Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 16:25:21 (7122)


[16:25]
     Gísli S. Einarsson :
    Frú forseti. Á borðum þingmanna liggur frv. um stjórn fiskveiða. Árið 1990 var sett inn ákvæði um endurskoðun á grundvelli þeirra ákvæða og er verið að fullkomna þá vinnu með frv. og brtt. við það. Hv. 6. þm. Vestf. gerði að umræðuefni rannsóknir á fiskstofnum og aðstæðum í hafinu hvað varðar afkomu þeirra. Ég vil í því sambandi nefna lítillega að í vetur, á nokkrum fundum, hef ég hlustað á fræðinga á ólíkum sviðum, veðurfræði, haffræði og fiskifræði fjalla um þessi mál og ég verð að segja að ekki varð það til þess að maður kæmist að markvissri niðurstöðu um hvernig þessum málum er best fyrir komið. ( JGS: Er ekki veðurfræðingurinn bestur?) Veðurfræðingurinn hafði sitt til málanna að leggja sem ég tel að beri að taka tillit til, hv. þm. Jóhannes Geir, og ég held að menn hefðu betur gert það a.m.k. í ár miðað við þá fiskigengd sem er á grunnslóð.
    Það liggur fyrir í álitum frá stjórnarandstöðunni að þeir telja að stjórn Davíðs Oddssonar hafi klúðrað þessum málum gjörsamlega. Þeir masa um allt og ekkert. Þeir segja gervisjóarasögur þó þeir hafi aldrei komið til sjós og segja að málið sem liggur fyrir sé unnið með hrossakaupum og menn treysti sér ekki til að taka gagnrýni eða breytingartillögu.
    Fyrsti minni hluti lýsir fullri ábyrgð á ríkisstjórn á þessu frv. Auðvitað ber ríkisstjórn ábyrgð með sínum styrk frá hv. alþm. Áheyrnarfulltrúi Kvennalistans vill endurskoða allt frá grunni og gera á frv. grundvallarbreytingar. Annar minni hluti sjútvn. viðurkennir í sínu nál. að ýmislegt hafi verið að hvað varðar stjórnkerfið, síðan er vaðið út og suður um hversu lítið samráð hefur verið haft við minni hluta og hagsmunaaðila.
    Þrátt fyrir að ég telji að enn eigi eftir að gera breytingar á kerfinu þá get ég ekki tekið undir þessa framsetningu, að ekki hafi verið haft samráð og samstarf við að leita lausna. Mín þekking á vinnubrögðum þingsins er sú að ég held að sjaldan hafi verið lögð jafnmikil vinna í kynningu og samráð við hagsmunaaðila í neinu máli eins og hér hefur verið gert. Ég held að hér sé líka á ferðinni það mál sem hvað mest er þörf á að leggja vinnu í.
    Í engu máli sem fyrir þinginu hefur legið er meiri þörf á vönduðum vinnubrögðum og varfærni, þannig að menn hafa gefið sér þann tíma sem til þurfti til að gera sem best þó svo enn verði að gera breytingar, enda liggur fyrir að miðað við atvinnuástand fólksins í landinu þá verður að koma málum fyrir á þann veg að aflinn verði unninn á Íslandi af íslenskum höndum.
    Ég ætla í mínu máli að reyna að fara nokkrum orðum um þá þætti sem mér finnst blasa við að

þurfi að lagfæra, en ég geri mér svo sem ljóst að það er lítil von til annars en að það taki nokkuð langan tíma.
    Mér er ljóst að það eru mörg fyrirtæki sem standa undir afkomukerfi heilla byggða í landinu og eiga í miklum örðugleikum. Það blasir einnig við að á ýmsan hátt hefur kerfið sem slíkt virkað sem þvingunaraðgerð þannig að menn hafa gripið til aðgerða sem eftir á séð er vart unnt að verja. Ég get sem best nefnt að sveitarfélög hafa stofnað til stórra skulda með kvótakaupum sem hafa verið gerð til að reyna að halda vinnu í plássum víða um land.
