Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 16:57:22 (7123)


[16:57]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tók þannig til orða að kalla þá krókagreifa sem eru eigendur krókaleyfisbáta og leigja þá út. Þeir sem leigja slíka báta eru gjarnan eigendur kvótatrilla, eru búnir með kvótann og fara þá á sjó hjá öðrum. Ég held að þetta sé svona hliðstæð nafngift og tíðkast í þessari atvinnugrein á ýmsum öðrum en lýsir þessu hugtaki ágætlega þannig að hv. þm. sé ekki í neinum vafa um hvað við er átt.
    Varðandi að það vanti eitthvað í kerfið vegna sérstakra aðstæðna þá gilda tvenns konar lög um þetta. Annars vegar veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og svo um stjórn fiskveiða. En stjórn fiskveiða snýr einkum að hagræna þættinum á meðan lögin um fiskveiðar í landhelgi snúa meira að tæknilegum atriðum

og þau lög munu fara í endurskoðun eins og hann veit.
    Varðandi það hvort stjórn fiskveiða þurfi stöðugrar endurskoðunar við þá gildir nákvæmlega það sama um stjórn fiskveiða og hverja aðra löggjöf að við erum að tala hér um leikreglur sem gilda á þessu sviði. Þær eru ekkert óheilagri eða heilagri heldur en aðrar leikreglur sem gilda hér um viðskipti í landinu.
    Varðandi það að fiski sé ekið milli landshluta þá stafar það einungis af því að nú til dags eru samgöngur betri en áður var og menn eru hættir að flytja fólkið að fiskinum, eins og gerðist á vertíðum hér áður fyrr, heldur flytja menn nú fiskinn að fólkinu.