvitað markaðsbúskapur, en guð almáttugur. Ef þetta eru verslunaraðferðir sem eiga að vera löggiltar í markaðsbúskap, þá held ég að það muni ýmsir ekki skrifa upp á hlutina. Er það t.d. ásættanlegt fyrir formann Verslunarráðsins sem hefur mælt með þessu kerfi að það skuli vera byggt upp með þeim hætti að ákveðinn hluti af útgerð og fiskvinnslu í landinu hafi aðgang að hráefni á miklu lægra verði heldur en aðrir sem ekki hafa þessa möguleika? Og hvaða áhrif hefur þetta til framtíðar litið?
    Ég held að það þurfi ekki að fara í neinar grafgötur með það því að sannleikurinn er sá að það getur enginn í útgerð í okkar landi keppt um kaup á veiðiheimildum við aðila sem vinna með þessum hætti. Það er ekki hægt. Þar af leiðir að það verða svona fyrirtæki sem eignast allar veiðiheimildirnar. Vilja menn það? Ég tel að það sé röng stefna. Útgerðarmaður sem ekki er í fiskvinnslu t.d. á ekki þennan möguleika. Hann getur ekki notfært sér þennan mismun á hráefnisverði sem er myndaður með þessum hætti. Og það er ekkert smávegis á ferðinni. Leiga aflaheimilda í dag, síðustu tölur eru 73 kr. fyrir þorskinn. Það er hægt að komast yfir aflaheimildir ef maður er í slíkri aðstöðu sem ég var hér að lýsa miðað við þá verðlagningu. Er það virkilega þannig að þeir menn sem vilja hafa þetta svona áfram geri sér ekki grein fyrir því að það er verið að sporðreisa öllu atvinnulífi í landinu ef þetta fær að halda áfram? Og gera þeir sér ekki grein fyrir því að fram undan verður einhver mesta styrjöld sem hefur verið háð um atvinnulífið í landinu ef þessu heldur fram? Því að hvert einasta byggðarlag sem ætlar að lifa af verður að fara í þennan slag. Bæjarútgerðirnar eru byrjaðar að verða til allt í kringum landið. Þetta er einhver öflugasta hvatning til félagslegrar útgerðar sem hægt er að hugsa sér. En hvað kostar hún? Hún kostar það að þessi byggðarlög verða að leggja slíka fjármuni til útgerðar á sínu svæði að þau standa ekki undir því vegna þess að aflaheimildir eru svo dýrar. Þær eru svo dýrar að það er ekki möguleiki að kaupa skip og aflaheimildir og mynda þannig fyrirtæki þó að menn leggi fram eðlilegt hlutafé. Þó að menn leggi fram mikla peninga þá er ekki hægt að mynda eðlilega rekstrareiningu með því að kaupa skip og aflaheimildir. Það virðist aldrei ætla að ganga inn í höfuðin á þeim mönnum sem vilja hafa þetta kerfi svona áfram, að það er að ganga að endurnýjun í greininni dauðri. Ungu mennirnir sem komu inn í útgerð á Íslandi koma ekki þangað lengur. Það er enginn möguleiki til þess. Það er verið að búa til einstefnuloka yfir á stóru og öflugu fyrirtækin og ég er sannfærður um að það á eftir að valda úrkynjun og óhagræði í útgerð í okkar landi.
    En það er ein afleiðing sem ég held að þessir hv. þm. sem vilja hafa kerfið óbreytt og eru að greiða þessum tillögum atkvæði sitt sem hér liggja fyrir á grundvelli þess að þeir séu að verja kerfið þó að þeir hafi þurft að hrekjast undan eins og raun ber vitni, þá er það eitt sem þeir virðast ekki vera farnir að gera sér grein fyrir og það er að ef menn halda þessum leik áfram þá mun krafan um það að þjóðin fari að selja mönnum þessar veiðiheimildir eflast og það verður ekki lengi undan henni vikist ef menn ætla að halda áfram þessum verslunarháttum með veiðiheimildirnar. Þeir sem hafa verið harðastir gegn slíkum hugmyndum hafa verið útgerðarmenn sjálfir. Sömu mennirnir sem hafa verið að verja þetta kerfi eru í raun og veru að grafa sína eigin gröf.
    Síðan eru það ákveðnir hlutir sem er ákaflega erfitt að sætta sig við að skuli ekki vera tekið á í þessum fátæklegu brtt. við þetta fiskveiðistjórnarkerfi sem nú liggja fyrir. ( StG: Finnst þér þær vera fátæklegar?) Mér finnst þær vera fátæklegar, einfaldlega ... ( StG: Mér sýnist þær vera upp á milljarða.) Mér finnst þær vera fátæklegar vegna þess að það eru svo fjölmargir gallar eftir á þessu kerfi og það eru gallar sem kosta lífríkið í hafinu og þar með þjóðarbúið stórkostlega fjármuni. Það er t.d. helvíti hart að það skuli ekki vera neitt í þessu kerfi, í þessum tillögum sem kemur til móts við þær kröfur sem menn hafa verið að gera um það að kerfið hætti að hvetja menn til þess að kasta afla í sjóinn. Ég held að þeir menn sem ætla að styðja tillögurnar óbreyttar ættu að velta því alvarlega fyrir sér hvort þeir ætla að stuðla að því að það verði í meira og meira mæli verið að henda fiski í sjóinn á miðunum hérna. Ef einhverjir þurfa að hrista höfuðið yfir þessu ( Gripið fram í: Hvað er miklu hent?) og spyrja hversu miklu er hent . . .  ( Gripið fram í: Frammararnir sem ekkert vita.) Það er mjög góð spurning, en ég hef mjög gott svar við því hvernig á að fá svar við þessari spurningu. ( Gripið fram í: 50 þús. tonnum.) Svarið er hægt að fá með því að styðja tillögu Alþb. í þessu efni. ( Gripið fram í: Um hvað?) Við erum hér með brtt. við þetta frv. þar sem við erum að leggja til að mönnum verði gefinn kostur á að koma að landi með þann afla sem nú er hent í sjóinn og fá að landa honum utan kvóta. ( StG: Og borga hvað fyrir hann?) Fyrir hann ætti síðan að ákvarða mjög lágt verð, það lágt að menn mundu ekki stunda þessar veiðar í hagnaðarskyni en þó það hátt að menn hefðu fyrir því að kútta aflann og koma með hann að landi. Það þarf ekki að vera mjög hátt verð.