    Þau atriði sem ég vil m.a. stefna að að nái fram eru að nýting verði skynsamleg á fiskstofnum í fiskveiðilögsögunni og aðlægum miðum. Að tryggð verði búseta í landinu á þann hátt að afli skipa okkar verði fullunninn á landinu og gert eins mikið úr þeim verðmætum og auðlindin getur af sér gefið. Að allur afli sem úr sjó kemur verði nýttur og meðafli skerði ekki veiðiheimildir skipa án þess að heimild um meðafla verði til misnotkunar. Að kerfi sem lýtur að stjórn fiskveiða leiði ekki til kjaraskerðingar sjómanna á þann hátt sem verið hefur með kvótabraski. Að kerfið leiði til aukins frelsis við fiskveiðar þannig að sjómenn og útgerðarmenn geti nýtt veiðigleðina sem ávallt hefur verið aðall íslenskra sjómanna. Að stjórn fiskveiða leiði til bættrar umgengni við auðlindina þannig að ekki séu skilin eftir veiðarfæri í sjó sem halda eilíflega áfram að veiða og drepa fisk til óþurftar. Að stjórn fiskveiða myndi ekki sjálfkrafa eignarrétt eða forræði aðila yfir veiðiheimildum. Að kerfið sé ekki svo ósveigjanlegt og stirt að ráðherra geti ekki með einfaldri reglugerð veitt heimild til frjálsra veiða undir lok fiskveiðiárs eða þegar fyrirsjáanlegt er að ekki næst að nýta stofna svo sem menn ætla. Að stjórn fiskveiða leiði ekki til mismunar og hruns innan stéttar sjálfstæðra smábátaeigenda með veiðirétt samkvæmt úthlutuðum kvóta. Og að stjórnunarkerfi fiskveiða heimili að landað verði meðafla og ráðherra geti ákveðið verð á þeim afla án skerðingar á kvóta.
    Frú forseti. Kerfið sem við erum að fjalla um hendir fiski. Ég hef rætt við einn aðaltalsmann kerfisins. Hann telur að það geti verið að um 5% fari þannig í sjóinn aftur dautt. Ég vil að menn geri sér grein fyrir hvað getur verið um að ræða. Ég undirstrika að það er um ræða 500--600 milljónir upp úr sjó sem gæti verið 1--2 milljarðar fullunninn. Þetta finnst mér alvarlegur hlutur og þetta verða menn að horfa á.
    Ég er búinn að ræða við sjómenn sem lýsa því hvernig farið er með meðafla, hvernig honum er landað fram hjá kerfinu, hvernig meðafli er frystur, saltaður og hertur. Ég hef fagnað því að menn skuli nýta aflann en hendi honum ekki í sjóinn, en auðvitað þarf að viðurkenna svona meðafla. Svona meðafli er ólöglegur. Það hefur ítrekað verið rætt um sjóræningjahafnir þar sem fiski er landað fram hjá vigt og kerfi. Allar þessar aðgerðir eru afleiðingar af ágöllum veiðistjórnunar sem koma þarf í veg fyrir.
    Ég hef heyrt lýsingu á því hvernig þorski er landað sem utankvótafiski eða sem annarri tegund og hvernig það er rétt af í hlutaskiptum. Ég hef líka heyrt lýsingu á því að skip hafi togað hlið við hlið og samkvæmt lönduðum afla er annað skipið aðeins með þorsk en hitt skipið einhverja aðra tegund þó svo veitt sé í sama veiðarfæri.
    Allt þetta og margt fleira get ég nefnt sem dæmi um ágalla kerfisins sem þarf að sníða af því. Þrátt fyrir alla þessa upptalningu ætla ég að viðurkenna að með fyrirliggjandi tillögum er verið að taka hænufet sem breytir stjórnun fiskveiða í samræmi við þær kröfur og samþykktir sem gerðar hafa verið í æðsta valdakerfi Alþfl. og ég vil vitna til, með leyfi forseta:
    ,,Alþfl. mun beita sér fyrir því að endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun verði lögfest og það verði bann við því að sjómenn taki þátt í kvótakaupum.``
    Þetta er m.a. ein af þeim samþykktum sem liggja fyrir frá síðasta flokksþingi Alþfl. Það er verið að stíga skref í áttina að bættri stjórnun og það er verið að koma til móts við kröfur hagsmunaaðila og þrengja möguleika að mínu viti í þá átt að þeir stóru verði stærri og þeir smáu smærri. Einnig að skip megi ekki taka til sín kvóta sem það getur ekki veitt.
