Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 16:14:52 (7116)


[16:14]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur á því að í umfjöllun nefndarinnar urðu allmiklar breytingar á frv. Þær voru gerðar með tilliti til þeirra sjónarmiða sem komu fram og kannski fyrst og fremst til þess gerðar að ná sátt við sjómenn um málið. Því miður segi ég þurftum við að draga tillögu okkar um fiskvinnslukvótann til baka en ég álít að það mál sé geymt en ekki gleymt. Ég tel að niðurstöður úr svokölluðu togararalli á undanförnum árum sýni mjög vel hvað þessi fræði, fiskifræðin, eru í raun langt komin. Það var birt ágætis litmynd með síðustu niðurstöðu Hafrannsóknastofnunar úr togararalli sem sýndi mjög vel hvernig niðurstöðurnar voru samkvæmar sjálfum sér frá ári til árs, hvernig litlir árgangar voru litlir og komu litlir inn í veiðina og þar fram eftir götunum. Trú mín á þau vísindi jókst því mjög við það.
    Varðandi kvótatrillurnar þá er ekkert að gera meira fyrir þær vegna þess að krókatrillurnar hafa fengið algeran forgang í þessu. Að síðustu vil ég taka það fram út af því sem hv. þm. sagði um fiskifræðinginn og þorskinn í Barentshafinu, að við eigum það sameiginlegt, ég og þorskurinn í Barentshafinu, að ef við etum og etum þá þyngjumst við og fitnum þannig að konu minni þykir nóg um.