    Ég held að ef þessi tillaga yrði samþykkt, þá fengjum við að sjá eftir að árið væri liðið að það eru feykilega háar tölur á ferðinni í því sem menn henda í sjóinn af fiski. Á fund sjútvn. mætti t.d. einn skipstjóri sem sagði frá því sjálfur og stakk þar með upp í suma af nefndarmönnum sem hafa haldið því fram að það væru engar sannanir fyrir því að menn væru að henda fiski í sjóinn. Þessi ágæti maður sagði að hann henti öllum dauðblóðguðum fiski í sjóinn sem hann fengi þorskanetin. Af hverju? Það er bara svo hátt verðið á leigukvótanum að við höfum ekki efni á því að koma með hann að landi, sagði maðurinn. Og eru menn svo að halda því fram að þetta kerfi valdi því ekki að afla sé hent í sjóinn fram yfir það sem áður var? Hér höfum við fengið þau svör hvað eftir annað að fiski hafi alltaf verið hent í sjóinn, en fiski hafi aldrei verið hent í sjóinn af þessum ástæðum fyrr en þetta kerfi var til staðar.
    Við þekkjum miklu fleiri sögur af því hvernig farið er á bak við kerfið. Við vitum að afla hefur verið landað og hann hefur verið kallaður allt öðrum nöfnum heldur en sá fiskur hefur heitið í munni þjóðarinnar sem raunverulega hefur komið að landi. Við vitum að afla hefur verið landað og því haldið fram að hann væri ókúttaður en hann hefur raunverulega verið kúttaður. Þannig hafa menn raunverulega sparað sér 10% í kvóta. Við heyrum talað um það að sum byggðarlög hafi á sér ákveðin nöfn. Það hefur t.d. verið talað um eitt byggðarlag hér ekki langt frá sem menn kalla fríhöfn. (Gripið fram í.) Já. Og það er talað um að þar komi menn og landi á næturnar af því að það sé eitthvað þægilegra að fást við þá hluti þar en annars staðar. ( Gripið fram í: Hvar er hún?) Ég ætla ekki að svara því hvar sú höfn er. Ég veit að það kann að vera að sumt af þessum sögum sé skreytni en það er líka margt af því satt og það veit ég vegna þess að ég hef talað við þá menn sem standa í þessum hlutum sjálfir og lýsa því fyrir manni í hvernig aðstæðum þeir að vinna. Þetta viðgengst um allt land, þessar aðferðir. Það er ekki tekið á þessu í frv. og það er ekki gott.
    Tillaga 16-menninganna í þessu efni sem lögð var hér fram um 15% aukaafla hefur ekki komið til umræðu hér í þinginu og þó að ég hafi skrifað upp á þá tillögu, þá hafði ég ekki möguleika á að hafa áhrif á það hvernig hún var sett fram en ég taldi rétt að styðja hana vegna þess að bæði markmiðin í þeirri tillögu eru góð. Ég hefði hins vegar kosið að þau væru pínulítið öðruvísi fram sett og ég tel að sú tillaga sem ég var að lýsa hér áðan um það að reyna að koma í veg fyrir það að fiski sé hent í sjóinn með þeirri aðferð sem hér var nefnd geti vel gengið og hún gæti gefið okkur miklar upplýsingar um það hvernig menn eru að ganga um auðlindina. Síðan ætti að selja þennan fisk til hæstbjóðanda í landi og mismunurinn á því lága verði sem útgerðin fengi og því sem síðan fengist fyrir fiskinn gæti þá runnið í þyrlukaupasjóð Landhelgisgæslunnar. Og ekki veitir af. Ef einhver slíkur tekjustofn yrði til þá gæti það kannski orðið til þess að menn tækju þá ákvörðun um að kaupa þyrlu ef það væri hægt að fjármagna það að einhverju leyti með svona aðferð. En aðalatriði málsins er hitt að við þurfum að ganga betur um auðlindina heldur en við gerum og við megum ekki hafa stjórnkerfi í gangi sem hvetur til þess að ganga illa um auðlindina.
    Ég ræddi hér dálítið um verðþróun aflaheimildanna og hversu gífurlega hátt verð er nú á leigukvótanum. Þeir sem allt þóttust vita um þróun þessa kerfis sögðu í upphafi þegar þetta kerfi varð til að verð á aflaheimildum yrði hátt í upphafi. Síðan mundi það lækka. Nú er þetta kerfi búið að vera í gildi í 10 ár. Hafa menn séð að það væri að lækka verð á veiðiheimildum? Ég held að það hafi hvergi komið fram. Ég held þvert á móti að verð á veiðiheimildum hafi sífellt verið að hækka og það sé sífellt lengra bil á milli hagkvæmninnar í því að kaupa nýtt skip og aflaheimildir á það til þess að gera út þannig að það sé út í fjarskanum að endurnýjun geti orðið með eðlilegum hætti í útgerð á Íslandi.