    Svokallaðir og sjálfskírðir atvinnumenn ráðast að þeim lagfæringum sem menn eru að ná saman um með fullyrðingum sem eru í ýmsu þeim til háborinnar skammar og lýsa best heift og óeðlilegum viðhorfum þessara aðila í garð þeirra sem eiga með þeim aflann samkvæmt lögum. Með leyfi forseta vitna ég í umsögn frá Ragnari Árnasyni varðandi framsal veiðiheimilda:
    ,,Framsal veiðiheimilda er einn veigamesti þátturinn í hagkvæmni kvótakerfisins. Framsalið þýðir m.a. að kvótarnir leita til hagkvæmustu útgerðanna. Slakari útgerðir sjá sér hag í að selja eða leigja þeim betri kvóta og öfugt. Hagtölur um afkomu útgerðar sýna að framleiðni þeirra á aflaeiningu er fjarska mismunandi. Það er því mikið þjóðhagslegt hagkvæmnisatriði að besti hluti flotans veiði leyfilegan heildarafla.``
    Virðulegi forseti. Ég vil nefna það að ég er með þrjár eða fjórar spurningar til hæstv. sjútvrh. eða hv. 5. þm. Norðurl. v. og vona að þeir aðilar sjái sér færi á því að vera í salnum. Ég á eftir svona 10 mínútur þangað til ég kem að þeim spurningum. Ég skal alveg sleppa þeim við að hlusta á mitt mál á meðan, þeir gætu fengið sér kaffi eða skroppið frá á klósettið eða annað slíkt, en eftir u.þ.b. 10 mínútur óska ég eftir að þessir aðilar verði við, virðulegi forseti.
    Áfram segir: ,,Einfalt dæmi varpar ljósi á þetta. Varlega áætlað er 25% munur á hreinu þjóðhagslegu verðmæti þess þriðjungs fiskafla sem veiddur er af hagkvæmasta hluta flotans.`` Þarna er þessi ágæti maður búinn að skilgreina á einhvern hátt hvaða hluti flotans er hagkvæmastur. Ég er búinn að sjá hér skýrslu eftir skýrslu þar sem er sýnt fram á að mismunandi hagkvæmni fæst fram eftir því hvaða forsendur menn gefa sér og það vil ég hlusta á og horfa á og ég vil fá staðreyndir fyrir máli en ekki einhverjar svona framsetningar sem eru órökstuddar.
    Ég er hér með tilvitnanir frá þeim ágætu mönnum sem telja sig atvinnumenn. Ég er einnig með yfirlýsingu frá stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva án útgerðar. Þessar fullyrðingar allar saman sem ég hef bæði frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, Sjómannasambandinu, Verkamannasambandi Íslands stangast allar meira og minna á. Hvaða niðurstöðu eiga þingmenn svo að komast að eftir þann lestur sem ég vænti þess að hv. þingheimur hafi lagt fyrir sig fyrir umfjöllun þessara mála? ( GÁ: Fresta málinu.) Þessu máli verður ekki frestað, hv. þm. Guðni Ágústsson. Þeir sjálfskírðu hv. atvinnumenn eru meira að segja svo staddir að þeir hafa ítrekað viðurkennt það --- hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, velkominn í salinn --- að þeir geti ekki veitt með skipum sínum t.d. úthlutaðan þorskkvóta og eru háðir því að geta gert samninga við smábáta sem síðan ganga með skarðan hlut frá borði úr sameign þjóðarinnar. Ég tel að það sé eitt gleggsta dæmið sem menn hafa gert að umræðuefni, dæmið frá þeim sjálfum þar sem þeir vitna hvað eftir annað í veiðar Valdimars Sveinssonar VE. Ég vildi að þeir hefðu um leið lýst því hver hlutaskerðing sjómanna er miðað við fullan hlut úr þeim afla sem umræddur bátur skilar á land ef hann færi í gegnum fiskmarkað. Ég get alveg séð fyrir mér að breytingar þarf að gera á stjórnun fiskveiða þannig að allur fiskur verði unninn hér á landi, a.m.k. þorskurinn --- þessi sem étur svo mikið eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson --- svo þær veiðar skili atvinnu inn í þjóðarbúið eins og eðlilegt væri, en ekki þrátt fyrir fullyrðingar atvinnumannanna svonefndu.
