Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 15:31:42 (7115)


[15:31]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér fer fram mikil og gagnmerk umræða um stjórn fiskveiða sem er stærsta mál þjóðarinnar, held ég. Það sem veldur mér vonbrigðum þegar þessi frumvörp eru loksins komin fram, bæði það sem fyrst var lagt fram og brtt. sem síðar hafa komið, er að það virðist eiga að vera óbreytt kerfi að mestu. Það hófst með því að strax á þessu kjörtímabili var um það rætt að endurskoðun fiskveiðistefnunnar lægi fyrir og samkvæmt lögum átti það að gerast með því að hafa samráð við alla aðila og hagsmunasamtök og sjútvn. þingsins. Það þarf ekki að rekja neitt frekar hvernig að því var staðið, það hefur margoft verið gert hér á undanförnum árum og einnig úr þessum ræðustól. Það endaði með því að komið var á fót hinni svokölluðu tvíhöfða nefnd sem skilaði mikilli og gagnmerkri skýrslu, sem raunar er hægt að lesa margt fróðlegt í, en markmiðin sem skýrsluhöfundar settu sér hafa ekki náðst og það er ekki hægt að sjá þau í þessum frv. eða brtt.
    Ég vil þó lýsa því yfir að með þeim brtt. sem hér hafa komist fram sýnist mér að það sé rétt stefna að draga að einhverju leyti úr frjálsu framsali sem hér hefur fengið að þróast síðustu 3--4 árin og valdið miklum deilum, braski og alls konar óáran sem leiddi síðan til verkfalls sjómanna um sl. áramót. Ég tel að sú reynsla sem komin er á þetta frjálsa framsal, sem verið hefur í gildi sl. þrjú ár, hafi ekki leitt til góðs. Vera má að það hafi haft í för með sér einhverja hagræðingu milli útgerða, milli fyrirtækja, en ég tel þó að þeir gallar sem hafa komið fram á þessu frjálsa framsali séu miklum mun stærri og fleiri heldur en sú ,,hagræðing`` sem náðist fram með því.
    Það frv. sem hér er og brtt. um stjórn fiskveiða byggir sem sagt enn á því að það á að úthluta aflamarki á skip, það á að úthluta kvóta á skip. Það hefur raunar færst í vöxt að fleiri og fleiri taka sér í munn þau orð að það gangi ekki lengur að kvóta sé eingöngu úthlutað á skip. Það þurfi að taka meira tillit til

byggðanna heldur en gert hefur verið. Ég á von á því að sú umræða haldi áfram að þróast og menn fari að sjá það æ betur að byggðirnar sem slíkar verði að hafa kvóta. Þær tillögur sem komu fram frá tvíhöfða nefnd um að fiskvinnslan hefði leyfi til að hafa kvóta taldi ég vera spor í rétta átt. Með því var verið að tryggja að það væri verið að skoða hagsmuni bæði veiða og vinnslu og það var jú eitt af markmiðum með endurskoðun fiskveiðistjórnunarlaganna að taka tillit bæði til veiða og vinnslu.
    Það gerðist síðan í þeim samningum sem hér fóru fram í síðustu viku á milli stjórnarflokkanna að það ákvæði sem átti að koma inn sem breyting á lögunum var tekið út. Raunar hefur höfundur skýrslunnar, annar tvíhöfðinn, lýst því yfir að hann sé ósammála því og verð ég að taka undir það með honum að mér þykir mjög miður að það ákvæði skyldi vera tekið út. Það er ævinlega verið að ræða um að það þurfi að vera einhver festa í þjóðfélaginu, það þurfi að vera festa í fjármálaheiminum, festa í stjórnun, festa í skattamálum og fólk þurfi að vita eitthvað um það að hverju það gengur í framtíðinni. Menn hafa í misjöfnum mæli verið að aðlaga sig því kvótakerfi sem gilt hefur sl. 10 ár og frá því að skýrsla tvíhöfða kom út fyrir ári síðan hafa menn horft til þess að nú mundi verða tekinn upp fiskvinnslukvóti, eins konar byggðakvóti. Sum fyrirtæki sem hafa verið að reyna að halda sínum fyrirtækjum gangandi og leitað allra leiða til hagræðingar hafa treyst á að þetta ákvæði mundi koma inn í næstu breytingar á lögunum. Ég minntist lítillega á þegar verið var að ræða um samráðsnefnd sjómanna að þetta mundi koma illa við nokkur fyrirtæki sem hefðu á síðustu missirum unnið með það í huga að þessi breyting kæmi. Menn skulu athuga að það er búið að vera að ræða um þessa breytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu í tvö ár.
