Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 17:03:01 (7127)


[17:03]
     Gísli S. Einarsson (andsvar) :
    Frú forseti. Ef ég eða einhver gæti svarað því nákvæmlega hvernig þetta ætti að gerast þá hygg ég að búið væri að koma í veg fyrir og takmarka þessar aðgerðir eins og þarf. Ég á ekki von á því að með þeim breytingum sem við erum að gera núna á stjórn fiskveiða verði unnt að koma í veg fyrir þennan flutning vegna þess að tonn á móti tonni veiði er heimil samkvæmt kerfinu. Ef ég samþykki það þá auðvitað samþykki ég að það sem felst í þessu verði gert á þennan veg áfram. En ég lít svo á að þær brtt. sem fyrir liggja takmarki þessa hluti og það dregur mig til að hallast að því að ég styðji brtt. og styðji frv.
    En ég hef borið fram spurningar til hæstv. sjútvrh. sem ég vona að hann sjái sér fært að svara. Ég nota tíma minn núna til að ítreka það að ég spyr hvort unnt sé að koma því við að svona slys eigi sér ekki stað eins og þegar kvótabátarnir, sem voru búnir með kvótann sinn, voru reknir í land frá því að veiða tegund utan kvóta þar sem nánast enginn meðafli er með.