    Það sem unnt er að taka undir með þessum umræddu hagsmunabaráttumönnum er athugasemd þeirra um heimildaskipti milli skipa sem stunda loðnu-, síld- og humarveiðar. Þó má benda á að mér finnst ekki rétt að úthlutað sé kvóta til þeirra sem ekki hafa möguleika á að ná honum nema með framsali til annarra vegna þess að þeir komast ekki yfir að ná aflanum sem þeim er úthlutað vegna þess hversu mikinn aðgang þeir eiga að auðlind þjóðarinnar. Afstaða til stjórnunarkerfis fiskveiða mótast af því hvar og hvernig hagsmunaaðilar tengjast kerfinu og einnig af þeirri reynslu sem viðkomandi aðilar hafa aflað sér.
    Þá er rétt að koma að því hver ástæðan var fyrir því að koma á stjórnun fiskveiða. Upphafið að stjórnun fiskveiða var verndunarsjónarmið, sérstaklega á þorski. Hefur kerfið skilað árangri hvað varðar verndun og uppbyggingu? ( Gripið fram í: Já.) Ég segi nei. Vilja menn kenna því um að alltaf hafi verið tekið meira en ráðlagt hefur verið? Ekkert svar. Í þessu sambandi vil ég nefna að það hefur ekki náðst ráðlagður afli nokkurra tegunda, t.d. ýsu, skarkola, ufsa, svo einhver dæmi séu tekin. Þessi staðreynd hlýtur að vekja upp spurningar eins og þessa: Hver er ástæðan? Er hún sú að umræddar tegundir eru til staðar? Vilja menn ekki þessar tegundir í aflaskortinum? Er ástæðan sú að einhvers staðar er pottur brotinn í gögnum þeirra sem gera áætlanir og tillögur? Þessar spurningar gefa tilefni til ályktana um brotalamir.
    Í frægu fæðingarorlofi þorsksins nú á dögunum voru allar veiðar stöðvaðar í Faxaflóa. Ég nefni t.d. smábáta, kvótabáta sem eru búnir með sinn kvóta, bátar á Akranesi. Það háttaði þannig til akkúrat á þessum tíma að þá var steinbítsgengd í Faxaflóa sem er ákaflega sjaldgæft. Það gerist á fjögurra til fimm ára fresti að þar gengur steinbítur upp. Það vita það allir sjómenn nákvæmlega að þar sem steinbítur er kemur yfirleitt ekki annar fiskur á línu. Þetta kerfi sem við erum með er svo stíft og strangt að vegna þess að það var fæðingarorlof þorsks í 10 daga í Faxaflóa þá urðu bátarnir sem voru ekki á þorskveiðum heldur steinbítsveiðum urðu að hætta. Kerfið sem við erum með er svo stirt að það var ekki hægt að leyfa að þeir héldu áfram steinbítsveiðum sem hefði skilað ekki bara vinnu til þessara manna heldur verðmætum í þjóðarbúið og einnig vinnu fyrir fólkið í landi.