    Þegar ég ræddi þetta hér fyrir nokkrum dögum nefndi ég einmitt Tálknafjörð í því sambandi. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa bréf sem þingmenn Vestfjarða hafa fengið frá Tálknafirði:
    ,,Í frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem var lagt fram á Alþingi haustið 1993, var ákvæði um að fiskvinnslustöðvar mættu eiga fiskkvóta. Þegar frv. kom fram stóð svo á í Tálknafirði að kvóti togararans, bv. Tálknfirðings BA-325, sem var í eigu Hraðfrystihúss Tálknafjarðar, var orðinn allt of lítill til að tekjur stæðu undir gjöldum. Á sama tíma átti fyrirtækið Háanes hf. á Patreksfirði tvo báta, mb. Guðrúnu Hlín BA og mb. Andey BA. Sama var þarna upp á teningnum, kvótinn of lítill til að fyrirtækið gæti skilað arði. Þá ráku eigendur Háaness hf. fiskvinnsluna Straumnes á Patreksfirði. Stjórnendur þessara tveggja fyrirtækja komust að þeirri niðurstöðu eftir ítarlegar viðræður að hagkvæmast væri að ganga til samvinnu. Svo var gert með undirskrift viljayfirlýsingar þann 30. nóv. 1993.
    Togarinn Tálknfirðingur var seldur en haldið var uppi 720 tonnum í þorskígildum talið sem Hraðfrystihús Tálknafjarðar hf. færði á 10 tonna bát í eigu fyrirtækisins. Þann kvóta átti síðan að færa yfir á frystihúsið í samræmi við frv. til laga um stjórn fiskveiða eins og það lá fyrir þá. Munu bátar Háaness hf. einnig veiða þann kvóta. Fiskvinnslunni var hætt í Straumnesi hf. en allur afli unninn í Hraðfrystihúsi Tálknafjarðar hf.`` --- Er þetta ekki hagræðingin í hnotskurn? Ég sé að nokkrir þingmenn kinka hér kolli.
    ,,Kvóti tveggja skipa Háaness hf. á Patreksfirði er rúmlega 500 þorskígildi og með línutvöföldun getur hann orðið 800 tonn, jafnvel 900 á ári, auk ca. 300--400 tonna steinbítsafla ef hann veiðist. Þar við bætast síðan þessar eftirstöðvar af kvóta Tálknfirðings, sem sagt rúm 700 tonn.`` Síðan segir í bréfinu:
    ,,Nú hefur verið lagt fram á Alþingi frv. um stjórn fiskveiða og í þessu nýjasta frv. er lagt til að fella niður ákvæði þess efnis að fiskvinnslustöðvar megi eignast kvóta og þessi breyting er rothögg á samvinnufyrirtæki okkar. Hraðfrystihúsið á Tálknafirði þarf þá, ef haldið verður áfram rekstrinum, að fjárfesta í bát til að veiða 720 þorskígildi sem er of lítið til að reksturinn geti borgað sig. Háanes stæði auðvitað líka eftir með órekstrarhæfa báta vegna of lítils kvóta.