    Það eru miklu fleiri hættur sem fylgja þessu kerfi og eru tengdar þessum eignarrétti á veiðiheimildunum heldur en ég hef hér nefnt. Ég tel að alvarlegasta hættan sé sú að veiðiheimildirnar verði að einhvers konar verslunarvöru nánast á kostnað útgerðarinnar. Í það er þróunin að stefna. Það verður öll útgerð í landinu að borga auðlindaskatt til veiðiréttareigendanna með þessu fyrirkomulagi innan tíðar. Það er orðið svoleiðis í stórum hluta af útgerðinni. Og þróunin er svo hröð að menn virðast jafnvel ekki hafa áttað sig á því, sumir hv. alþm. jafnvel, hve hröð þessi þróun er. Er það t.d. eðlilegt að það sé orðið meira en helmingurinn af veiðiheimildunum sem úthlutað er á hverju ári sem skiptir um eigendur á árinu? Átti ekki þetta kerfi að tryggja fyrst og fremst verkefni fyrir þá sem ætluðu að vera í alvöruútgerð? Áttu þeir ekki að fá til sín aflaheimildirnar? ( Gripið fram í: Lífskjör fyrir þjóðina.) Lífskjör fyrir þjóðina, sagði hv. þm. Auðvitað á þetta kerfi að tryggja lífskjör fyrir þjóðina. En ég held að verslunin með aflaheimildirnar geri það ekki út af fyrir sig og menn verði að finna aðra leið til þess að tryggja þjóðinni lífskjör heldur en kaupa og selja hverjir öðrum aflaheimildir fram og til baka.
    En hvað er það sem þetta bendir til? Af hverju er svona mikið af leiguheimildum í gangi í þessari útgerð? Hvers vegna selja menn ekki veiðiheimildir endanlega sem þeir eru ekki að nota? Jú, skýringin liggur í því sem ég var að lýsa hérna áðan. Menn nota aflaheimildirnar í öðrum tilgangi, ekki til þess að vera endilega að veiða sjálfir heldur til þess að græða á sjálfum aflaheimildunum, fá til sín afla á lægra hráefnisverði heldur en gengur á markaðnum. Og þó að slík fyrirtæki geti kannski sýnt hagnað, þá eru þessi fyrirtæki ekki endilega betur rekin en önnur fyrirtæki og skila ekki endilega meiri þjóðhagslegum arði heldur en önnur fyrirtæki. Þau eru einfaldlega að vinna á lægra hráefnisverði. Þetta virðist komast illa til skila, að menn átti sig á því hver þessi gullfótur er undir rekstri þessara fyrirtækja. Það eru tekin viðtöl við forustumenn þeirra og þeim er hælt á hvert reipi fyrir hvað þeir séu sniðugir, hvað þeir séu góðir í rekstrinum. Það er ekkert út á þessa menn að setja. Þeir eru að vinna í þessu kerfi og þeir hafa haft leyfi til að

vinna svona eins og gert er. En það er Alþingi Íslendinga sem ber ábyrgð á þessu og það er gjörsamlega óviðunandi að Alþingi Íslendinga víki sér undan þeirri ábyrgð. Ábyrgðin felst í því að í fyrsta lagi segi Alþingi Íslendinga: Þjóðin á þessa auðlind sameiginlega. Síðan ákveður Alþingi Íslendinga að leyfa þá framkvæmd að útgerðarmenn eigi eða hafi ígildi eignarréttar á auðlindinni og megi nota hana með þessum hætti, að mismuna mönnum sem eru í útgerð og fiskvinnslu í landinu eftir því hvers konar munstur er í útgerð og fiskvinnslu. Þeir stóru verða stærri og stærri og þróunin er mjög hröð. Það hefur verið sýnt fram á það að þessi þróun hefur aukið hraða sinn með hverju einasta ári og sérstaklega síðustu þrjú árin. En það er að byrja að síast inn í höfuðin á þeim sem ekki hafa tekið þátt í þessu kapphlaupi að nú verði þeir að vera með ef þessu verður haldið áfram og það er núna að myndast nýtt kapphlaup. Sveitarfélögin allt í kringum landið eru að leggja af stað og það verður dýr byggðakvóti sem þannig myndast, því miður. Það mun taka mörg ár fyrir sveitarfélögin allt í kringum landið að tryggja sér veiðiheimildir og til að hafa tangarhald á þeim þarf mikla peninga. En það er það sem verið er að etja mönnum út í með þeim stjórnunaraðferðum sem hér eru í gildi í landinu.
    Síðan er eitt sem ekki má gleyma og það er að allir aðrir aðilar heldur en þeir sem standa í útgerð og fiskvinnslu, eins og ég var að lýsa hérna áðan, þurfa auðvitað að fara að vinna með sams konar aðferðum. Við höfum séð hvernig fiskmarkaðirnir hafa reynt þetta, að kaupa veiðiheimildir og fara síðan að versla með þær tonn á móti tonni og annað því um líkt til þess að ná fiski inn á fiskmarkaðina. Halda menn virkilega að aðrir aðilar sem hafa keypt veiðiheimildir hér í landinu, hafa keypt fisk hér í landinu, þurfi ekki að taka þátt í þessu, þeir sem hafa verið að flytja fiskinn út t.d.? Þeir verða ekki heldur samkeppnisfærir á markaðnum nema þeir eigi veiðiheimildir og geti fengið fiskinn á lægra verði. Menn eru þegar farnir að færa sig í áttina. Þeir eru farnir að skaffa veiðiheimildir sumir hverjir, sem flytja beint út fisk. Og hvað þýðir það? Það þýðir að fiskurinn verður fluttur út á þessu lága verði. Á þessu lága hráefnisverði sem verður til í krafti veiðiheimildanna verði fiskurinn fluttur út. Og það verður meira og meira sem þannig tapast úr landinu því að auðvitað munu allir berjast með sömu ráðum og það veit hv. þm. Vilhjálmur Egilsson vel að er nú bara eðli markaðarins að ef menn finna nýja leið, þá verða hinir að beita henni líka sem eru að vinna á þessum markaði. Það eru útflytjendur að gera líka og það virðist hafa gleymst þegar menn voru að skapa þetta kerfi.