    Ég held að það sé einhver ágalli á framkvæmd hins fræga togararalls sem allt er miðað við. Fiskimenn við Breiðafjörð hafa lýst því fyrir mér að þar sem prufutog er framkvæmt á þeirra slóð hefur ekki fengist fiskur árum saman. T.d. þegar rallað var þar í vetur fékkst ekkert í trollið en bátarnir voru að fiska vel í net skammt frá á hefðbundinni fiskislóð. Ég held að þó tekið sé tillit til togararallsins og þeirrar niðurstöðu sem kemur út úr því þá held ég að menn verði að skoða hvernig og hvar árangur hefur verið ár frá ári. Ef menn eru búnir að toga á sömu slóð í langan tíma og aldrei fengið fisk en staðreynd að það er verið að veiða vel af fiski til hliðar við prufuslóðina þá þurfa menn að skoða hvað er að. Það er eitthvað að.
    Ég vildi vita hvernig veiðar smábáta eru notaðar til viðmiðunar við útreikning stofnstærðar. Og ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. hvort það hafi verið gerð úttekt á því hversu mikið af úthlutuðum þorskkvóta togaranna er veiddur með smábátum á grunnslóðum. Mér er kunnugt um að það er mikill afli tekinn úr Faxaflóa og Breiðafirði með aðferðinni tonn á móti tonni, afli sem að mestum hluta fer ekki til vinnslu þar sem fiskinum er landað. Hann er keyrður þvert yfir landið. Það er alveg ljóst að þorskveiðar í net hafa verið stundaðar með minni sókn en áður á þann hátt að hver bátur hefur verið með færri og stórriðnari net í sjó en oft áður. Net hafa einnig frekar verið dregin úr sjó en áður og það er viðurkennt að vegna kostnaðar við að leigja kvóta kemur aðeins í land verðmesti fiskurinn. Menn landa aðeins þeim afla sem best verð fæst fyrir og skerðir sem minnst úthlutaðan aflakvóta. Ég tel ástæðu til að efast um áreiðanleika niðurstöðu frá togararalli með tilliti til þorskstofnsins og þeirra tillagna sem byggðar eru á rallinu um veiðar úr honum. Og ég get ekkert að því gert að ég efist um þetta vegna þess að ég held að ekki sé spurt um hvar og hvernig menn hafa stundað veiðar á grunnslóð þar sem obbinn af þeim þorski hefur fengist sem hefur verið landað núna á síðustu tveimur árum.

    Afleiðingar af þessum ákvörðunum á afkomu þjóðarinnar eru mjög afdrifaríkar og ég held að menn voni að valdar séu bestar leiðir. En ég get ómögulega látið vera að velta því fyrir mér hversu mikið tillit er tekið til aðstæðna í umherfinu af völdum strauma og hitastigs í hafinu umhverfis landið. Og ég spyr hvort ekki geti verið nauðsyn á að taka meira tillit til dauðatíðni, t.d. þorsks, af náttúrulegum ástæðum þegar verið er að ákvarða kvóta.
    Frú forseti. Það er rætt um hagræðingu og meiri hagkvæmni. Ég ætla ekki beint að tala um fiskveiðar. Ég ætla að tala um það sem tengist mjög fiskveiðum. Skipin okkar, togaraflotinn, notar mjög mikið eldsneyti. Hér á hinu háa Alþingi kom fram tillaga um notkun eldsneytis og mengunarvarnabúnaðar sem má tengja eldsneytiskerfi í togurunum. Þar var sett fram varleg fullyrðing um að spara mætti 300--400 millj. á togaraflotanum. Tillaga sem þessi fær varla umfjöllun hvað þá heldur að kallað sé eftir áliti hjá mönnum sem geta sýnt fram á að þessi framsetning er rétt. Það er ekki gáð að því. Það er ekki athugað einu sinni. Það eru fengnar umsagnir frá ólíklegustu aðilum, olíufélögunum, um hvort það sé rétt að setja eldsneytissparandi tæki við vélarnar. Það liggur fyrir núna að þarna er hægt að spara. Sem betur fer hafa nokkrar útgerðir áttað sig á að um er að ræða 4--6% sparnað plús minnkandi slit á vélum. Gæti verið að það væri víða í okkar kerfi sem aðstæður eru þannig að menn taka ekki einu sinni til afgreiðslu eða umfjöllunar tillögur eins og ég er að vitna hér til? Ég þarf ekkert að útlista þessa hugmynd nánar en hún er svona eins og ég segi.