    Niðurstaðan er þá þessi ef frv., eins og það hér liggur fyrir, verður samþykkt óbreytt. Háanes missir báða bátana og þar með fara frá Patreksfirði um það bil 50% af öllum kvóta Patreksfirðinga. Tálknafjarðarhraðfrystihúsið verður að selja kvóta sinn og hætta rekstri og þar með færi um það bil 50% af kvóta Tálknfirðinga.
    Auðvitað er sjálfsagt að fiskvinnslustöðvar eigi kvóta. Í raun ættu allir að fá að eiga kvóta. Alltaf þarf sjómenn til að fiska kvótann hver sem á hann þannig að slíkt fyrirkomulag kæmi sér ekki illa fyrir sjómannastéttina.``
    Síðan segir í þessu bréfi að til vara leggi þeir til, sem senda þetta bréf frá Hraðfrystihúsi Tálknafjarðar og Háanesi á Patreksfirði, að það verði sett í nýju lögin að heimilt verði að annar aðili en eigandi geti fært kvóta á skip og geti þá skipið fiskað báða kvótana. ,,En þá þarf að lögverja þann kvóta sem skipseigandi ekki á þannig að veðkröfur bátsins eða aðrar kröfur á bátinn nái ekki til aðkomukvótans.`` --- Nú vitum við að bankarnir eru farnir að taka veð í kvótanum og telja hann miklu veðmeiri heldur en skipsskrokkinn. ,,Hér er sem sagt í uppsiglingu mikið vandamál á suðurfjörðum Vestfjarða sem hægt er að koma í veg fyrir ef vel er að málum staðið, en það verður erfitt fyrir alla að ráða fram úr því ef frv. verður samþykkt óbreytt.``
    Þetta er útdráttur úr bréfinu frá þessum tveimur aðilum frá Tálknafirði og Patreksfirði og þetta sýnir í hnotskurn aðstæður fleiri aðila hér á landi.
    Borgey á Hornafirði hefur verið nefnd nokkuð þar sem mér skilst, þó ég þekki ekki dæmið nákvæmlega, að sé eitthvað svipað að gerast og hugsanlega geti það verið á fleiri stöðum. Á þessu vandamáli er ekki tekið í breytingum til laga um stjórn fiskveiða.
    Það hefur þó komið hér fram að þær breytingar sem eru fyrirhugaðar, þ.e. skerðing á framsali,

muni hafa þau áhrif að fiskvinnslan fari þar halloka. Ég hef í raun og veru ekki trú á því. Ég verð að segja að ég er sammála hæstv. sjútvrh. um það að ég tel að það sé nægilegur sveigjanleiki inni þrátt fyrir að það sé dregið úr þessum framsalsheimildum og ég tel, þó auðvitað geti enginn sagt fyrir um það nákvæmlega hvernig það muni koma til með að virka, að ýmislegt bendi til þess að það muni ekki hafa þau áhrif sem atvinnumálahópurinn telur.
    Það hefur mikið verið rætt um smábátana í þessum umræðum og menn ýmist verið þar með eða á móti. Sumir telja að smábátarnir fái allt of stóran hluta úr takmörkuðum afla, en þeir sem tefla fram hagsmunum smábátaeigenda telja að þeir hafi ekki síður en aðrir orðið að taka á sig skertar veiðiheimildir. Það er ekkert undarlegt við það þó að aflaheimildir smábáta hafi aukist þrátt fyrir stjórnunarkerfi fiskveiðanna. Það er í raun og veru alls ekki undarlegt vegna þess að kerfið var opið á ákveðnum tíma og þá fjölgaði smábátunum mjög. Þetta var eina smugan sem menn sáu til þess að einhver endurnýjun yrði í greininni og það var ekki við öðru að búast en að menn nýttu sér það. Það hafa síðan margir farið mjög illa út úr þessu og sérstaklega þeir sem voru á smábátum yfir 6 tonn eða milli 6 og 10 tonn og tóku á sig aflamark fyrir þremur árum síðan. Völdu að taka aflamark í stað þess að vera á krókaleyfinu og vita ekkert hvort þeir mundu fá einhvern afla eða ekki. Þeir töldu réttara að taka aflamarkið.