    Þá verður mönnum líka hugsað til þess að Íslendingar eru að opna sitt land fyrir erlendu fé og þeir ætluðu að reyna að hafa sinn sjávarútveg lausan við þá möguleika sem útlendingum er gefinn til þess að starfa í atvinnulífinu á Íslandi. En þetta kerfi, þetta galopna kerfi sem við búum við núna, gefur útlendingum auðvitað færi á því að komast yfir þessar veiðiheimildir. Og skyldu þar ekki geta verið æðimiklir hagsmunir á ferðinni fyrir stór útgerðarfyrirtæki, stór fisksölufyrirtæki sem starfa á erlendum mörkuðum að tryggja sér hráefni frá Íslandi þegar lykillinn að því væri sá að ná tangarhaldi á veiðiheimildum?
    Eitt af því sem hefur verið mest um rætt í sambandi við breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða er hlutur smábátaútgerðarinnar í veiðinni undanfarin ár og hvað þessir litlu bátar eigi að fá að veiða í framtíðinni. Og þar hefur sérstaklega verið umræða um bátana undir 6 tonnum, svokallaða krókaleyfisbáta, og reyndar aflamarksbáta sem eru undir 6 tonnum líka.
    Eins og ég minnti á áðan lagði tvíhöfða nefndin til að þessir bátar færu allir á aflamark. Sú tillaga varð ekki ofan á heldur var búin til samsuða úr ýmsum hugmyndum, reynt að þrengja möguleika þessara báta með einhverjum hætti til þess að veiða. Ég verð að segja það alveg eins og er að sú tillaga sem hér liggur fyrir fyrir litlu bátana er vond. Ég tel að þessar sóknartakmarkanir sem á þá eru settar séu orðnar það miklar að raunverulega sé engin skynsemi í öðru heldur en að ganga þá alla leið, þ.e. að láta þessa aðila hafa möguleika til þess að velja sjálfir hvenær þeir fara á sjó, úthluta þeim þá færri dögum heldur en þarna er gert og láta þá sjálfa velja dagana. Það er auðvelt að gera þetta. Við erum ekki með tillögu um það nú að gera þetta með þessum hætti sem ég ég er hér að lýsa vegna þess að við töldum það ekki þjóna tilgangi að flytja þá tillögu núna, en ég tel að það þurfi að taka til sérstakrar athugunar í því skyni að skapa öryggi í þessari útgerð bæði hvað varðar líf og heilsu manna sem þessa útgerð stunda og líka til að skapa öryggi hjá þeim í sínum atvinnuvegi þegar búið er að ákveða að banna mönnum að fara á sjó í nærri fimm mánuði á hverju ári og síðan koma auðvitað náttúrulegir banndagar þar ofan á sem enginn veit hvað verða margir, því að guð almáttugur hefur ekki gefið út neinar tilkynningar um hvað það verði hvasst, þá geta þessar sóknartakmarkanir komið mjög illa út fyrir þessa báta. Ég tel að það hefði verið auðvelt að leysa þetta mál með því að gefa þessum aðilum tækifæri til að velja sína daga sjálfir, hvenær þeir færu á sjó. Þeir fengju bara að fara ákveðið marga daga á sjó. Möguleikinn til að fylgjast með þessu er fyrir hendi og ég held að það einfaldasta væri hreinlega að skrá þá daga sem bátarnir eru í landi. Það væri einfaldasta aðferðin. Það væri auðveldast að fylgjast með því. Hver útgerðarmaður yrði að framvísa uppáskrifuðu korti frá hafnarverði í hverri höfn um það að hann hefði verið í landi þennan dag og það fylgi þá hans aflaskýrslu á þriggja mánaða fresti hve margir landlegudagar væru þar inn kvittaðir.
    En það hefur ekki verið auðvelt að fá menn til að hlusta á hugmyndir í þessu efni og niðurstaðan er eins og hún liggur þarna fyrir. Það er þó eitt sem ég get ekki annað en gagnrýnt að skuli ekki vera gert og það er að ekki skuli með neinu móti komið til móts við þá sem verst hafa farið út úr kvótakerfinu af þessum smábátaútgerðarmönnum, þ.e. þá sem eru með sína báta að aflamarki undir 6 tonnunum. Reyndar hafa margir aðrir á aflamarki farið á sama hátt illa út úr hlutunum vegna þorskskerðingarinnar og

vegna þess að það hefur ekki verið vilji til þess að jafna þessari skerðingu út eins og hægt hefði verið að gera. En þarna var möguleiki. Vegna tillögu smábátaútgerðarmanna sjálfra, þá opnaðist möguleiki á að koma til móts við þennan hóp manna sem eru á aflamarksbátum undir 6 tonnum. Því tillaga smábátaútgerðarmanna var sú að þessir aðilar fengju möguleika til að koma inn í krókakerfið ef þeir vildu og það án þess að neitt breyttist í heildarafla þessara báta samanlagt.
    Af hverju hefur ekki verið hægt að fá menn til að hlusta á þetta? Hverju hafa menn að tapa? Hvers vegna má ekki, þó þessi hópur manna sé ekki mjög stór, veita þeim örlítinn réttlætisvott? Ég átta mig ekki á því vegna þess að það er ekki verið að fara fram á það að hópurinn í heild fái að veiða meira. Ég bið hv. þm. stjórnarflokkanna sem styðja þetta mál að útskýra það fyrir hv. þm. hvers vegna í ósköpunum ekki er hægt að fá þessa tillögu inn. Við í Alþb. höfum flutt þá tillögu að þessum aðilum verði hleypt inn í krókakerfið. Það verður býsna gaman að heyra rökstuðning stjórnarþingmanna ef þeir ætla að greiða atkvæði gegn þeirri tillögu. Það tel ég mjög óskynsamlegt og ekki bara það, mér finnst það mjög ósanngjarnt. Mér finnst líka að það hefði hreinlega átt að vera þannig að þegar forráðamenn smábátaútgerðarinnar í landinu buðu upp á þennan möguleika tækju menn því fagnandi einfaldlega vegna þess að ekki var verið að biðja um einn einasta fisk í viðbót.
