Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 15:29:38 (7114)


[15:29]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta með þakið og að bátarnir muni sækja stífar er að vísu játning sem ég átti ekki von á að hv. þm. mundi gera hér. Að hann trúi því sjálfur að þær reglur sem verið er að setja muni valda aukinni sókn og þar með aukinni hættu. Ég held að það væri ástæða til að skoða það betur.
    Hann talaði síðan um að þetta væri söguleg sátt og að þetta styrkti kerfið. Það á eftir að sjást hvað það verður mikil sátt um þetta. Við vorum á fundi í sjútvn. í gær og þar kom skýrt fram að forráðamenn LÍÚ og forstöðumenn útgerðarinnar í landinu telja að það sé hægt að láta sjómenn halda áfram að taka þátt í kvótakaupum þó að þessi lög verði sett. Og halda menn að það hafi verið einhver sátt um það? Nei, það verður sko ekki sátt um það því það verður enn þá harðari slagur fram undan heldur en hefur verið ef slíkt á að gerast.
    Ég sagðist ekki mæla fyrir munn þjóðarinnar, ég vil leiðrétta það. Ég sagði að þjóðin hefði þessa skoðun. Það er mín skoðun að þetta kerfi hafi ekki fest sig í sessi við þá umræðu sem hefur farið fram í þjóðfélaginu um það. Og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson ætti að rifja upp þessar sáru endurminningar sem hann á frá fundum tvíhöfða nefndarinnar allt í kringum landið þar sem hann, í fullum húsum í sjávarþorpunum, var hrópaður niður með sínar hugmyndir um það með hvaða hætti ætti að stjórna fiskveiðum á Íslandi.