    Sú skerðing sem orðið hefur á síðustu þremur árum hefur farið mjög illa með þennan flokk báta og er nú svo komið að þeir lepja dauðann úr skel, eins og sagt hefur verið um suma bændur sem fá á sig miklar skerðingar, þannig að nauðsynlegt er að gera eitthvað til þess að bæta þeirra hag. Á því er hins vegar ekki tekið í breytingum á þessu frv. ( Gripið fram í: Það er fjör í salnum.) Voða fjör.
    Mér þætti vænt um, virðulegi forseti, að formaður nefndarinnar eða frsm. nefndarinnar öllu heldur og hæstv. ráðherra væru viðstaddir þessa umræðu og tel ég að þeir sýni þeim sem hér standa og ræða þessi mál litla virðingu með því að sitja ekki og hlusta á þeirra athugasemdir. Ég vona að hæstv. forseti geri ráðstafanir til þess að kalla þá hingað í salinn.
    ( Forseti (KE): Það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess að láta þá vita að þeirra sé óskað í salinn.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir það. Ég var að nefna hér að það hefði ekki verið gert neitt í því að koma til móts við skerðingar smábáta milli 6 og 10 tonn sem hafa tekið á sig aflamark, en þeir hafa á undanförnum árum misst um 70% af aflaheimildum sínum með þeim skerðingum sem orðið hafa. Það liggur því í augum uppi að þeir þurfa að fá einhverja úrlausn sinna mála og það er kannski ekki nema von að forsvarsmaður þeirra hafi láti þau orð falla á fundi sjútvn. að úr því að hægt væri að finna 7 þús. tonn af rækju og úthluta þeim til þess að semja um kaupin á eyrinni, þá hljóti að vera hægt að finna 3--4 þús. tonn af þorski til þess að jafna stöðu þessara báta og eigenda þeirra. ( Gripið fram í: Hætta að henda í sjóinn.) Ég held nú að einmitt þessir bátar hendi ekki miklu ef það er það sem þingmaðurinn á við. Ég held að þeir þvert á móti hirði allan þann afla sem kemur á krókana.
    Til þess að skýra nánar hvernig staða þessara báta er þá hefur borist umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda þar sem m.a. er bent á, fyrir utan það sem ég hef verið að nefna, að leiðréttingar eiga sér mörg fordæmi. Það er nefnt hér í þremur liðum, sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:
    ,,Á árunum 1988, 1989 og 1990 fékk loðnuflotinn úthlutað þorskveiðiheimildum vegna samdráttar í loðnuveiðum. Þessar úthlutanir urðu síðan að þorskaflahlutdeild 1991, sem miðað við úthlutun þessa fiskveiðiárs þýða 2.200 tonn af þorski upp úr sjó. Á árinu 1984 var einstaka skipum og útgerðaraðilum úthlutað aflaheimildum sem voru ekki í neinu samræmi við þá veiðireynslu er viðkomandi aðilar höfðu á viðmiðunartímanum 1. nóv. 1980 til 31. okt. 1983.``
    Í þriðja lagi: ,,Úthlutun stjórnvalda úr Hagræðingarsjóði er bein viðurkenning þess að þorskígildi séu í raun stuðull fyrir atvinnuréttindi. Þar hefur verið úthlutað eftir skerðingu í þorskígildum án tillits til aflasamsetningar viðkomandi útgerðaraðila.``
    Þannig að leiðrétting, hugsanlega í þá veru sem hér var nefnt áðan, að úthluta aukaúthlutun 3--4 þús. tonnum til þessara aðila sem hafa farið verst út úr þessu kerfi, mundi eiga sér þarna fordæmi og mundi í sjálfu sér ekki breyta miklu um stofnstærð þorsksins og langt innan venjulegra skekkjumarka fiskifræðinnar.
