Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 16:16:47 (7117)


[16:16]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt alveg rétt hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að þetta tók breytingum frá því frv. var fyrst lagt fram, en ég held að sú breyting hafi ekki orðið í umfjöllun nefndarinnar. Hún varð fyrst og fremst í umfjöllun stjórnarflokkanna sem sömdu um það milli sín hvernig skyldi breyta þessu inni í sjútvn. Það varð ekki í nefndinni. Hvað varðar togararallið, þá hafa sjómenn a.m.k. haft miklar athugasemdir við það að sífellt væri farið á sama stað, á sama tíma og jafnmörg skip og rennt alveg sömu slóðina og hafa talið upp á að einmitt umhverfisskilyrðin byðu upp á að það þyrfti kannski að breyta þarna til því það væru ekki alltaf sömu aðstæður á sama stað á hverju ári.
    Hvað varðar það að hv. þm. segist bæta við sig eins og þorskurinn, þá gildir það nú um fleiri, en ég held að þetta svar vísindamanns sé nú svona frekar hæpið.