    Það hefur margt verið sagt um þróun smábátaútgerðarinnar í kringum þá umræðu sem hefur farið fram um veiðiheimildirnar og núna rétt áðan var enn verið að minna á það að hæstv. fyrrv. ríkisstjórn hefði ekki staðið sig í því að stoppa af fjölgun smábáta. Ég held að það sé rétt að hv. alþm. átti sig á því að það var fleira sem olli fjölgun smábátanna heldur en það að kvótakerfið var sett á. Það má segja að sú þróun hafi byrjað einhvern tímann í kringum 1976--1977 að litlu bátunum fór að fjölga. Og það var æðimargt sem stuðlaði að því. Í fyrsta lagi var komin til landsins ný tækni í framleiðslu báta. Það var farið að framleiða þessa litlu báta úr plasti og þeir voru miklu ódýrari. Í öðru lagi varð alger bylting í veiðarfærum þessara báta. Það komu t.d. þorskanet sem voru bæði með blýteini og flotteini sem breytti þeim möguleika að gera út á þorskanet þannig að það var jafnvel hugsanlegt að einn maður gæti gert út á þorskanet. ( Gripið fram í: Hvaða vitleysa.) Ég hef mörg dæmi um að það sé gert. En oftast nær eru menn tveir við þessa iðju. Fiskleitartækin um borð í þessum bátum núna eru eins og var í stærstu hafrannsóknarskipum fyrir fáum árum síðan. Það var því um algera byltingu að ræða í útgerð smærri báta og hún byrjaði á árunum 1976--1977.
    Auðvitað kom síðan skriða á árinu 1987 sem má rekja til setningar laganna um stjórn fiskveiða af því að það voru ekki settar hömlur á fjölgun smábáta. En þetta verða menn að skoða í því ljósi að þarna var skriða komin af stað. Það bættist eitthvað við, ég veit ekki hvað mikið, en alla vega var þessi skriða komin af stað. Var þetta eitthvert óskaplegt slys? Hafa það ævinlega verið slys þegar orðið hefur breyting á útgerð í landinu? Hvernig hefði farið fyrir togarabyltingunni okkar ef við hefðum verið búnir að koma kvótakerfinu á áður en togaraöldin hófst? Hefði verið mögulegt að flytja til landsins þessi nýju skip? Hefði verið hægt að kaupa þau og setja á þau allar þessar veiðiheimildir ef það hefði verið búið að setja kvótann á? Hvað þýðir það sem er verið að gera? Er þetta ekki ávísun á það að þróunin stoppar? Ég held það og mér finnst ég sjá ýmsar vísbendingar í þá átt að aflamarkskerfið eins og það hefur þróast veldur stöðnun í útgerðinni. Sú umræða sem hefur farið fram um að það sé eitthvað ægilegt ef hlutdeild einstakra útgerðarhópa breytist innan þessa kerfis er býsna skrýtin.
    Við segjum í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða að við eigum þetta sameiginlega. Er það þá ekki bara rétt að við reynum að nota þessa auðlind eins og okkur hentar? Á það ekki að vera þannig? Ef það veitir þjóðinni meiri atvinnu að gerðir séu út svolítið fleiri smábátar, hvað með það? Er það ekki bara gott mál?
    Við erum að missa hin raunverulegu yfirráð yfir auðlindinni með aflamarkskerfinu og þessu ígildi eignarréttar sem er á kvótanum. Ég hef áður bent á það en ég sé ástæðu til að rifja það upp. Það eru glögg dæmi um þessi áhrif. Ég vil sérstaklega minna á það dæmi þegar ákveðið var að skera verulega niður aflaheimildir í þorski. Þá hefði verið hægt að jafna þeirri skerðingu út þannig að engir hefðu þurft að tapa meira en sem svaraði 3% eða svo í þorskígildum, ef það hefði mátt jafna þessari skerðingu út. En það var ekki hlustað á þær hugmyndir vegna þess að þær röskuðu hugmyndum manna um þetta kerfi. Hefur ekki umræðan um smábátana sýnt að það er fyrst og fremst rökstuðningur að aðrir eigi rétt á því að fá að veiða þetta sem verið er að setja fram? Hverjir eiga þennan rétt? Er það ekki þjóðin sjálf? Á hún ekki bara að velja hvað henni hentar?
    Ég tel að við séum komnir þarna í ógöngur sem muni leiða okkur smám saman til þeirrar niðurstöðu sem ég lýsti fyrr að þjóðin krefjist þess að þetta verði allt saman selt. Það kerfi óttast ég því miður. Ég er mjög hræddur við þá framtíð vegna þess að ég hef ekki séð neinar hugmyndir settar fram sem ég get séð að geti gengið í því efni, þ.e. að selja veiðiheimildirnar þannig að veiðar og vinnsla í landinu verði ekki meira og minna stjórnlausar. Því ef menn fara að selja veiðiheimildir þá er væntanlega hvergi hægt að stoppa öðruvísi en að það sé þá bara frjáls sala á þeim og þeir fái að kaupa sem vilja borga mest fyrir þær og þar af leiðandi er vonlaust að skipuleggja framtíðina hjá fyrirtækjunum ef þau hafa ekki nein verkefni fyrir höndum. Ef þau þurfa að treysta á að fara á uppboðið til að kaupa aflaheimildir. ( VE: Þú mundir setja allan fisk á markað? Er það ekki?) Ég tel að þetta frammíkall sé mjög merkilegt. Það kom frá hv. 5. þm. Norðurl. v., framkvæmdastjóra Verslunarráðsins. Hann er á móti því að setja fisk á markað. Það er mjög skrýtið fyrirbrigði. ( VE: Enda er það álíka gáfulegt og að banna bændum að heyja.) Hæstv. forseti, hann telur það álíka gáfulegt að setja fiskinn á markað og að banna bændum að heyja. ( Gripið fram í: Nú ertu mát.) Nú er ég mát. Ég bið hv. þm. að útskýra það alveg endilega fyrir hv. þm. og hæstv. forseta hvernig það má vera að það sé svo vitlaust að selja fisk á markaði að því sé hægt að líkja við að banna bændum að heyja.