    Það er auðvitað hægt að halda áfram að ræða hvort það eigi að vera aflamark, sóknarmark eða eitthvert millistig þar á milli, eða hvernig yfirleitt á að stjórna
þessum fiskveiðum. Ég held þó að þó við höldum áfram að ræða það hér í allan dag og næstu daga þá komi það nú fyrir ekki ef enginn fiskur veiðist og ef ekki verður aukning í þorskinum, sem er okkur svo mikilvægur í okkar atvinnugrein, í okkar útflutningsatvinnuvegum.
    Það hefur oft verið skoðað, spekúlerað og mikið um það rætt hver skýringin er á því og hvað það er sem veldur því að þorskstofninn hefur farið svo minnkandi á síðustu árum. Léleg nýliðun hefur verið í 7--8 ár. Er það bara ofveiði? Er það bara of stór floti? Er það vegna fjölgunar frystitogara? Hvað er það sem veldur? Vissulega er léleg nýliðun og það er lítill hrygningarstofn samkvæmt mælingum. En er það leiðin til að stækka hann að takmarka aflann sem á að veiða upp úr sjó? Er það eina leiðin og besta leiðin?
    Það er vissulega hægt fyrir leikmenn að velta ýmsu fyrir sér en kannski er ekki tekið mikið mark á því vegna þess að þar er ekki um fiskifræði, vísindalega grein, að ræða. En leikmenn hafa leyfi til að

velta ýmsu fyrir sér út frá venjulegum skynsemis- og hagnýtum sjónarmiðum. Ég tel að það skipti mestu að þorskurinn fái frið til að hrygna. Ég held að of mikið hafi verið gert af því undanfarin ár og áratugi að veiða þorskinn um leið og hann kemur inn til hrygningar. Og ég held að í raun og veru séu bæði hagsmunaaðilar og fiskifræðingar farnir að viðurkenna það. Raunar hafa kannski fiskifræðingar alltaf viðurkennt það en það hefur skort á að sjómennirnir hafi viðurkennt það, nema þá e.t.v. í tveggja manna tali.
    Það hefur raunar verið tekin sú stefna ýmist að loka hólfum með skyndilokunum eða að loka um lengri tíma. Það er nokkuð athyglisvert að vorið 1991 var gert hlé á þorskveiðum og það gerðist einnig 1992, þ.e. í tvö ár er búið að gera hlé á þorskveiðum á hrygningarsvæðinu, þ.e. aðallega suðvestanlands. Mér fannst líka athyglisvert að þegar athugun var gerð á nýliðun þorskstofnsins sl. vor, í togararallinu, þá kom í ljós að mikið var af eins og tveggja ára fiski. Nú veit ég ekki hvort það er rétt ágiskun en mér sýnist vera hægt að tengja það nokkuð því að þessum hrygningarsvæðum var lokað á meðan hrygningin stóð yfir og það var byrjað á því fyrir tveimur árum síðan. Það kemur raunar ekkert fram hér sem segir að það sé rannsakað enda of stuttur tími liðinn frá því. Það er auðvitað erfitt að meta árangurinn af þessu en mér finnst þarna vera ákveðið samspil á milli. Það hefur einnig verið rætt hvort togveiðarnar inni á landgrunni hafi þau áhrif. Það er auðvitað hugsanlegt og eru dæmi um það frá öðrum löndum að fiskifræðingar álíta að það geti haft mikil áhrif á nýliðun nytjafiska, botnfiska, en þó eru í raun og veru enn minni rannsóknir á bak við það en það hefur auðvitað áhrif að verið sé að skrapa botninn og breyta þar eitthvað aðstæðum. En ég hygg að hér í kringum landið sé það brimasamt og hér komi það mikið af ís og alls konar hreyfing á hafsbotninn, það kemur grjót með ísnum frá Grænlandi og það breytir alltaf aðstæðum í kringum landið jafnt og þétt. Þannig að ég er nú ekki svo viss um að togveiðin í sjálfu sér hafi mjög óæskileg áhrif á sjávarbotninn. Hins vegar það að vera með togveiðar alveg upp í landi og á botni þar sem er á minna en 20 metra dýpi nær náttúrlega ekki nokkurri átt og hlýtur að hafa áhrif til hins verra.