    Þessar hugleiðingar sem ég hef verið að fara með eru að mestu settar fram með þeirri von að þær verði til frekara gagns við vinnu í framtíðinni við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Ég vildi óska að það hefði náðst meiri árangur við breytingar á kerfinu en raun ber vitni. Ég held að breytingar séu á réttan veg og ég afneita dylgjum um hrossakaup og að verið sé að lægja öldur óánægju í flokkunum með bráðabirgðaaðgerðum. ( GÁ: Hvers vegna er þá verið að . . .  ?) Ég tel hv. virðulegur þm. Guðni Ágústsson, að það sé verið að leita þeirra sáttaleiða sem færar eru. ( GÁ: Við hverja? Kratana?) ( Gripið fram í: Ekki Framsókn.) ( Gripið fram í: Hvað með rækjuna?) Mér er auðvitað ljóst að tillögur okkar sextánmenninganna sem voru ræddar áðan um meðafla leiddu til þess að menn fengust til að gera þær brtt. sem fyrir okkur liggja. E.t.v. mun ég styðja frv. öll í heild sinni þegar þau koma til atkvæða vegna þess að ef þau verða ekki samþykkt leiðir það til ófyrirsjáanlegra afleiðinga fyrir þjóðina.
    Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson nefndi í sinni ræðu, einhvern tímann á ferlinu frá því að umræðan hófst, krókaveiðigreifa. Hverjir eru það? Eru það þeir sem hafa leyfi til að stunda veiðar hálft árið ef gæftir leyfa? Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson ætti ekki að draga slíka hugmyndafræði inn í umræðuna. Á Íslandi hefur aðeins verið rætt um eina tegund greifa. Það eru sægreifar, sem braska með afla og afkomu heilla byggða og það er þeirra sök að reynt er að hamla á móti því að kerfið sem við erum að fjalla um festist í sessi og að takmarkaðar verði heimildir þeirra til brasks og annars slíks.
    Ég hef spurningar til hæstv. sjútvrh. og ef hann heyrir ekki mitt mál þá nægir mér að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson svari sem framsögumaður þessa frv.: Er það rétt að það vanti sveigjanleika í kerfið til að leyfa veiðar við sérstakar aðstæður? Þær sérstöku aðstæður eru eins og ég nefndi hér áðan þegar fæðingarorlof þorsksins er sett í gang en bátum sem veiða aðrar tegundir sem hægt er að veiða utan kvóta er bannað að fara á sjó.
    Ég vil spyrja líka: Er hæstv. sjútvrh. eða hv. 5. þm. Norðurl. v. sammála mér um það að stjórn fiskveiða þurfi stöðuga endurskoðun? Ég þarf að fá svör við þessum spurningum áður en ég get gert það upp við mig hver mín afstaða verður við atkvæðagreiðsluna og ég mun hlusta mjög grannt eftir svörum við þessum spurningum. ( SJS: Er þingmaðurinn í vafa? Er þetta ekki stjórnarfrv.?)
    Frú forseti. Ég flutti langt mál um hvernig draga má ályktanir af því hvernig hafi verið farið með botninn á miðunum í kringum landið þar sem kannski eru helstu uppeldisstöðvar þorsks. Ég get nefnt það svæði sem fyrir liggur tillaga um að friða, B3 svæðið á Breiðafirði. Þar hafa verið klipptir af allt að 8 metra standar á hrauninu þar sem fiskurinn átti griðland til þess að hleypa togveiðiskipum, þessum afsöguðu nefstuttu, í veiðar þar sem áður voru stundaðar hefðbundnar krókaveiðar. Ég get rætt um fjölda marga aðra hluti sem mér er kunnugt um að hafi verið gerðir. Það hefur verið skóflað upp kóröllum af botninum þar sem togararnir stunda karfaveiðar til að komast betur að. En ég ætla ekki að gera það en læt þessi örfáu orð nægja um þetta mál. En ég vona að ég fái svar við mínum spurningum.