    Hæstv. forseti. Eitt af því sem hefur verið mest rætt í tengslum við kvótakerfið eru þau vandamál sem hafa skapast í samskiptum sjómanna og útgerðarmanna. Vegna þess að veiðiheimildirnar hafa tekið þetta háa verð á sig hafa menn freistast til að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum. Það hefur tekið á sig ýmsar myndir hvernig að því hefur verið farið. En það eru mörg dæmi um það að sjómenn hafa orðið að borga í kvótakaupum stórkostlegar fjárhæðir. Ég held að ég þurfi ekki að lýsa því neitt sérstaklega fyrir hv. þm. Ég býst við að þeir viti það flestir. En ég minni á það sem ég sagði fyrr að kannski er réttast að taka bara mark á atvinnumönnunum í fiskvinnslu sem sendu okkur bréfið þar sem þeir segja að ef það verði bannað að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupunum, í tonn á móti tonni viðskiptunum, bara þeim viðskiptum, þá muni það þýða 25%. ( Gripið fram í: Hvar segja þeir þetta?) Þetta stendur í 1. tölul. þess plaggs sem þeir sendu hv. þm. undir aðalfyrirsögninni: Hefting á viðskiptum og undirfyrirsögninni: Samráðsnefnd. Það væri rétt að hv. 4. þm. Norðurl. v. kynnti sér vel þessar fullyrðingar og spyrði kannski atvinnumennina sem sendu okkur þetta plagg svolítið út úr um það á hvaða útreikningum þeir byggja þá niðurstöðu sína að þetta muni þýða 25% hækkun á skiptaverði.
    Við í Alþb. höfum flutt nokkrar breytingartillögur sem ég hef nefnt sumar hverjar í þessari umræðu en mig langar til að fara aðeins betur yfir þær. Fyrsta tillagan er um að styrkja 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða með því að bæta orðinu ,,ígildi eignarréttar`` í greinina. Þá myndi hún hljóða þannig, virðulegur forseti:
    ,,Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt, ígildi eignarréttar eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``
    Það er full ástæða til þess að Alþingi Íslendinga reyni að halda utan um þetta fyrsta boðorð sem sett var í lögin um stjórn fiskveiða. Þróunin í þessu efni hefur sýnt að það er nauðsynlegt. Dómur Hæstaréttar í málinu frá því í haust þar sem niðurstaðan varð sú að það ætti að fara með þessar veiðiheimildir eins og eignir og afskrifa þær um 20% á ári mun verða til þess að útgerðarmenn í þessari grein munu líta á veiðiheimildirnar enn frekar sem sína eign því þeir hafi borgað fyrir þær fullt verð og megi afskrifa þær sem sína eign og eigi að bókfærast sem eign. Þess vegna tel ég mjög nauðsynlegt að Alþingi styrki 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða með þessum hætti.
    Það er líka vegna þeirrar skilgreiningar sem ég hef oft heyrt þá sem styðja þetta aflamarkskerfi tala um það að þeir geti stutt aflamarkskerfið því þó að menn séu að kaupa og selja veiðiheimildirnar þá geti þetta verið eign þjóðarinnar þrátt fyrir allt. Ég hef aldrei skilið þennan rökstuðning. En til viðbótar hafa margir af þessum aðilum sagt: Það er ekki verið að kaupa og selja auðlindina, það er verið að kaupa og selja atvinnuréttindi. Ég vísa þessari skilgreiningu út í hafsauga. Einfaldlega vegna þess að ef menn ætla að halda því fram að þetta séu atvinnuréttindi þá er Alþingi Íslendinga með setningu laganna um stjórn fiskveiða að brjóta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Því ef það eru atvinnuréttindi að veiða fisk þá eru það líka atvinnuréttindi að vinna fisk í landi og sá hópur hefur svo sannarlega verið settur hjá við setningu fiskveiðistjórnunarlaganna.
    Við flytjum tillögu um breytingu á 2. gr. sem gengur út á það að þegar ekki næst að veiða upp í þær veiðiheimildir sem ákveðið hefur verið að gefa út þá verði við því brugðist. Vegna þess að auðvitað er það markmið hjá þjóðinni að nýta fiskstofnana eins og Hafrannsóknastofnun leggur til og samkvæmt þeim niðurstöðum sem síðan verða hjá viðkomandi ráðuneyti á hverjum tíma. Það er ekkert keppikefli að geyma þann fisk í sjónum sem talið er að heppilegt sé að veiða. Þó að í ýmsum tilfellum geti verið allt í lagi þótt ekki veiðist allt sem menn stefna að að veiða þá er í öðrum tilfellum mjög óheppilegt að ekki sé veitt. Þar má t.d. nefna loðnuna. Það er mjög óheppilegt og verður af því mikið tap á hverri einustu loðnuvertíð þegar menn ekki ná að veiða allan skammtinn sem ákveðið hefur verið að taka úr sjónum. Þannig hefur þetta líka verið á undanförnum árum í rækju og fleiri tegundum. Og við teljum að kvótakerfið, aflamarkskerfið, þvælist fyrir þeim útgerðarmönnum sem ekki eiga kvóta og valdi því að þessar tegundir hafi ekki náðst. Á undanförnum árum hafa verið töluverð brögð að því að ekki hafi náðst að veiða allan afla.