    Ég held að á undanförnum árum hafi umhverfisskilyrðin ekki verið tekin nógu mikið inn í dæmið þegar verið er að skoða uppbyggingu fiskstofna. Það er nærtækt að vitna til nýjustu rannsókna fiskifræðinga á Veiðimálastofnun sem koma þvert á sjónarmið ýmissa fiskifræðinga hjá Hafrannsóknastofnun. Ég ætla ekki að fullyrða að þeir hafi í einu og öllu rétt fyrir sér á annarri hvorri þessari stofnun, en það hlýtur að vera krafa að þeir sem vilja láta taka mark á sér, hvort sem þeir eru vísindamenn hjá Veiðimálastofnun eða Hafrannsóknastofnun, séu þeir menn að þeir geti rætt um þær athuganir og athugasemdir sem koma fram og geti tekið það á vitrænum grunni og tekið tillit til þess sem aðrir segja en líti ekki á sjálfa sig sem yfir það hafna að hlusta á aðra vísindamenn.
    Það hlýtur að skipta miklu máli hvernig umhverfisskilyrðin eru í sjónum. Það hlýtur að skipta máli hvort ætið er nóg fyrir fiskinn sem er að vaxa upp, hvernig sjávarhitinn er, hvernig vindáttir hafa verið, hvert seltumagnið er. Það er að vísu farið að viðurkenna það nú. Kannski síðustu tvö ár segja fiskifræðingar að það sé orðið marktækt að skoða athuganir úr fjölstofna rannsóknum sem hafnar voru fyrir tveimur árum síðan og er fimm ára verkefni. Þeir telja að þær fjölstofna rannsóknir muni skila sér mjög inn í þá umræðu hvernig hægt sé að byggja upp fiskstofnana og hvaða áhrif umhverfið og allir aðrir stofnar hafi þar á. Það er allt of margt enn þá í umhverfi sjávar sem við vitum ekkert um, sem við þekkjum ekki, og rannsóknir hafa ekki verið með þeim hætti að það sé hægt að byggja nægilega mikið á þeim. Fiskifræðin er ung atvinnugrein og ung vísindagrein. Og þó ég efist ekki um þeir sem þar vinna leggi sig alla fram og vilji vel og vilji leita réttra upplýsinga þá tel ég að þau ár sem það hefur staðið sé allt of skammur tími til þess að við getum tekið það sem heilagan sannleika sem ekki eigi eftir að breytast.
    Þegar rætt er um stofnstærð fiska og fiskigengd þá hefur stundum verið minnst á Barentshafið. Árið 1989, fyrir tæpum fimm árum síðan, var það fullyrt af fiskifræðingum að það kæmi ekki fiskur í Barentshafið næstu tíu ár. Þegar fiskifræðingar voru síðan spurðir að því á þessu ári hvernig á því stæði að allt í einu væri orðið fullt af fiski í Barentshafinu, hvernig stæði á því ef stofninn hefði verið orðinn svo lítill, bæði hrygningarstofn og veiðistofn, að það yrði ekki hægt að veiða þar neitt fyrr en í fyrsta lagi eftir tíu ár --- en eins og menn vita þá hefur allt í einu komið þarna fiskur, fyrir meira en ári síðan --- þá var svarið sem fékkst að það væri ekki gott að segja um það. Hins vegar hefði þorskurinn bara verið svo ofboðslega horaður árið 1989 að hann hefði ekkert vaxið og það hefði ekkert verið hægt að veiða hann. En það sem gerðist var að það kom allt í einu æti og umhverfisskilyrði urðu þannig í Barentshafinu að þorskurinn bara tók sig til, eins og einn virðulegur fiskifræðingur orðaði það, hann fór að eta og hann át og át og át þangað til hann stækkaði svo mikið að það var hægt að veiða hann. Ég verð að segja að mér finnst þetta ekki sérlega vísindalegt svar, en ég ætla svo sem ekki að gagnrýna það hér frekar vegna þess að hér er ekki sá maður staddur sem lét þessi orð falla. Ég vil aðeins benda á það að fiskifræðin er ung vísindagrein og við hljótum að krefjast þess að þeir vísindamenn sem þar eru taki allar aðstæður til skoðunar og séu opnir fyrir því sem bæði þeir sem reynslu hafa af umgengni við auðlindina og vísindamenn á öðrum sviðum hafa um málið að segja.
    Þá tel ég einnig að annað vistkerfi sjávar hafi mikið að segja líka, þ.e. aðrar dýrategundir í sjónum. Þar verð ég að nefna bæði seli og hvali. Enn ætla ég að vitna í skýrslu tvíhöfða, sem eins og ég sagði í upphafi og hv. frsm. nál. var ekki hér þegar ég var að hæla honum fyrir það hvað þessi skýrsla geymdi margar góðar upplýsingar, þó ég sé ekki sammála niðurstöðum hennar eða öllum þeim markmiðum sem hún setti fram. En í þessari skýrslu um mótun sjávarútvegsstefnu segir m.a. um át sela á fiski á Íslandsmiðum, og þá er miðað við aflann árið 1987 en síðan er þetta umreiknað miðað við fjölda sela til ársins 1992. Það er talið hér að fiskur sé uppistaða í fæðu bæði landsels og útsels. Þegar þessar tölur eru skoðaðar þá sést að miðað við það sem áætlað er að selir eti af hinum ýmsu fisktegundum, sem hér eru taldar upp, þ.e. ufsi og þorskur eru meginuppistaðan og síðan þó nokkrar fleiri tegundir, þá væri mögulegur viðbótarafli, án sela, 186 þús. tonn, 186 þús. tonn. Hvað er leyfilegur þorskafli núna? 165 þús. tonn. Nú er ég ekki að segja að það eigi að útrýma selunum, langt í frá. En við gætum hugsanlega, ef þeir væru ekki svona margir og ætu ekki svona mikið, aukið aflann um 100 þús. tonn. Ég býst ekki við að þó það sé búið að taka út í ,,villidýrafrv.`` ákvæðið um seli þá breyti það neitt miklu í þessu.
    En hvalir, það er svipað sem þar er talað um. Það er talið að af því sem hvalir þurfi til ætis sé um fjórðungur fiskur. Það er meira að segja einkum uppsjávarfiskur. Það er reyndar vitnað í Fiskifréttir í október 1992 því til staðfestingar. Það er auðvitað rétt að það eru ekki allir hvalir fiskætur en þeir eta aftur á móti það lægsta í lífkeðjunni, þeir eta svifin og smærri fiskana. Þannig að þeir höggva vissulega stórt skarð í það sem síðar yrði nytjafiskur.
    Þá er eitt sem ekki hefur verið rætt í þessari umræðu, þegar við erum að ræða um bæði stjórn fiskveiða og þann fisk sem við ætlum okkur síðan að veiða samkvæmt því kerfi, og það er eldi sjávarfiska. Hér á landi hefur í nokkur ár verið í gangi lúðueldi sem gefur góða raun, en lítið er enn farið að fara út í þorskeldi. Það held ég að sé næsta skrefið, þ.e. að auka þorskeldið. Það er einnig útlit fyrir að eldisfiskar verði sífellt stærri hluti af því sem veiðist á næstu árum. Það má nefna að t.d. í rækjunni hefur hlutfall eldisrækju margfaldast á síðustu þremur árum. Það hefur aukist úr á milli 6--7% í nærri 30% af því sem nýtt er í heiminum.