    Ég ætla að nefna hér dæmi um stöðuna eins og hún var í fyrrasumar, þ.e. þann 12. ágúst, þegar fiskveiðiárinu var að ljúka. Þá var útgefinn ýsukvóti 48 þús. tonn. Það hafði ekki tekist þá að veiða nema 23 þús. tonn. Í ufsanum voru gefin út 70 þús. tonn en þar voru eftir 21 þús. tonn. Af skarkola hafði verið gefinn út 11 þús. tonna kvóti en tæplega 3 þús. tonn voru eftir. Þarna var því á ferðinni verulegur munur á því sem menn ætluðu að veiða og því sem hafði veiðst.
    Ég er að rifja þetta upp og koma þessum upplýsingum á framfæri vegna þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram á frv. sextánmenninganna um það að gefa veiðar í þessar tegundir tímabundið frjálsar sem hafa valdið þeim sem verja þetta kvótakerfi miklu hugarangri því þeir urðu óskaplega hræddir um að Alþingi mundi bara samþykkja þessa tillögu. Hún er ekki komin til umræðu enn í þinginu en til þess að tryggja það nú að þeir aðilar sem hafa viljað koma því þannig fyrir að íslenskir útgerðarmenn fengju möguleika á að veiða þennan fisk þá höfum við alþýðubandalagsmenn flutt eina tillögu. Hún er ekki eins, hún er miklu varfærnari en tillagan sem var í frv. sextánmenninganna en hún gerir sama gagn að mínu viti ef hæstv. ráðherra og Hafrannsóknastofnun eru á þeirri skoðun að það hafi ekki verið vitlausar tillögur sem samþykktar voru í upphafi þess fiskveiðiárs sem um ræðir.
    Tillagan hljóðar svo:
    ,,Nú metur Fiskistofa það svo að áliðnu fiskveiðiári, veiðitímabili eða vertíð að ekki takist að veiða þann heildarafla tiltekinnar tegundar eða tegunda sem sjútvrh. hefur ákvarðað samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar þá skal ráðherrann afnema aflamark þeirrar tegundar eða tegunda og gefa veiðar frjálsar á þeim tiltekið tímabil innan fiskveiðiársins eða til loka þess. Um slíkar ákvarðanir skal sjútvrh. hafa samráð við Hafrannsóknastofnun og þess gætt að afkomu viðkomandi stofna sé ekki stefnt í hættu. Ráðherra skal heimilt að afturkalla ákvörðun sína ef að mati Hafrannsóknastofnunar er útlit fyrir að veiðar verði meiri en að var stefnt með úthlutun aflamarks.``
    Þarna eru öll öryggissjónarmið höfð í fyrirrúmi í þessari tillögu þannig að gagnrýnin sem höfð var á hina tillöguna er þá ekki til staðar, vænti ég, og þeir aðilar sem gátu stutt tillögu sextánmenninganna hljóta þá að geta fylkt sér um þessa tillögu. Ég hvet menn eindregið til þess að gera það því það nær náttúrlega engri átt að við séum að hafa í gangi fiskveiðistjórnunarkerfi sem hamlar því að hægt sé að nýta fisktegundir eins og það hefur í raun og veru gert í rækjunni á undanförnum árum.
    Um þróun þessa kerfis má tala langt mál. En það er eitt sem ég vil endilega koma að í þessari umræðu sem mér hefur fundist skorta á að menn skildu. Það hefur verið rekinn feykilega harður áróður vegna veiða smábáta og það hefur verið bent á að þeir væru að taka óskaplega mikið frá öðrum útgerðaraðilum í landinu. Það hefur verið reiknað út að þetta væri eftir því sem ég kemst næst 8% tap, ef ég man rétt, fyrir hina sem eiga hlut að máli. Mig langar til að benda mönnum á að í þessu kerfi eins og það hefur þróast frá því það var sett á hefur skerðing á aflaheimildum verið með alveg sérstökum hætti. Það eru ekki bara smábátar sem hafa haft aflaheimildir af hinum hluta flotans. Ég er með fyrir framan mig blað þar sem koma fram upplýsingar um kvóta skips sem búið er að gera út allan tímann frá því þetta kerfi var sett á. Þetta skip hefur aldrei tekið til sín neinar aflaheimildir, ekki keypt til viðbótar neinar aflaheimildir og aldrei selt frá sér neinar aflaheimildir. Það er þess vegna mjög fróðlegt að átta sig á því hvaða aflahlutdeild þetta skip hafði þegar kerfið var sett á og hvernig hún hefur breyst frá þeim tíma.
    Í upphafi, þ.e. 1983 hafði þessi bátur sem hér um ræðir 0,246% hlutdeild í þorskafla. Á árinu 1988, varla hafa smábátarnir verið farnir að taka mikið frá honum þá, var þessi bátur komin úr 0,246% niður í 0,144%. Hann hafði engar aflaheimildir selt og engar keypt. Á árinu 1992 er þessi bátur kominn niður í 0,136% og á árinu 1995 er hann kominn í 0,104%. Hann hefur lækkað úr 0,246% niður í 0,104% á því tímabili sem kvótakerfið hefur verið í gangi. Og langstærsti hlutinn af skerðingunni gerist fyrir 1990. Þetta er rétt að menn hafi í huga þegar þeir halda sig við þann einfalda málflutning að tala um skerðingar sem séu vegna smábátanna. Það er annað sem þarf að koma inn í þá umræðu líka. Það er að inni í henni hafa menn ekki tölurnar um tvöföldunina á línuaflanum. Þar eru 17 þús. tonn á ferðinni, eða hvað? Á ekki að taka það með? Þá eru ekki heldur talin með þau 3 þús. tonn sem útlendingarnir eiga að fá að veiða hér í karfanum. Þau er ekki talið með. ( VE: Enda er það karfi en ekki þorskur. Þú varst að tala um þorsk.) Ég er að tala um allar aflaheimildir. Það er ekki verið að tala um veiðiheimildir útlendinga í þessari umræðu.