    Ég veit að margir eru á mælendaskrá og sjálfsagt eiga þeir eftir að ræða af mikilli skynsemi um stjórn fiskveiða og hugsanlegar breytingar á þessu frv. Ég tel að úr því að meiri hluti sjútvn. gerði engar sérstakar breytingar eftir að hafa fengið til liðs við sig hér --- ja, ég hef nú reynar ekki talið það sem segir hér í nál. frá meiri hluta sjútvn. En á fund nefndarinnar komu margir aðilar, og höfðu sjálfsagt mjög margt við þetta frv. að athuga, því það eru taldir upp á heilli blaðsíðu aðilar sem hafi komið til fundar við nefndina. Þeirri upptalningu er lokið með því að segja að gestir hafi langflestir skilað skriflegum greinargerðum og búið. Það er ekkert sagt meira um það hvort tekið hafi verið tillit til þess sem þeir sögðu eða hvort einhverju hafi verið breytt í framhaldi af því, enda virðist sem fram komnar breytingar hafi verið komnar fram áður en frv. og brtt. voru teknar til umræðu í hv. sjútvn. Ef það er ekki rétt hjá mér þá hlýtur hv. frsm. nál. að leiðrétta það ef einhverjar breytingar hafa átt sér stað á þessum brtt. eftir að nefndin fór að fjalla um frv.
    Það eru ákveðnar tegundir af nytjafiski sem eru undir kvóta, en það eru margar tegundir enn ónýttar í sjónum og til þess þurfum við enn meiri rannsóknir og enn meira af þróunarverkefnum. Það skilar sér ekki á morgun í aukinni sölu eða framleiðslu en það gerir það til lengri tíma litið. Það eru ekki mörg ár síðan farið var að veiða rækju og vinna hana en nú er hún orðin stór hluti af okkar útflutningi. Það eru heldur ekki mörg ár, það eru enn þá færri ár, síðan farið var að vinna hörpudiskinn og það eru ekki nema eitt eða tvö ár síðan farið var að vinna ígulkerin. Það er nú verið að ræða um kúfiskinn og vafalaust mætti nýta enn þá fleiri tegundir. Þá má einnig nefna nýtingu á þangi og nýtingu á sölum.
    Ég ætla að ljúka þessari umfjöllun, virðulegi forseti, með því að leggja áherslu á að þó við séum hér að ræða um breytingu á þessum fiskveiðistjórnarlögum, sem ég tel ekki vera mikla breytingu, ég tel hana þó í áttina með það að hefta það framsal sem hér var orðið mjög frjálst á milli skipa og ég tel hana einnig aðeins í áttina hvað varðar smábátana. En ég tel að það sem stjórnvöld þurfi fyrst og fremst á öllum tímum og í framtíðinni að skoða og gæta að sé umgengnin um þessa auðlind. Hún þarf að vera þannig að það sé sjálfbær þróun sem á sér stað. Og það sem tvíhöfða nefndin setti sér í upphafi, að fiskveiðistjórnarkerfið taki jafnt til veiða og vinnslu, það finnst mér aftur á móti ekki gerast með breytingunum á þessu frv. Í síðasta lagi væri nú tilvalið að við gætum treyst því að það væri virt ákvæðið í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða að fiskistofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og það eigi að nýta þá með, eins og segir hér í 1. gr., svo ég hafi þetta orðrétt: ,,Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.`` Ég tel að hvorki lögin um stjórn fiskveiða né þær breytingar sem hér er verið að gera stuðli að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum og það tryggir ekki trausta atvinnu og byggð í landinu vegna þess að það er ekki tekið tillit til bæði veiða og vinnslu.