    Ég held að menn þurfi að horfa á þetta í heildina og þegar verið er að tala um skerðingu á aflaheimildum togara vegna smábáta þá hljóti menn að þurfa að taka inn í þá mynd líka skerðingu á öðrum tegundum, eða hvað? Ég vil bara að menn hafi þetta allt saman með í umræðunni og ekkert undan dregið.
    Auðvitað er skerðing vegna þess að smábátar fá að veiða meira. Það er engin spurning um það. En það er líka rétt að menn muni eftir því, sem sumir virðast ekki hafa áttað sig á enn þann dag í dag, að það er í fyrsta skipti verið að draga aflaheimildir smábátanna frá heildaraflanum sem úthlutað er. Það hefur aldrei verið gert fyrr. Og að nota þetta í þessu áróðursstríði með þeim hætti sem gert hefur verið er auðvitað ekki eðlilegt. Ef menn ætla að ræða málið þá verða þeir að taka allar þessar tölur og skoða þær saman.
    Mig langar til að fara örfáum orðum um hagkvæmni kvótakerfisins til upprifjunar fyrir þá sem hafa sífellt við orð í ræðustólnum að í þessu kerfi sé fólgin slík hagræðing að ekkert annað kerfi sé til í heiminum sem geti verið betra og örugglega ekki hægt að finna einu sinni upp kerfi sem er betra. Það virðist vera svo mikil sannfæring á bak við það sem sagt er í þessu efni að það sé a.m.k. ekki líklegt að nýtt kerfi myndist sem geti verið betra. Ég hef samt kallað eftir því í hvert einasta skipti sem ég hef haft tækifæri til, að biðja menn að koma með rök, athuganir, skýrslur og útreikninga á hagkvæmni kvótakerfisins. Hvað hefur birst af því taginu? Nákæmlega ekki nokkur hlutur. Enda er það ekki til. Þessi fátæklegi rökstuðningur af þessu tagi um hagkvæmni kerfisins sjálfs sem er í tvíhöfða skýrslunni nær ekki máli. Það er ekki nokkur skapaður hlutur. Þær tölur sem maður hefur verið að reyna að fá sjálfur um þessa hluti gefa nákvæmlega engar vísbendingar nema í öfugar áttir.
    Það er t.d. þannig að flotinn er að bæta meira og meira við sig í vélarafli til að veiða fiskinn. Flotinn hefur bætt við sig 90 þús. hestöflum á sl. 7--8 árum til þess að veiða fiskinn. Það er ekki verið að

veiða meiri fisk í dag en það þarf meira vélarafl og auðvitað miklu meiri orku, meiri olíu, til að veiða þann fisk. Átti hagkvæmni kvótakerfisins ekki að leiða til hagkvæmni í útgerðinni? Ég hafði skilið það þannig.
    Það er mín niðurstaða eftir að hafa fylgst með þessari endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, sem er auðvitað ekki hægt að kalla því nafni nema hafa utan um það gæsalappir, að það sem er komið á borð hv. þm. er ekki endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða sem stendur undir nafni. Hér eru á ferðinni fátæklegar tillögur, flestar til þess að reyna að bjarga stjórnarflokkunum út úr þeim mikla vanda sem þeir voru búnir að stefna þessum málum í með því að taka ekki á þeim vandamálum sem upp komu í samskiptum sjómanna og útgerðarmanna og örfáar aðrar breytingar sem tekur varla að vera að tala meira um. Ég tel að aðalatriði þeirrar herferðar sem hæstv. sjútvrh. lagði í þegar hann lagði af stað með þessi frv. á sínum tíma, þ.e. að festa fiskveiðistjórnunarkerfið í sessi, hafi brugðist. Því umræðan, umfjöllunin um þetta kerfi í vetur, breytingarnar sem búið er að gera hér, hvernig menn hafa verið hraktir til baka úr einu víginu í annað og niðurstaðan sem liggur á borðum þingmanna er ekkert annað en yfirlýsing um að þetta markmið er gjörsamlega kolfallið. Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur orðið fyrir það mikilli gagnrýni og það eru næstu hópar við næsta horn. Sjómenn hafa gert kröfurnar og fengið framgengt ýmsum af sínum kröfum til breytinga á þessu kerfi og fiskvinnslufólk er byrjað að láta í sér heyra. Þannig mun þetta kerfi hrekjast undan en því miður eru menn ekki tilbúnir til að horfast í augu við það.
    Það er sífellt verið að reyna að verjast í þessu kerfi eins og það er og breyta sem minnst en þær breytingar sem stendur til að gera á kerfinu eru allar í öfuga átt við það sem hv. 5. þm. Norðurl. v. vildi t.d. fara. Hann vildi opna kerfið enn þá meira, gera verslunina með veiðiheimildirnar enn frjálsari þannig að útgerðarmennirnir, en hann ber hag þeirra fyrir brjósti, geti haldið áfram að notfæra sér kerfið með þeim hætti sem þeir gera. En honum tókust ekki þessar fyrirætlanir.
    Niðurstaðan er þessi: Þessi umfjöllun hefur sannfært þjóðina um að þetta kerfi er ónýtt. Það verður ekki langt þangað til Alþingi Íslendinga stendur frammi fyrir því að þurfa að breyta því meira en gert er núna.